Fara í innihald

Heimskringla/Ynglinga saga/32

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
32. Dráp Yngvars konungs

Yngvar hét sonur Eysteins konungs er þá var konungur yfir Svíaveldi. Hann var hermaður mikill og var oft á herskipum því að þá var áður Svíaríki mjög herskátt, bæði af Dönum og Austurvegsmönnum. Yngvar konungur gerði frið við Dani, tók þá að herja um Austurvegu.

Á einu sumri hafði hann her úti og fór til Eistlands og herjaði þar um sumarið sem heitir að Steini. Þá komu Eistur ofan með mikinn her og áttu þeir orustu. Var þá landherinn svo drjúgur að Svíar fengu eigi mótstöðu. Féll þá Yngvar konungur en lið hans flýði. Hann er heygður þar við sjá sjálfan. Það er á Aðalsýslu. Fóru Svíar heim eftir ósigur þenna.

Svo segir Þjóðólfur:

Það stökk upp
að Yngvari
Sýslu kind
um sóað hefði
og ljóshömum
við lagar hjarta
her eistneskr
að hilmi vó,
og austmar
jöfri sænskum
Gymis ljóð
að gamni kveðr.