Jómsvíkinga saga/36. kafli

Úr Wikiheimild
Jómsvíkinga saga
36. kafli

Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

36. kafli - Jómsvíkingar voru drepnir[breyta]

Frá því er nú að segja þessu næst, að nú eru menn leystir úr strengnum nokkurir þeir er sárir eru mjög. En þeir Skofti karkur og aðrir þrælar hafa varðveitta þá og halda strengnum. En nú er menninir voru leystir, þá gera þeir það að þrælarnir, að þeir snúa vöndu í hár þeim Jómsvíkingum. Og eru nú leiddir fram fyrst sárir menn með þessum búningi, og gengur Þorkell síðan að þeim og höggur höfuð af hverjum þeirra, og mælti síðan við félaga sína og spyr ef honum hefði nakkvað brugðið við þessa sýslu svoað þeir fyndi það, „þvíað það er mál manna,“ segir hann, „að öllum mönnum bregði við ef þrjá menn höggva hvern eftir annan.“

En Hákon jarl svarar honum: „Ekki sjá vér þér brugðið hafa við þetta,“ segir jarl; „en þó sýndist mér þér áður brugðið.“

Nú er leiddur úr strengnum hinn fjórði maður og snúinn vöndur í hár þeim og leiddur til þangað er Þorkell hjó þá. Þessi maður er enn sár mjög. Og er hann kömur þar, þá mælti Þorkell við hann áður hann veitti honum tilræði, og spurði hversu hann hygði til bana síns. En hann svarar: „Gott hygg eg til bana míns,“ segir hann; „það mun mér verða sem mínum föður, að eg mun deyja.“

Og nú eftir þetta, þá höggur Þorkell höfuð af þessum manni, og lauk svo hans æfi.