Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/23

Úr Wikiheimild

Njósnarmenn komu til Hákonar konungs og sögðu honum sín erindi, að Eiríkssynir voru með her mikinn fyrir sunnan Stað. Þá lét hann kalla til sín þá menn er þar voru vitrastir og leitaði ráðs við þá hvort hann skal berjast við sonu Eiríks, þótt liðsmunur sé mikill, eða skal hann fara norður undan og fá sér lið meira.

Egill ullserkur er nefndur bóndi einn er þar var þá, gamlaður mjög, og hafði verið meiri og sterkari hverjum manni og hinn mesti orustumaður. Hann hafði lengi borið merki Haralds konungs hins hárfagra.

Egill svaraði ræðu konungs: „Var eg í nokkurum orustum með Haraldi konungi föður yðrum. Barðist hann stundum við meira liði, stundum við minna. Hafði hann jafnan sigur. Aldregi heyrði eg hann leita þess ráðs að vinir hans skyldu kenna honum að flýja. Munum vér og eigi það ráð gefa konungur því að vér þykjumst eiga höfðingja öruggan. Þér skuluð og eiga trausta fylgd af oss.“

Margir aðrir studdu og þá þetta mál. Konungur sagði og svo að hann var þess fúsari að berjast með það er til fengist. Var það þá ráðið. Lét konungur þá skera upp herör og senda alla vega frá sér og lét draga lið saman, slíkt er hann fékk.

Þá mælti Egill ullserkur: „Það óttaðist eg um hríð er friður þessi hinn mikli var að eg mundi verða ellidauður inni á pallstrám mínum en eg vildi heldur falla í orustu og fylgja höfðingja mínum. Kann nú vera að svo megi verða.“