Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/19

Úr Wikiheimild

Hákon konungur var þá á skip kominn og hafði lið mikið. Þá komu honum tíðindi sunnan úr landi, þau að synir Eiríks konungs voru komnir sunnan af Danmörk í Víkina og það fylgdi að þeir höfðu elt af skipum Tryggva konung Ólafsson austur við Sótanes. Höfðu þeir þá víða herjað í Víkinni og höfðu margir menn undir þá gengið.

En er konungur spurði þessi tíðindi þá þóttist hann liðs þurfa. Sendi hann þá orð Sigurði jarli að koma til sín og svo öðrum höfðingjum þeim er honum var liðs að von. Sigurður jarl kom til Hákonar konungs og hafði allmikið lið. Voru þar þá allir Þrændir þeir er um veturinn höfðu mest gengið að konunginum að pynda hann til blóta. Voru þeir þá allir í sætt teknir af fortölum Sigurðar jarls.

Fór Hákon konungur þá suður með landi. En er hann kom suður um Stað þá spurði hann að Eiríkssynir voru þá komnir á Norður-Agðir. Fóru þá hvorir í móti öðrum. Varð fundur þeirra á Körmt. Gengu þá hvorir af skipum og börðust á Ögvaldsnesi. Voru hvorirtveggju allfjölmennir. Varð þar orusta mikil. Sótti Hákon konungur hart fram og var þar fyrir Guttormur konungur Eiríksson með sína sveit og eigast þeir höggvaskipti við. Þar féll Guttormur konungur og var merki hans niður höggvið. Féll þar þá mart lið um hann. Því næst kom flótti í lið Eiríkssona og flýðu þeir til skipanna og reru í brott og höfðu látið mikið lið.

Þess getur Guttormur sindri:

Val-Rögnir lét vegnum
vígnestr saman bresta
handar vafs of höfðum
hlymmildingum gildir.
Þar gekk Njörðr af Nirði
nadds hámána raddar
valbrands víðra landa
vopnunduðum sunda.

Hákon konungur fór til skipa sinna og hélt austur eftir Gunnhildarsonum. Fóru þá hvorirtveggju sem mest máttu þar til er þeir komu á Austur-Agðir. Þá sigldu Eiríkssynir á haf og suður til Jótlands.

Þess getur Guttormur sindri:

Álmdrógar varð ægis
oft sinn, en þess minnumst,
barma öld fyr Baldri
bensíks vita ríkis.
Böðsækir hélt bríkar,
bræðr síns, og rak flæðu
undan allar kindir
Eiríks á haf snekkjum.

Síðan fór Hákon konungur norður aftur til Noregs en Eiríkssynir dvöldust þá enn í Danmörk langa hríð.