Landnámabók/14. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
14. kafli

Hvamm-Þórir nam land á milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi.

Þórir deildi við Ref hinn gamla um kú þá, er Brynja hét; við hana er dalurinn kenndur. Hún gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni komin. Þeir Refur og Þórir börðust hjá Þórishólum; þar féll Þórir og átta menn hans.

Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár og Fossár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refur hinn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.

Nú eru taldir þeir menn, er búið hafa í landnámi Ingólfs, vestur frá honum.

Maður hét Ávangur, írskur að kyni; hann byggði fyrst í Botni.

Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip.

Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur. Sonur Þormóðar var Börkur, faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti.

Kolgrímur hinn gamli, son Hrólfs hersis, nam land út frá Botnsá til Kalmansár og bjó á Ferstiklu.

Hann átti Gunnvöru, dóttur Hróðgeirs hins spaka. Þeirra börn voru þau Þórhalli, faðir Kolgríms, föður Steins, föður Kvists, er Kvistlingar eru frá komnir. Bergþóra var dóttir Kolgríms hins gamla, er átti Refur í Brynjudal.