Heimskringla/Magnússona saga/9

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Roðgeir Sikileyjarkonungur var hinn ríkasti konungur. Hann vann Púl allan og lagði undir sig og margar aðrar stóreyjar í Grikklandshafi. Hann var kallaður Roðgeir ríki. Hans son var Vilhjálmur konungur í Sikiley er lengi hafði ófrið mikinn haft við Miklagarðskeisara. Vilhjálmur konungur átti þrjár dætur en engan son. Hann gifti eina dóttur sína Heinreki keisara, syni Fríreks keisara, en þeirra sonur var Frírekur er nú var keisari í Rúmaborg. Aðra dóttur Vilhjálms konungs átti hertogi af Kýpur, hina þriðju átti Margrít yfirkussari. Heinrekur keisari drap þá báða. Dóttur Roðgeirs Sikileyjarkonungs átti Manúli keisari í Miklagarði. Þeirra sonur var Kirjalax keisari.