Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/6

Úr Wikiheimild

Hákon konungur Aðalsteinsfóstri lagði undir sig allan Noreg þá er Eiríkur bróðir hans hafði brott flúið. Hákon konungur sótti hinn fyrsta vetur vestur í landið, eftir það norður í Þrándheim og sat þar. En fyrir þær sakir að eigi þótti friðlegt ef Eiríkur konungur leitaði vestan um haf með her sinn, sat hann fyrir því með lið sitt um mitt land í Firðafylki og Sogni, á Hörðalandi og Rogalandi.

Hákon setti Sigurð Hlaðajarl yfir öll Þrændalög svo sem hann hafði fyrr haft og Hákon faðir hans af Haraldi konungi hinum hárfagra.

En er Hákon konungur spurði fall Eiríks konungs bróður síns og það að synir Eiríks konungs höfðu ekki traust í Englandi þá þótti honum lítil ógn af þeim standa, fór þá með liði sínu á einu sumri austur í Vík.

Í þann tíma herjuðu Danir mjög í Víkina og gerðu þar oft mikinn skaða. En er þeir spurðu að Hákon konungur var þar kominn með her mikinn þá flýðu allir undan, sumir suður til Hallands en þeir er nær meir voru Hákoni konungi stefndu út á hafið og svo suður til Jótlands. En er Hákon konungur varð þessa var þá sigldi hann eftir þeim með allan her sinn.

En er hann kom til Jótlands og menn urðu við það varir þá draga þeir her saman og vilja verja land sitt og ráða til orustu við Hákon konung. Varð þar orusta mikil. Barðist Hákon konungur svo djarflega að hann var fyrir framan merki og hafði hvorki hjálm né brynju. Hákon konungur hafði sigur og rak flótta langt á land upp.

Svo kvað Guttormur sindri í Hákonardrápu:

Bifrauknum trað bekkjar
bláröst konungr árum.
Mætr hlóð mildingr Jótum
mistar vífs í drífu.
Svangæðir rak síðan
sótt Jálfaðar flótta
hrótgiljaðar hylja
hrafnvíns að mun sínum.