Heimskringla/Ynglinga saga/27

Úr Wikiheimild

Óttar hét sonur Egils er ríki og konungdóm tók eftir hann. Hann vingaðist ekki við Fróða. Þá sendi Fróði menn til Óttars konungs að heimta skatt þann er Egill hafði heitið honum. Óttar svarar svo að Svíar hefðu aldrei skatt goldið Dönum, segir að hann mundi og svo gera. Fóru aftur sendimenn. Fróði var hermaður mikill.

Það var á einu sumri að Fróði fór með her sinn til Svíþjóðar, gerði þar upprás og herjaði, drap mart fólk en sumt hertók hann. Hann fékk allmikið herfang. Hann brenndi og víða byggðina og gerði hið mesta hervirki.

Annað sumar fór Fróði konungur að herja í Austurveg. Það spurði Óttar konungur að Fróði var eigi í landinu. Þá stígur hann á herskip og fer út í Danmörk og herjar þar og fær enga mótstöðu. Hann spyr að safnaður mikill var á Selundi. Stefnir hann þá vestur í Eyrarsund, siglir þá suður til Jótlands og leggur í Limafjörð, herjar þá á Vendli, brennir þar og gerir mjög aleyðu.

Vöttur og Fasti hétu jarlar Fróða. Þá hafði Fróði sett til landvarnar í Danmörk meðan hann var úr landi. En er jarlar spurðu að Svíakonungur herjaði í Danmörk þá safna þeir her og hlaupa á skip og sigla suður til Limafjarðar, koma þar mjög á óvart Óttari konungi, leggja þegar til orustu. Taka Svíar vel í mót. Fellur lið hvorratveggja en svo sem lið féll af Dönum kom annað meira þar úr héruðum og svo var til lagt öllum þeim skipum er í nánd voru. Lýkur svo orustu að þar féll Óttar konungur og mestur hluti liðs hans. Danir tóku lík hans og fluttu til lands og lögðu upp á haug einn, létu þar rífa dýr og fugla hræin. Þeir gera trékráku eina og senda til Svíþjóðar og segja að eigi var meira verður Óttar konungur þeirra. Þeir kölluðu síðan Óttar vendilkráku.

Svo segir Þjóðólfur:

Féll Óttar
undir ara greipar,
dugandligr,
fyr Dana vopnum,
þann hergamr
hrægum fæti,
víðs borinn,
á Vendli sparn.
Þau frá eg verk
Vötts og Fasta
sænskri þjóð
að sögum verða,
að eylands
jarlar Fróða
vígfrömuð
um veginn höfðu.