Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/25
Gamli Eiríksson, þá er hann kom upp á hálsinn fyrir ofan bergið, þá snerist hann aftur og sá þá að ekki lið fór eftir meira en það er þeir höfðu áður barist við og þetta var prettur einn. Þá lét Gamli konungur blása herblástur og setja upp merki og skaut á fylking. Hurfu að því allir Norðmenn en Danir flýðu til skipanna.
En er Hákon konungur og hans lið kom að þá varð þar orusta í annað sinn hin snarpasta. Hafði þá Hákon konungur meira lið. Lauk svo að Eiríkssynir flýðu. Sóttu þeir þá suður af hálsinum en sumt lið þeirra opaði suður á bergið og fylgdi Hákon konungur þeim. Völlur sléttur er austan af hálsinum og vestur á bergið og þá hamrar brattir vestur af. Þá opuðu menn Gamla upp undan á bergið en Hákon konungur sótti að þeim svo djarflega að hann drap suma en sumir hljópu vestur af berginu og voru hvorirtveggju drepnir og skildist konungur svo fremi við er hvert barn var dautt.