Fara í innihald

Heimskringla/Ynglinga saga/34

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
34. Upphaf Ingjalds illráða

Braut-Önundur átti son er Ingjaldur hét. Þá var konungur á Fjaðryndalandi Yngvar. Hann átti sonu tvo við konu sinni. Hét annar Álfur en annar Agnar. Þeir voru mjög jafnaldrar Ingjalds. Víða um Svíþjóð voru í þann tíma héraðskonungar. Braut-Önundur réð fyrir Tíundalandi. Þar eru Uppsalir. Þar er allra Svía þing. Voru þar þá blót mikil. Sóttu þannug margir konungar. Var það að miðjum vetri.

Og einn vetur, þá er fjölmennt var komið til Uppsala, var þar Yngvar konungur og synir hans. Þeir voru sex vetra gamlir, Álfur sonur Yngvars konungs og Ingjaldur sonur Önundar konungs. Þeir efldu til sveinaleiks og skyldi hvor ráða fyrir sínu liði. Og er þeir lékust við var Ingjaldur ósterkari en Álfur og þótti honum það svo illt að hann grét mjög, og þá kom til Gautviður fóstbróðir hans og leiddi hann í brott til Svipdags blinda fósturföður hans og sagði honum að illa hafði að farið og hann var ósterkari og óþróttkari í leiknum en Álfur sonur Yngvars konungs. Þá svaraði Svipdagur að það væri mikil skömm.

Annan dag eftir lét Svipdagur taka hjarta úr vargi og steikja á teini og gaf síðan Ingjaldi konungssyni að eta og þaðan af varð hann allra manna grimmastur og verst skaplundaður.

Og er Ingjaldur var roskinn þá bað Önundur konu til handa honum, Gauthildar dóttur Algauta konungs. Hann var sonur Gautreks konungs hins milda, sonar Gauts er Gautland er við kennt. Algautur konungur þóttist vita að hans dóttir mundi vel gift ef hún væri syni Önundar konungs, ef hann hefði skaplyndi föður síns, og var send mærin til Svíþjóðar og gerði Ingjaldur brullaup til hennar.