Landnámabók/73. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
73. kafli

Vestmaður og Úlfur fóstbræður fóru einu skipi til Íslands; þeir námu Reykjadal allan fyrir vestan Laxá upp til Vestmannsvatns. Vestmaður átti Guðlaugu. Úlfur bjó undir Skrattafelli. Hann átti..., þeirra son Geirólfur, er átti Vigdísi Konálsdóttur síðar en Þorgrímur, þeirra son Hallur.

Þorsteinn höfði hét maður; hann var hersir á Hörðalandi; hans synir voru þeir Eyvindur og Ketill hörski. Eyvindur fýstist til Íslands eftir andlát föður síns, en Ketill bað hann nema báðum þeim land, ef honum sýndist síðar að fara. Eyvindur kom í Húsavík skipi sínu og nam Reykjadal upp frá Vestmannsvatni; hann bjó að Helgastöðum og er þar heygður.

Náttfari, er með Garðari hafði út farið, eignaði sér áður Reykjadal og hafði merkt á viðum, en Eyvindur rak hann á braut og lét hann hafa Náttfaravík.

Ketill fór út að orðsendingu Eyvindar; hann bjó á Einarsstöðum; hans son var Konáll Þorsteinn, faðir Einars, er þar bjó síðan.

Sonur Eyvindar (var) Áskell goði, er átti dóttur Grenjaðar; þeirra synir Þorsteinn og Víga-Skúta. Dóttir Eyvindar var Fjörleif.

Konáll átti Oddnýju Einarsdóttur, systur Eyjólfs Valgerðarsonar. Þeirra börn voru þau Einar, er átti sex sonu og dóttur Þóreyju, er átti Steinólfur Másson, og önnur Eydís, er Þorsteinn goði átti úr Ásbjarnarvík. Þórður Konálsson var faðir Sokka á Breiðamýri, föður Konáls. Dóttir Konáls var Vigdís, er átti Þorgrímur, son Þorbjarnar skaga, og var þeirra son Þorleifur Geirólfsstjúpur.

Grenjaður hét maður Hrappsson, bróðir Geirleifs; hann nam Þegjandadal og Kraunaheiði, Þorgerðarfell og Laxárdal neðan. Hann átti Þorgerði dóttur Helga hests. Þeirra son var Þorgils vomúli, faðir Önundar, föður Hallberu, móður Halldóru, móður Þorgerðar, móður Halls ábóta og Hallberu, er átti Hreinn Styrmisson.

Böðólfur hét maður, son Gríms Grímólfssonar af Ögðum, bróðir Böðmóðs; hann átti Þórunni dóttur Þórólfs hins fróða; þeirra son var Skeggi.

Þau fóru öll til Íslands og brutu skip sitt við Tjörnes og voru að Auðólfsstöðum hinn fyrsta vetur. Hann nam Tjörnes allt á milli Tunguár og Óss. Böðólfur átti síðar Þorbjörgu hólmasól dóttur Magur-Helga. Þeirra dóttir var Þorgerður, er átti Ásmundur Öndóttsson.

Skeggi Böðólfsson nam Kelduhverfi upp til Kelduness og bjó í Miklagarði; hann átti Helgu dóttur Þorgeirs að Fiskilæk.

Þeirra son var Þórir farmaður. Hann lét gera knörr í Sogni; þann vígði Sigurður byskup. Af þeim knerri eru brandar veðurspáir fyrir durum í Miklagarði. Um Þóri orti Grettir þetta:

Ríðkat rækimeiðum
randar hóts á móti.
Sköpuð es þessum þegni
þraut. Ferk einn á brautu.
Vilkat Viðris balkar
vinnendr snara finna.
Ek mun þér eigi þykkja
ærr. Leitak mér færis.
Hnekkik frá, þars flokkar
fara Þóris mjök stórir.
Esa mér í þys þeira
þerfiligt at hverfa.
Forðumk frægra virða
fund. Ák veg til lundar.
Verðk Heimdallar hirða
hjör. Björgum svá fjörvi.