Heimskringla/Magnússona saga/8

Úr Wikiheimild

Sigurður konungur kom um vorið til Sikileyjar og dvaldist þar lengi. Þar var þá Roðgeir hertogi. Hann fagnaði vel konungi og bauð honum til veislu. Sigurður konungur kom þannug og mikið lið með honum. Þar var dýrlegur fagnaður og hvern dag að veislunni stóð Roðgeir hertogi og þjónaði að borði Sigurðar konungs. Og hinn sjöunda dag veislunnar, þá er menn höfðu tekið laugar, þá tók Sigurður konungur í hönd hertoganum og leiddi hann upp í hásæti og gaf honum konungsnafn og þann rétt að hann skyldi vera konungur yfir Sikileyjarveldi en áður höfðu þar jarlar verið yfir því ríki.