Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/17

Úr Wikiheimild

Um haustið að vetri var blótveisla á Hlöðum og sótti þar til konungur. Hann hafði jafnan fyrr verið vanur ef hann var staddur þar er blót voru að matast í litlu húsi með fá menn. En bændur töldu að því er hann sat eigi í hásæti sínu þá er mestur var mannfagnaður. Sagði jarl að hann skyldi eigi þá svo gera. Var og svo að konungur sat í hásæti sínu.

En er hið fyrsta full var skenkt þá mælti Sigurður jarl fyrir og signaði Óðni og drakk af horninu til konungs. Konungur tók við og gerði krossmark yfir.

Þá mælti Kár af Grýtingi: „Hví fer konungurinn nú svo? Vill hann enn eigi blóta?“

Sigurður jarl svarar: „Konungur gerir svo sem þeir allir er trúa á mátt sinn og megin og signa full sitt Þór. Hann gerði hamarsmark yfir áður hann drakk.“

Var þá kyrrt um kveldið.

Eftir um daginn er menn gengu til borða þá þustu bændur að konungi, sögðu að hann skyldi eta þá hrossaslátur. Konungur vildi það fyrir engan mun. Þá báðu þeir hann drekka soðið. Hann vildi það eigi. Þá báðu þeir hann eta flotið. Hann vildi það og eigi og var þá við atgöngu.

Sigurður jarl segir að hann vill sætta þá og bað þá hætta storminum og bað hann konung gína yfir ketilhödduna er soðreykinn hafði lagt upp af hrossaslátrinu og var smjör haddan. Þá gekk konungur til og brá líndúk um hödduna og gein yfir og gekk síðan til hásætis og líkaði hvorigum vel.