Jómsvíkinga saga/24. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Jómsvíkinga saga höfundur óþekktur
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

24. kafli - Andlát Pálnatóka[breyta]

Þess er nú við getið hið þriðja sumarið þá er á leið um haustið, að Pálnatóki tekur sótt, og er Vagn þá fimmtán vetra gamall er þetta er. Nú er þegar boðið konunginum Búrizláfi til borgarinnar, þvíað Pálnatóka segir svo hugur um sitt sóttarfar sem þessi sótt myni hann til bana leiða. Og er konungurinn kemur á fund Pálnatóka, þá ræðir hann svo:

„Það er hugboð mitt, herra,“ segir hann, „að eg muna eigi fleiri sóttir taka, og má það og eigi ólíklegt þykja fyrir aldurs sakir. En það er ráð mitt,“ segir hann, „og tillag með yður, að maður sé finginn annar í stað minn, og sé sá höfðingi í borginni að skipa þeim málum er eg hefi áður fyrir setið, og hafist þeir hér við í borginni Jómsvíkingar og hafi þeir enn landvörn fyrir þér sem vér höfum áður gört, og þyki mér sem Sigvalda myni fæst til skorta af þeim sem til er að ganga mér í hömlu um ráðagerðir og dæma hér um mál manna, bæði fyrir vizku sakir og ráðspeki, og mun yður þó þykja nokkur hvatvísi í því er eg mun nú mæla fyrir yður, að eg get þess, - en eigi veit eg það -, að alla skorti nakkvað að því sem eg hefi verið.“

Konungur svarar þá: „Oft hafa oss þín ráð vel gefizt,“ segir hann, „og skal þetta enn hafa er þú hefir til lagt, og mun oss það öllum bezt gegna, en það er ugganda, að nú myni eigi lengi þín við njóta eða þinna ráða, og er oss að skyldara að hafa hið síðarsta. Og skulu standa öll hin fornu lög þau er Pálnatóki hefir sett við hygginna manna ráð hér í Jómsborg.“

Svo er sagt að Sigvaldi var þess ekki einkar trauður, og gengur hann undir þetta, er á hendur honum var lagt, með ráði Búrizláfs konungs og Pálnatóka.

Og nú eftir þetta, þá gefur Pálnatóki Vagni frænda sínum hálft Bretlands ríki til eignar og forráða með Birni hinum brezka, og síðan bað hann Vagni frænda sínum virkta á alla vega við þá Jómsvíkinga og einkum við konunginn og fór um það mörgum orðum og snjöllum og sýndi það í þessu, að honum var mikil ástúð á Vagni frænda sínum, og það annað að honum þótti miklu skipta að þeir gerði vel til Vagns.

Og litlu eftir þetta andast Pálnatóki, og þykir það öllum hinn mesti skaði.

Og lýkur þar frásögn um einn hinn bezta dreng.