Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/18
Um veturinn eftir var búið til jóla konungi inn á Mærini. En er að leið jólunum þá lögðu þeir stefnu með sér átta höfðingjar er mest réðu fyrir blótum í öllum Þrændalögum. Þeir voru fjórir utan úr Þrándheimi: Kár af Grýtingi og Ásbjörn af Meðalhúsum, Þorbergur af Varnesi, Ormur af Ljoxu, en af Innþrændum: Blótólfur af Ölvishaugi, Narfi af Staf úr Veradal, Þrándur haka af Eggju, Þórir skegg af Húsabæ í Eyjunni innri. Þessir átta menn bundust í því að þeir fjórir af Útþrændum skyldu eyða kristninni en þeir fjórir af Innþrændum skyldu neyða konung til blóta.
Útþrændir fóru fjórum skipum suður á Mæri og drápu þar presta þrjá og brenndu kirkjur þrjár, fóru aftur síðan.
En er Hákon konungur og Sigurður jarl komu inn á Mærini með her sinn þá voru þar bændur komnir allfjölmennt.
Hinn fyrsta dag að veislunni veittu bændur honum atgöngu og báðu hann blóta en hétu honum afarkostum ella. Sigurður jarl bar þá mál í millum þeirra. Kemur þá svo að Hákon konungur át nokkura bita af hrosslifur. Drakk hann þá öll minni krossalaust, þau er bændur skenktu honum.
En er veislu þeirri var lokið fór konungur og jarl þegar út á Hlaðir. Var konungur allókátur og bjóst þegar í brott með öllu liði sínu úr Þrándheimi og mælti svo að hann skyldi fjölmennari koma í annað sinn í Þrándheim og gjalda Þrændum þenna fjandskap er þeir höfðu til hans gert.
Sigurður jarl bað konung gefa Þrændum þetta ekki að sök, segir svo að konungi mundi ekki það duga að heitast eða herja á innanlandsfólk og þar síst er mestur styrkur var landsins sem í Þrándheimi var.
Konungur var svo reiður að ekki mátti orðum við hann koma. Fór hann í brott úr Þrándheimi og suður á Mæri, dvaldist þar um veturinn og um vorið. En er sumraði dró hann lið að sér og voru þau orð á að hann mundi fara með her þann á hendur Þrændum.