Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/31

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Sveinn Úlfsson var það haust staddur á Skáni og byrjaði ferð sína austur í Svíaveldi og ætlaði að gefa upp tignarnafn það er hann hafði tekið í Danmörk. En er hann var kominn til hests síns þá riðu þar til hans menn nokkurir og sögðu honum tíðindin, þau hin fyrstu að andaður er Magnús konungur Ólafsson og það með að allur Norðmannaher var í brott farinn úr Danmörk.

Sveinn svarar því skjótt og mælti: „Því skýt eg til guðs að aldrei síðan skal eg flýja Danaveldi meðan eg lifi.“

Stígur hann þá á hest sinn og ríður þá suður á Skáni. Dreif þá þegar mikið lið til hans. Þann vetur lagði hann undir sig allt Danaveldi. Tóku þá allir Danir hann til konungs.

Þórir bróðir Magnúss konungs kom til Sveins um haustið með orðsendingum Magnúss konungs svo sem fyrr var ritað. Tók Sveinn vel við honum og var Þórir lengi með honum síðan í góðu yfirlæti.