Fara í innihald

Rímur af Núma kóngi Pompilssyni (1835)/Lítill Formáli

Úr Wikiheimild

Lítill Formáli.


A seinna og upplýstara tímabili hefur Rímnasmídi ockar Islendínga mætt þeirri óheppni, ad vera litils metid af fródum mønnum, sem þó hafa haft sanna skynsemi rétt ad meta svo vel framandi sem innlend Skálda-mál. Máske orsøkin til þessa sé sú, ad Rímna skáldin ecki hafi, med upplýsingu þjódar vorrar tekid tilbærilegum og eptirvæntum framførum í ment sinni, svo vel í því ad velja snotur efni til qvæda finna, sem ad hreinsa þau frá vanmælum og ófimlega brúkudum Edduglósum, sem vér høfum um of tekid í arf eptir midaldirnar. Eg meina, ad Edda midur eigi ad þéna Skáldinu til léttirs, en til ad prýda hér og hvar verk hans, því þessa léttirs á hann ecki vid ad þurfa, ef honum er ecki ofgéfid þad nafn Skáld ad heita; ecki heldur er þad nein málbót fyrir oss Islendínga, þó nockur af nýrri Dana Skáldum taki til ad brúka Eddu vora afbakada og med allri ófimni vídast hvar því fyrst verdur hún líklega aldrei því máli eiginleg, enda er hins ad vænta, ad vér, sem frumqvødlar og vardhalds einglar Eddu málanna, og hinnar edalbornu Norrænu túngu verdum Dønum fremri í þessari ment.

Hvad efni Islendskra Rímna snertir, mætti mér víd þetta tækifæri vera leyft ad ávíkja: ad eg meina nú á vorri øld ótilhlýdilegt hér til ad velja lognar Trøllasøgur svo afskræmilegar, ad eíngin heilbrigd skynsemi fáí þar af trúad einu ordi; svo sem þær, í hverjum menn daudir fyrir hundrudum ára mæla og jafnvel yrkja í haugi sínum og fljúgast á til þrautar víd adkomumenn; þegar tøframenn verda, þegar er vilja, ad ormum, hvølum, drekum og ødrum þvílíkum býsnum; þegar Dvergar og Alfar gera allskonar teikn og stórmerki, bera vindana í skjódum sínum og slá þeim lausum, nær ed vilja, koma strax þángad sem nefndir verda, og sjá í speiglum sínum allt hvad skédur heimsendanna á milli.

Ad slíkar frásøgur séu nú ecki leingur frambærilegar upplýstri og skynsamri þjód vorri, vona eg flestir vilji med mér sanna, sem bera skyn á rétt ad meta; og þar þvílíkar bædi opt spilla gódum sidum, hindra adra betri frædi og trylla tídum skapferdi ófródra únglínga, ættu þær ad gjørast útlægar úr bygdarløgum Íslendínga.

Þeir svo kølludu hortittir og vanmæli, eins og leidinlegar og ofbrúkadar Eddukénníngar, fædast liklega opt med þeim hætti: ad Skáldid velur sér klidadri bragarhátt, en kraptar hans í ørdugri frásøgu leyfa honum þrautalaust ad framklekja; þó vil eg ecki hér med telja ræka Rímna bragi ockar, sem eru innfæddra Skálda vorra frumsmídi, og meíga oss því vel sóma þegar Skáldid snídur sér þar af stackinn eptir vexti. Ad Skáldid þrælbindi ljód sín vid bókstafi søgunnar, þykir eingin naudsyn til reka, því þá er einsætt ad lesa sjálfa hana, og hefur hann ílla varid ómaki sínu ef eckért nema samhendur hans skilja søguna frá sundurlausu máli; hitt mætti kannské nægja ad framsetja høfud innihald søgunnar og prýda svo eptir efnum og mætti Rímurnar med sjálfsmídudum samlíkíngum, snillilegum Eddu greinum og snotrum þaunkum yfir tilburdi søgunnar.

Þau mørgu Dvergaskip, sem fljóta og fjara vid upphaf og endir hvørrar Rímu, fara nú ad verda slitin og vanfær til frekari ánídslu, enda þarf þá ecki ad skrifa Rímu skipti milli þessara, þegar Skáldid í ljódum seigir lesara sínum í hvørt sinn til, þegar ein Ríma endar og hin byrjar.

Eg hefi í Núma Rímum þessum viljad leitast vid ad umflýa þad sem mér helst hefur þókt til lýta híngad til, svo vel á mínum eigin, sem annara Rímum; Lesarinn og eptirtídin eiga frjálst ad dæma um hvørt mér hér í nockru hafi tekist betur en fordum, þó vona eg, ad efnid sé þannig valid, ad ecki þurfi ad verda hyggnum mønnum ad athlátri.

Ad endíngu vil eg hafa bedid gódskáld Islands og alla hína upplýstari lesara mína ecki ad misvirda, þó eg hér hafi framvarpad meiníngu minni um þetta efni, í fáum greinum, sem eg vildi óska gætu ordid skjøldur fyrir brjósti Rímna þessara, sem nú ecki frá mér hafa fremur neinnar hjálpar ad vænta.

Ydar audmjúkur
S. Breidfjørd.