Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/40

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Einar þambarskelfir var ríkastur lendra manna í Þrándheimi. Heldur var fátt um með þeim Haraldi konungi. Hafði Einar þó veislur sínar, þær sem hann hafði haft meðan Magnús konungur lifði. Einar var mjög stórauðigur. Hann átti Bergljótu dóttur Hákonar jarls sem fyrr var ritað. Eindriði var þá alroskinn sonur þeirra. Hann átti þá Sigríði dóttur Ketils kálfs og Gunnhildar systurdóttur Haralds konungs. Eindriði hafði fríðleik og fegurð af móðurfrændum sínum, Hákoni jarli eða sonum hans, en vöxt og afl hafði hann af föður sínum, Einari, og alla þá atgervi er Einar hafði umfram aðra menn. Hann var hinn vinsælsti maður.