Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/38

Úr Wikiheimild

Snið:Header

Magnús konungur Ólafsson lét gera Ólafskirkju í Kaupangi. Í þeim stað hafði náttsætt verið lík konungs. Það var þá fyrir ofan bæinn. Hann lét þar og reisa konungsgarðinn. Kirkjan varð eigi alger áður konungur andaðist. Lét Haraldur konungur fylla það er á skorti. Hann lét og efna þar í garðinum að gera sér steinhöll og varð hún eigi alger áður hann lést. Haraldur konungur lét reisa af grundvelli Maríukirkju uppi á melinum, nær því er heilagur dómur konungsins lá í jörðu hinn fyrsta vetur eftir fall hans. Það var mikið musteri og gert sterklega að líminu svo að varla fékk brotið þá er Eysteinn erkibiskup lét ofan taka. Heilagur dómur Ólafs konungs var varðveittur í Ólafskirkju meðan Maríukirkja var í gerð. Haraldur konungur lét húsa konungsgarð ofan frá Maríukirkju við ána þar sem nú er. En þar sem hann hafði höllina látið gera lét hann vígja hús það til Gregoríuskirkju.