Heimskringla/Magnússona saga/21

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Eysteinn konungur og Sigurður konungur voru einn vetur báðir á veislu á Upplöndum og átti sinn bæ hvor þeirra. En er skammt var milli þeirra býja er konungar skyldu veislu taka þá gerðu menn það ráð að þeir skyldu vera báðir samt á veislunum og sínu sinni að hvors búum. Voru þeir fyrst báðir samt að því búi er Eysteinn konungur átti. En um kveldið er menn tóku að drekka, þá var mungát ekki gott og voru menn hljóðir.

Þá mælti Eysteinn konungur: „Þó eru menn hljóðir. Hitt er ölsiður meiri að menn geri sér gleði. Fáum oss ölteiti nokkura. Mun þá enn á rætast gaman manna. Sigurður bróðir, það mun öllum sæmst þykja að við hefjum nokkura skemmtanarræðu.“

Sigurður konungur svarar heldur stutt: „Ver þú svo margur sem þú vilt en lát mig ná að þegja fyrir þér.“

Þá mælti Eysteinn konungur: „Sá ölsiður hefir oft verið að menn taka sér jafnaðarmenn. Vil eg hér svo vera láta.“

Þá þagði Sigurður konungur.

„Sé eg,“ segir Eysteinn konungur, „að eg verð hefja þessa teiti. Mun eg taka þig bróðir til jafnaðarmanns mér. Færi eg það til að jafnt nafn höfum við báðir og jafna eign. Geri eg engi mun ættar okkarrar eða uppfæðslu.“

Þá svarar Sigurður konungur: „Manstu eigi það er eg braut þig á bak ef eg vildi og varstu vetri eldri?“

Þá segir Eysteinn konungur: „Eigi man eg hitt síður er þú fékkst eigi leikið það er mjúkleikur var í.“

Þá mælti Sigurður konungur: „Manstu hversu fór um sundið með okkur? Eg mátti kefja þig ef eg vildi.“

Eysteinn konungur segir: „Ekki svam eg skemmra en þú og eigi var eg verr kafsyndur. Eg kunni og á ísleggjum svo að engan vissi eg þann er það keppti við mig en þú kunnir það eigi heldur en naut.“

Sigurður konungur segir: „Höfðinglegri íþrótt og nytsamlegri þykir mér sú að kunna vel á boga. Ætla eg að þú nýtir eigi boga minn þótt þú spyrnir fótum í.“

Eysteinn svarar: „Ekki em eg bogsterkur sem þú en minna mun skilja beinskeyti okkra og miklu kann eg betur á skíðum en þú og hafði það verið enn fyrr kölluð góð íþrótt.“

Sigurður konungur segir: „Þess þykir mikill munur að það er höfðinglegra að sá er yfirmaður skal vera annarra manna sé mikill í flokki, sterkur og vopnfær betur en aðrir menn og auðsær og auðkenndur þá er flestir eru saman.“

Eysteinn konungur segir: „Eigi er það síður einkanna hlutur að maður sé fríður og er sá og auðkenndur í mannfjölda. Þykir mér það og höfðinglegt því að fríðleikinum sómir hinn besti búnaður. Kann eg og miklu betur til laga en þú og svo, hvað sem við skulum tala, em eg miklu sléttorðari.“

Sigurður konungur svarar: „Vera kann að þú hafir numið fleiri lögprettu því að eg átti þá annað að starfa. En engi frýr þér sléttmælis en hitt mæla margir að þú sért eigi allfastorður og lítið mark sé hverju þú heitir, mælir eftir þeim er þá eru hjá og er það ekki konunglegt.“

Eysteinn konungur svarar: „Það ber til þess, er menn bera mál sín fyrir mig, þá hygg eg að því fyrst að lúka svo hvers manns máli að þeim mætti best þykja. Þá kemur oft annar sá er mál á við hann og verður þá oft dregið til að miðla svo að báðum skuli líka. Hitt er og oft að eg heiti því sem eg em beðinn því að eg vildi að allir færu fegnir frá mínum fundi. Sé eg hinn kost ef eg vil hafa, sem þú gerir, að heita öllum illu en engi heyri eg efndanna frýja.“

Sigurður konungur segir: „Það hefir verið mál manna að ferð sú er eg fór úr landi væri heldur höfðingleg en þú sast heima meðan sem dóttir föður þíns.“

Eysteinn konungur svarar: „Nú greipstu á kýlinu. Eigi mundi eg þessa ræðu vekja ef eg kynni hér engu svara. Nær þótti mér hinu að eg gerði þig heiman sem systur mína áður þú yrðir búinn til ferðar.“

Sigurður konungur segir: „Heyrt muntu hafa það að eg átti orustur mjög margar í Serklandi er þú munt heyrt hafa getið og fékk eg í öllum sigur og margs konar gersemar, þær er eigi hafa slíkar komið hingað til lands. Þótti eg þar mest verður er eg fann göfgasta menn en eg hygg að eigi hafir þú enn hleypt heimdraganum.“

Eysteinn konungur svarar: „Spurt hefi eg það að þú áttir orustur nokkurar utanlands en nytsamlegra var hitt landi voru er eg gerði meðan. Eg reisti fimm kirkjur af grundvelli og gerði eg höfn við Agðanes er áður var öræfi og hvers manns för, þá er fer norður eða suður með landi. Eg gerði og stöpulinn í Sinhólmssundi og höllina í Björgyn meðan þú brytjaðir blámenn fyrir fjandann á Serklandi. Ætla eg það lítið gagn ríki voru.“

Sigurður konungur segir: „Fór eg í ferð þeirri lengst út til Jórdanar og lagðist eg yfir ána. En út á bakkanum er kjarr nokkuð en þar á barrinu reið eg knút og mælti eg svo fyrir að þú skyldir leysa bróðir eða hafa ellegar þvílíkan formála sem þar var á lagður.“

Eysteinn konungur segir: „Eigi mun eg leysa þann knút er þú reiðst mér en ríða mátti eg þér þann knút er miklu síður fengir þú leyst, þá er þú sigldir einskipa í her minn, þá er þú komst í land.“

Eftir það þögnuðu þeir báðir og var hvortveggi reiður.

Fleiri hlutir urðu þeir í skiptum þeirra bræðra er það fannst á að hvor dró sig fram og sitt mál og vildi hvor vera öðrum meiri. En hélst þó friður milli þeirra meðan þeir lifðu.