Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/20

Úr Wikiheimild

Eftir þessa orustu setti Hákon konungur það í lögum um allt land með sjá og svo langt upp á land sem lax gengur ofarst, að hann skipaði allri byggð og skipti í skipreiður en hann skipti skipreiðum í fylki. Var þá ákveðið hversu mörg skip voru eða hversu stór skyldi út gera úr hverju fylki þá er almenningur væri úti og skyldi almenningur vera skyldur út að gera þegar er útlendur her væri í landi. Það skyldi og fylgja útboði því að vita skyldi gera á hám fjöllum svo að hvern mætti sjá frá öðrum. Segja menn svo að á sjö nóttum fór herboðið frá hinum synnsta vita í hina nyrstu þinghá á Hálogalandi.