Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/24

Úr Wikiheimild

Synir Eiríks héldu norður um Stað þegar er leiði gaf. En er þeir komu norður um Stað þá spyrja þeir hvar Hákon konungur var og halda til móts við hann. Hákon konungur hafði níu skip. Hann lagðist norður undir Fræðarberg í Féeyjarsundi en Eiríkssynir lögðu að fyrir sunnan bergið. Þeir höfðu meir en tuttugu skip.

Hákon konungur sendi þeim boð og bað þá á land ganga, segir að hann hafði þeim völl haslað á Rastarkálf. Þar eru sléttir vellir og miklir en fyrir ofan gengur brekka löng og heldur lág. Gengu Eiríkssynir þar af skipum sínum og norður yfir hálsinn fyrir innan Fræðarberg og svo fram á Rastarkálf.

Egill mælti þá til Hákonar konungs, bað hann fá sér tíu menn og tíu merki. Konungur gerði svo. Gekk þá Egill með menn sína upp undir brekkuna.

En Hákon konungur gekk upp á völlinn með sitt lið, setti upp merki og fylkti og sagði svo: „Vér skulum hafa fylking langa svo að þeir kringi eigi um oss þótt þeir hafi lið meira.“

Gerðu þeir svo. Varð þar orusta mikil og hin snarpasta. Egill lét þá setja upp merki þau tíu er hann hafði og skipaði svo mönnum þeim er báru að þeir skyldu ganga sem næst brekkunni og láta stundar hríð í millum hvers þeirra. Þeir gerðu svo og gengu fram með brekkunni sem næst svo sem þeir mundu vilja koma á bak þeim Eiríkssonum. Það sáu þeir er efstir stóðu í fylkingu Eiríkssona að merki mörg fóru óðfluga og gnæfuðu fyrir ofan brekkuna og hugðu að þar mundi fylgja lið mikið og mundi vilja koma á bak þeim, milli og skipanna. Gerðist þar þá kall mikið. Sagði hver öðrum hvað títt var. Því næst kom flótti í lið þeirra. En er það sáu konungarnir þá flýðu þeir. Hákon konungur sótti þá hart fram og ráku þeir flóttann og felldu lið mikið.