Heimskringla/Ynglinga saga/28

Úr Wikiheimild

Aðils hét sonur Óttars konungs er konungdóm tók eftir hann. Hann var lengi konungur og mjög auðigur. Var hann og nokkur sumur í víking. Aðils konungur kom með her sinn til Saxlands. Þar réð fyrir konungur er Geirþjófur hét en kona hans hét Ólöf hin ríka. Ekki er getið barna þeirra. Konungur var eigi í landinu. Aðils konungur og menn hans runnu upp til konungsbæjar og rændu þar. Sumir reka ofan hjörð til strandarhöggs. Hjarðarinnar hafði gætt ánauðigt fólk, karlar og konur, og höfðu þeir það allt með sér. Í því liði var mær ein undarlega fögur. Sú nefndist Yrsa. Fór þá Aðils konungur heim með herfang.

Yrsa var ekki með ambáttum. Brátt fannst það að hún var vitur og vel orðum farin og allra hluta vel kunnandi. Fannst mönnum mikið um hana og þó konungi mest. Kom þá svo að Aðils gerði brullaup til hennar. Var þá Yrsa drottning í Svíþjóð og þótti hún hinn mesti skörungur.