Heimskringla/Ynglinga saga/31

Úr Wikiheimild

Sölvi hét sækonungur, sonur Högna í Njarðey, er þá herjaði í Austurveg. Hann átti ríki á Jótlandi. Hann hélt liði sínu til Svíþjóðar. Þá var Eysteinn konungur á veislu í héraði því er Lófund heitir. Þar kom Sölvi konungur á óvart um nótt og tók hús á konungi og brenndi hann inni með hirð sína alla.

Þá fer Sölvi til Sigtúna og beiðir sér konungsnafns og viðurtöku en Svíar safna her og vilja verja land sitt og varð þar orusta svo mikil að það er sagt að eigi sleit á ellefu dægrum. Þar fékk Sölvi konungur sigur og var hann þá konungur yfir Svíaveldi langa hríð til þess er Svíar sviku hann og var hann þar drepinn.

Svo segir Þjóðólfur:

Veit eg Eysteins
enda fólginn
lokins lífs
á Lófundi,
og sikling
með Svíum kváðu
jóska menn
inni brenna.
Og bitsótt
í brandnói
hlíðar þangs
á hilmi rann,
þá er timbrfastr
tóftar nökkvi,
flotna fullr,
of fylki brann.