Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/26

Úr Wikiheimild

Gamli Eiríksson flýði og af hálsinum og ofan á jöfnu fyrir sunnan bergið. Þá sneri Gamli konungur enn í mót og hélt upp orustu. Kom þá enn lið til hans. Þá komu og allir bræður hans með miklar sveitir. Egill ullserkur var þá fyrir Hákonar mönnum og veitti harða atgöngu og skiptust þeir Gamli konungur höggum við. Fékk Gamli konungur sár stór en Egill féll og mart lið með honum.

Þá kom að Hákon konungur með þær sveitir er honum höfðu fylgt. Varð þá enn ný orusta. Sótti þá enn Hákon konungur hart fram og hjó menn til beggja handa sér og felldi hvern yfir annan.

Svo segir Guttormur sindri:

Hræddr fór hjörva raddar
herr fyr málma þverri.
Rógeisu gekk ræsir
ráðsterkr framar merkjum.
Gerra gramr í snerru
geirvífa sér hlífa,
hinn er yfrinn gat jöfra
óskkvánar byr mána.

Eiríkssynir sáu falla menn sína alla vega frá sér. Þá snúast þeir á flótta til skipa sinna en þeir er fyrri höfðu flúið á skipin, þá höfðu þeir út hrundið skipunum en sum skipin voru þá uppi fjöruð. Þá hljópu allir Eiríkssynir á sund og það lið er þeim fylgdi. Þar féll Gamli Eiríksson en aðrir bræður hans náðu skipunum og héldu brott síðan með það lið er eftir var og héldu síðan suður til Danmarkar.