Fara í innihald

Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/28

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Haraldar saga hárfagra
Höfundur: Snorri Sturluson
28. Upphaf Torf-Einars, jarls í Orkneyjum

Rögnvaldur jarl á Mæri spurði fall Sigurðar bróður síns og það að þá sátu í löndunum víkingar. Þá sendi hann vestur Hallað son sinn og tók hann jarlsnafn og hafði lið mikið vestur. En er hann kom til Orkneyja þá settist hann í löndin. En bæði á haust og um vetur og um vor fóru víkingar um Eyjar, námu nesnám og hjuggu strandhögg. Það leiddist Hallaði jarli að sitja í eyjunum. Veltist hann þá úr jarldóminum og tók höldsrétt. Fór hann síðan austur í Noreg.

En er Rögnvaldur jarl spurði þetta lét hann illa yfir ferð Hallaðar, sagði að synir hans mundu verða ólíkir foreldri sínu.

Þá svaraði Einar: „Eg hefi lítinn metnað af þér. Á eg við litla ást að skiljast. Mun eg fara vestur til Eyja ef þú vilt fá mér styrk nokkurn. Mun eg því heita þér er þér mun allmikill fagnaður á vera að eg mun eigi aftur koma til Noregs.“

Rögnvaldur segir að það líkaði honum vel að hann kæmi eigi aftur „því að mér er lítils von að frændum þínum sé sæmd að þér því að móðurætt þín öll er þrælborin.“

Rögnvaldur fékk Einari eitt langskip og skipaði það til handa honum. Sigldi Einar um haustið vestur um haf. En er hann kom til Orkneyja þá lágu þar fyrir víkingar tveim skipum, Þórir tréskegg og Kálfur skurfa. Einar lagði þegar til orustu við þá og sigraðist en þeir féllu báðir.

Þá var þetta kveðið:

Þá gaf hann Tréskegg tröllum,
Torf-Einar drap Skurfu.

Hann var fyrir því kallaður Torf-Einar að hann lét skera torf og hafði það fyrir eldivið því að engi var skógur í Orkneyjum. Síðan gerðist Einar jarl yfir eyjunum og var hann ríkur maður. Hann var ljótur maður og einsýnn og þó manna skyggnastur.