Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/22

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Hákonar saga Aðalsteinsfóstra
Höfundur: Snorri Sturluson
22. Ferð Eiríkssona til Noregs

Þá er Hákon hafði verið konungur í Noregi tuttugu vetur komu sunnan úr Danmörku synir Eiríks og höfðu allmikið lið. Það var mikið lið er þeim hafði fylgt í hernaði en þó var miklu meiri Danaher er Haraldur Gormsson hafði fengið þeim í hendur. Þeir fengu hraðbyri mikið og sigldu út af Vendli og komu utan að Ögðum, héldu síðan norður með landi og sigldu síðan dag og nótt.

En vitum var ekki upp skotið fyrir þá sök að sú var siðvenja að vitar fóru austan eftir landi en austur þar hafði ekki orðið vart við ferð þeirra. Það bar og enn til að konungur hafði viðurlög mikil ef vitar væru rangt upp bornir, þeim mönnum er kunnir og sannir urðu að því, fyrir þá sök að herskip og víkingar fóru um úteyjar og herjuðu og hugðu landsmenn að þar mundu fara synir Eiríks. Var þá vitum upp skotið og varð herhlaup um land allt en Eiríkssynir fóru aftur til Danmerkur og höfðu engan Danaher haft nema sitt lið. En stundum voru það annars konar víkingar. Varð Hákon konungur þessu mjög reiður er starf og fékostnaður varð af þessu en ekki gagn. Bændur töldu og að fyrir sína hönd er svo fór.

Og varð þessi sök til er engi njósn fór fyrir um ferð Eiríkssona fyrr en þeir komu norður í Úlfasund. Þeir lágu þar sjö nætur. Fór þá sögn hið efra um eiðið norður um Mæri en Hákon konungur var þá á Sunn-Mæri, í ey þeirri er Fræði heitir þar sem heitir Birkiströnd, að búi sínu og hafði ekki lið nema hirð sína og bændur þá er verið höfðu í boði hans.