Tómas frændi/III

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

III. Bölvun þrældómsins.

Um kvöldið sátu þau hjónin, Shelby og kona hans, og voru að tala saman.

„Meðal annars, Arthúr; hver var þessi ruddalegi maður, sem borðaði með okkur í dag?“

„Hann heitir Haley“, sagði Shelby og sneri sér á stólnum fremur órólega.

„Er hann þrælakaupmaður?“ sagði frúin, sem tók eptir einhvers konar vandræðasvip á manni sínum.

„Hvað kemur til að þér dettur þetta í hug, góða mín?“ sagði Shelby og leit upp.

„Ekkert sérlegt — ekki annað en bað, að hún Elísa kom inn til mín, þegar búið var að borða. miðdegisverð og gekk mikið á fyrir henni, og sagði hún að þrælakaupmaður væri að fala drenginn sinn — litli aulinn sá arna.“

„Gjörði hún það“, sagði Shelby og tók aptur að lesa í blaði sínu, sem hann virtist um stund alveg niðursokkinn í; en tók ekki eptir því, að hann hélt því öfugt fyrir sér, svo að það vissi upp, sem niður átti að snúa.

„Eg sagði Elísu“, sagði frú Shelby, „að hún gjörði sér heimskulegar áhyggjur, og að þú hefðir aldrei nein mök við þess háttar menn. Eg vissi náttúrlega að þú hefur aldrei ætlað þér að selja neitt af fólki okkar, sízt slíkum kumpáni.“

„Já, Emilía“, sagði maður hennar, „þannig hef eg líka alltaf hugsað og talað; en sannleikurinn er, að eg má til að selja eitthvað af fólki mínu.“

„Þessari skepnu? ómögulegt! Shelby, þér getur ekki verið alvara.“

„Mér þykir fyrir að segja það, en mér er alvara“, sagði hann, „eg ætla að selja Tómas.“

„Hvað! hann Tómas okkar? sem er svo góður og trúr, og hefur verið þjónn þinn frá því hann var drengur! Ó, Shelby! og þar að auki hefurðu lofað honum frelsi; við höfum bæði margsinnis talað um það við hann. Jæja, nú get eg trúað hverju sem vera skal. get eg trúað því, að þú gætir selt Harry litla, eina barnið hennar Elísu aumingjans“, sagði frú Shelby og var í málrómnum bæði hryggð og gremja.

„Jæja, úr því þú verður að fá að vita það, þá er það svo. Eg ætla að selja bæði Tómas og Harry, og eg veit ekki hvers vegna eg á að reiknast sem óvættur fyrir það, þó eg gjöri það sama sem hver maður gjörir á hverjum degi.“

„En því að velja þessa fremur en einhvern af hinum?“ sagði frú Shelby. „Því að selja þá?“

„Af því að eg fæ meira fyrir þá en nokkra af hinum — það er orsökin. Hann bauð mér reyndar líka mikið fé fyrir hana Elísu, en eg hlustaði ekki eitt augnablik á hann, af umhugsun um tilfinningar þínar; þú verður að meta það við mig.“

„Kæri Arthúr“, sagði frúin, „fyrirgefðu mér, eg var of fljót á mér. Þetta kom svo flatt upp á mig. En eg er viss um að þú leyfir mér að taka málstað þessara vesalinga. Tómas er göfuglyndur og tryggur, þó hann sé svartur; eg gæti vel trúað því, Arthúr, að ef á þyrfti að halda, þá legði hann líf sitt í sölurnar fyrir þig.“

„Eg veit það, eg er viss um það; en til hvers er að vera að tala um það? eg get ekki að þessu gjört. Mér þykir vissulega mikið fyrir því, að þú skulir taka þetta svona nærri þér, Emilía,“ sagði Shelby, „en eg segi þér satt, að eg get ekki að því gjört. Eg ætlaði mér ekki eð segja þér það, Emilía; en í stuttu máli, það er ekki annar kostur, en annað hvort að selja þessa tvo eða selja allt; annað hvort verða þeir að fara, eða allt. Haley hefur þunga veðskuldakröfu gegn mér, sem hann ætlaði að taka allt upp í, ef eg borgaði ekki strax. Eg var á hans valdi, og varð að gjöra það.

Frú Shelby stóð sem þrumulostin. Loksins gekk hún til herbergis síns, fól andlitið í höndum sér og andvarpaði þungan.

„Þetta er bölvun guðs yfir þrælahaldinu! Beiska, beiska, meinbölvaða ástand. Bölvun fyrir húsbóndann, og bölvun fyrir þrælinn! Eg var heimskingi að hugsa, að eg gæti leitt nokkuð gott út úr slíkri dauðans villu. Það er synd að halda þræl undir slíkum lögum sem vorum. Eg hef ávallt fundið það. En eg hugsaði að eg gæti gjört gott úr því; eg hugsaði að eg með góðsemi, umhyggju og uppfræðslu, gæti gjört æfi þeirra betri enn frelsið. Hvílík fásinna!“