Landnámabók/37. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
37. kafli

Kollur hét maður Veðrar-Grímsson, Ásasonar hersis; hann hafði forráð með Auði og var virður mest af henni. Kollur átti Þorgerði, dóttur Þorsteins rauðs.

Erpur hét leysingi Auðar; hann var son Meldúns jarls af Skotlandi, þess er féll fyrir Sigurði jarli hinum ríka; móðir Erps var Myrgjol, dóttir Gljómals Írakonungs. Sigurður jarl tók þau að herfangi og þjáði. Myrgjol var ambátt konu jarls og þjónaði henni trúliga; hún var margkunnandi. Hún varðveitti barn drottningar óborið, meðan hún var í laugu. Síðan keypti Auður hana dýrt og hét henni frelsi, ef hún þjónaði svo Þuríði konu Þorsteins rauðs sem drottningu. Þau Myrgjol og Erpur son hennar fóru til Íslands með Auði.

Auður hélt fyrst til Færeyja og gaf þar Álöfu, dóttur Þorsteins rauðs; þaðan eru Götuskeggjar komnir. Síðan fór hún að leita Íslands. Hún kom á Vikrarskeið og braut þar. Fór hún þá á Kjalarnes til Helga bjólu bróður síns. Hann bauð henni þar með helming liðs síns, en henni þótti það varboðið, og kvað hún hann lengi mundu lítilmenni vera. Hún fór þá vestur í Breiðafjörð til Bjarnar bróður síns; hann gekk mót henni með húskarla sína og lést kunna veglyndi systur sinnar; bauð hann henni þar með alla sína menn, og þá hún það.

Eftir um vorið fór Auður í landaleit inn í Breiðafjörð og lagsmenn hennar; þau átu dögurð fyrir norðan Breiðafjörð, þar er nú heitir Dögurðarnes. Síðan fóru þau inn eyjasund; þau lendu við nes það, er Auður tapaði kambi sínum; það kallaði hún Kambsnes.

Auður nam öll Dalalönd í innanverðum firðinum frá Dögurðará til Skraumuhlaupsár. Hún bjó í Hvammi við Aurriðaárós; þar heita Auðartóftir. Hún hafði bænahald sitt á Krosshólum; þar lét hún reisa krossa, því að hún var skírð og vel trúuð. Þar höfðu frændur hennar síðan átrúnað mikinn á hólana. Var (þar) þá gör hörg, er blót tóku til; trúðu þeir því, að þeir dæi í hólana, og þar var Þórður gellir leiddur í, áður hann tók mannvirðing, sem segir í sögu hans.