Heimskringla/Ynglinga saga/33

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Önundur hét sonur Yngvars er þar næst tók konungdóm í Svíþjóð. Um hans daga var friður góður í Svíþjóð og varð hann mjög auðigur að lausafé. Önundur konungur fór með her sinn til Eistlands að hefna föður síns, gekk þar upp með her sinn og herjaði víða um landið og fékk herfang mikið, fer aftur um haustið til Svíþjóðar. Um hans daga var ár mikið í Svíþjóðu. Önundur var allra konunga vinsælstur.

Svíþjóð er markland mikið og liggja þar svo eyðimerkur að margar dagleiðir eru yfir. Önundur konungur lagði á það kapp mikið og kostnað að ryðja markir og byggja eftir ruðin. Hann lét og leggja vegu yfir eyðimerkur og fundust þá víða í mörkunum skóglaus lönd og byggðust þar þá stór héruð. Varð af þessum hætti land byggt því að landsfólkið var gnógt til byggðarinnar. Önundur konungur lét brjóta vegu um alla Svíþjóð, bæði um markir og mýrar og fjallvegu. Fyrir því var hann Braut-Önundur kallaður. Önundur konungur setti bú sín í hvert stórhérað á Svíþjóð og fór um allt landið að veislum.