Heimskringla/Magnúss saga góða/32
Útlit
Þegar er Magnús konungur spurði til Sveins þá hélt hann sínu liði yfir til Fjóns. En þegar er Sveinn spurði það þá gekk hann á skip og sigldi og kom fram á Skáni, fór þaðan í Gautland og síðan á fund Svíakonungs.
En Magnús konungur gekk upp á Fjóni, lét þar ræna og brenna fyrir mörgum. Allir Sveins menn, þeir sem þar voru, flýðu brott víðs vegar.
Svo segir Þjóðólfur:
- Hrindr á hróka landi
- hregg af eikiveggjum,
- suðr leikr eldr um unninn
- óðr, í loft upp glóðum.
- Bær logar hálfu hæra
- hjónum nær á Fjóni.
- Ræfr þola nauð og næfrar.
- Norðmenn sali brenna.
- Menn eiga þess minnast
- manna Sveins að kanna,
- víga-Freyr, síðs voru,
- vef Gefn, þrjár stefnur.
- Von er fagrs á Fjóni,
- fljóð. Dugir vopn að rjóða.
- Verum með fylktu fólki
- fram í vopna glammi.
Eftir þetta gekk allt fólk undir Magnús konung í Danmörk. Þá var þar friður góður hinn efra hlut vetrar. Setti þá Magnús konungur sína menn til stjórnar um land allt þar í Danmörk. En er á leið vorið þá fór hann herliði sínu norður í Noreg og dvaldist þar mjög lengi um sumarið.