Fara í innihald

Heimskringla/Ynglinga saga/29

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
29. Dauði Aðils konungs

Helgi konungur Hálfdanarson réð þá fyrir Hleiðru. Hann kom til Svíþjóðar með her svo mikinn að Aðils konungur sá engan annan sinn kost en flýja undan. Helgi konungur gekk þar á land með her sinn og herjaði, fékk mikið herfang. Hann tók höndum Yrsu drottningu og hafði með sér til Hleiðrar og gekk að eiga hana. Þeirra sonur var Hrólfur kraki.

En er Hrólfur var þrevetur þá kom Ólöf drottning til Danmerkur. Sagði hún þá Yrsu að Helgi konungur, maður hennar, var faðir hennar en Ólöf móðir hennar. Fór þá Yrsa aftur til Svíþjóðar til Aðils og var þar drottning meðan hún lifði síðan. Helgi konungur féll í hernaði. Hrólfur kraki var þá átta vetra og var þá til konungs tekinn að Hleiðru.

Aðils konungur átti deilur miklar við konung þann er Áli hét hinn upplenski. Hann var úr Noregi. Þeir áttu orustu á Vænis ísi. Þar féll Áli konungur en Aðils hafði sigur. Frá þessi orustu er langt sagt í Skjöldunga sögu og svo frá því er Hrólfur kraki kom til Uppsala til Aðils. Þá söri Hrólfur kraki gullinu á Fýrisvöllu.

Aðils konungur var mjög kær að góðhestum. Hann átti hina bestu hesta í þann tíma. Slöngvir hét hestur hans en annar Hrafn. Þann tók hann af Ála dauðum og var þar undir alinn annar hestur er Hrafn hét. Þann sendi hann til Hálogalands Goðgesti konungi. Þeim reið Goðgestur konungur og fékk eigi stöðvað áður hann féll af baki og fékk bana. Það var í Ömd á Hálogalandi.

Aðils konungur var að dísablóti og reið hesti um dísarsalinn. Hesturinn drap fótum undir honum og féll og konungur af fram og kom höfuð hans á stein svo að hausinn brotnaði en heilinn lá á steininum. Það var hans bani. Hann dó að Uppsölum og er þar heygður. Kölluðu Svíar hann ríkan konung.

Svo segir Þjóðólfur:

Það frá eg enn
að Aðils fjörvi
vitta véttr
um viða skyldi
og dáðgjarn
af drasils bógum
Freys áttungr
falla skyldi.
Og við aur
ægir hjarna
bragnings burs
um blandinn varð,
og dáðsæll
deyja skyldi
Ála dólgr
að Uppsölum.