Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/5

Úr Wikiheimild

En er þau Gunnhildur urðu þessa vör, að Eiríkur konungur var fallinn og hann hafði áður herjað land Englakonungs, þá þykjast þau vita að þeim mun þar vera eigi friðvænt. Búast þau þá þegar í brott af Norðimbralandi og hafa skip þau öll er Eiríkur konungur hafði átt, höfðu lið það og allt er þeim vildi fylgja og óf lausafjár er þar hafði saman dregist í sköttum á Englandi en sumt hafði fengist í hernaði. Þau halda liði sínu norður til Orkneyja og staðfestust þar um hríð. Þá var þar jarl Þorfinnur hausakljúfur sonur Torf-Einars. Tóku þá synir Eiríks undir sig Orkneyjar og Hjaltland og höfðu skatta af og sátu þar um vetrum en fóru í vesturvíking á sumrum, herjuðu um Skotland og Írland.

Þess getur Glúmur Geirason:

Hafði för til ferju
fróðr Skáneyjar góða
blakkríðandi bakka
barnungr þaðan farna.
Rógeisu vann ræsir,
rand-Ullr, á Skotlandi,
sendi seggja kindar
sverðbautinn her Gauti.
Dólgeisu rak dísar,
drótt kom mörg á flótta,
gumna vinr að gamni
gjóðum, írskrar þjóðar.
Foldar rauð og felldi
Freyr í manna dreyra
sunnr, á sigr um hlynninn,
seggi mækis eggjar.