Tómas frændi/IV

Úr Wikiheimild

IV. Móðirin.

Hjónin grunaði lítið, að það væri manneskja, sem hlýddi á þessa samræðu þeirra. Elísa, sem var bæði óttaslegin og. kvíðafull, hafði falið sig í stórum skáp, er opnaðist bæði inn í herbergi frúarinnar og út í ganginn.

Þegar þau slitu talinu, kom Elísa fram úr fylgsni sínu, og gekk hljóðlega burt.

Hún var föl og skjálfandi, með harðlega andlitsdrætti og samanklemmdar varir, og með öllu ólík hinni viðkvæmu og veigalitlu manneskju, sem hún hingað til hafði verið. Hún gekk gætilega fram eptir ganginum, staðnæmdist eitt augnablik fyrir framan dyr húsmóður sinnar, og fórnaði upp höndum í þegjandi hjálparbæn til himinsins, og svo hvarf hún inn í herbergi sitt.

Það var lítið en snoturt herbergi, á sama gólfi og herbergi húsmóður hennar. Þarna var skemmtilegi sólskinssæli glugginn, þar sem hún svo opt hafði setið syngjandi við sauma sína; þarna var ofurlítill skápur, með bókunum hennar, og meðfram þeim var raðað smámunum ýmsum, er hún hafði fengið að jólagjöfum. Hér var í stuttu máli heimilið hennar, og yfir höfuð að tala hafði það verið gott heimili.

En þarna á rúminu lá drengurinn hennar sofandi; hinir löngu lokkar hans féllu mjúklega niður um sakleysislega andlitið; rósrauðu varirnar voru opnar, og feita höndin hans lá ofan á ábreiðunni; bros var á andliti hans eins og sólarbjarmi.

„Veslingurinn minn! veslings drengurinn!“ sagði Elísa, „það er búið að selja þig, en móðir þín ætlar að bjarga þér.“ — Það draup ekki eitt einasta tár á koddann. Í slíkum þrautum hefur hjartað engin tár að láta í té; það drýpur að eins blóði og blæðir sjálft burt í kyrþey. Hún tók pappírsblað og ritblý og skrifaði í flýti: — „Ó, frú, kæra frú! Hugsið mig eigi vanþakkláta — áfellið mig eigi né hugsið illt um mig á nokkurn hátt. Eg heyrði alla samræðu ykkar hjónanna í kveld. Eg ætla að reyna til að bjarga drengnum mínum, — það munuð þér eigi lá mér. Guð blessi yður og launi yður alla góðsemi!“

Hún braut blaðið í flýti og skrifaði utan á það. Svo tók hún dálítið af fötum handa drengnum sínum upp úr kommóðunni, batt þau í böggul og reyrði hann með handklæði fast að mitti sér; og svo viðkvæmt er móðurminnið, að jafnvel í skelfingu þessarar stundar gleymdi hún ekki að láta í litla böggulinn eitt eða tvö af uppáhalds leikföngum hans; en uppi við hafði hún fagurmálaðan páfugl, til að skemmta honum með, þegar hún þyrfti að vekja hann.

Það var dálítil fyrirhöfn að vekja drenginn, en eptir nokkra tilraun settist hann upp og fór að leika sér að fuglinum sínum, meðan móðir hans var að láta á sig sjalið og hattinn. — „Hvert ætlarðu mamma? sagði hann, þegar hún kom að rúminu með litlu yfirhöfnina hans og húfuna. — Móðir hans laut niður að honum, og leit svo alvörugefin í augu hans, að hann réð þegar í, að eitthvað óvenjulegt væri um að vera.

„Þey, þey, Harry!“ sagði hún, „þú mátt ekki tala hátt, því þá heyrist til okkar. Vondur maður ætlaði að taka drenginn frá mömmu og fara með hann út í myrkrið. En mamma vill ekki láta hann gjöra það. Hún ætlar að klæða drenginn sinn í yfirhöfn og láta á hann húfu og hlaupa burtu með hann, svo vondi maðurinn geti ekki tekið hann.“ Þannig mælti hún, hneppti yfirhöfninni að barninu og tók hann í fang sér, og hvíslaði að honum að vera alveg kyr, opnaði síðan dyrnar á herberginu, sem lágu út á veggsvalirnar, og gekk hljóðlaust burtu.

Það var fjölstirndur himinn, frost og hreinviðri, og móðirin vafði sjalinu sínu fast utan um drenginn, sem var algjörlega kyr og hélt sér óttasleginn utan um hálsinn á henni. Eptir nokkra stund kom hún að glugganum á kofa Tómasar frænda; þar nam hún staðar og barði laust á rúðuna. Dyrunum var þegar í stað lokið upp, og þau hjónin, Tómas og Kló, komu út, alveg hissa.

„Eg er að flýja burtu, Tómas og Kló“, sagði Elísa, „eg flý burtu með barnið mitt. Húsbóndinn seldi hann.“

„Seldi hann!“ hrópuðu þau bæði í einu hljóði og fórnuðu upp höndum sínum af skelfingu.

„Já, hann seldi hann“, sagði Elísa hörkulega. „Eg laumaðist inn í skápinn, sein er við hliðina á herbergi frúarinnar, og eg heyrði, að húsbóndinn sagði frúnni, að hann hefði selt Harry minn og þig, Tómas frændi, þrælakaupmanni nokkrum, og að hann mundi koma á morgun til þess að taka við ykkur.“

Meðan Elísa mælti þessi orð, hafði Tómas staðið með upplyptum höndum og uppglenntum augum, eins og hann væri í leiðslu eða draumi. Þegar honum skildist, hvað um var að vera, hné harm hægt og seint, fremur en settist, niður á gamla stólinn sinn, og lét höfuðið hníga niður að hnjám sér. — „Góður guð hjálpi okkur“, sagði Kló — „ó? þetta er líkast því, að það sé ekki satt! Hvað hefur hann gjört fyrir sér, að húsbóndinn fari að selja hann?

„Hann hefur ekki gjört neitt fyrir sér — það er ekki fyrir þá sök. Húsbóndinn ætlaði sér ekki að selja ykkur, og frúin, — hún er alltaf svo góð, eg heyrði að hún tók málstað okkar. En hann sagði, að það væri ekki til neins, hann væri skuldugur manninum og væri á valdi hans, og ef hann borgaði ekki þegar í stað, þá mundi fara svo að hann yrði að selja allt, fólkið og jörðina, og flytja burt. Já, eg heyrði hann segja, að það væri enginn annar vegur, annaðhvort yrði hann að selja þessa tvo, eða þá að öðrum kosti allt — maðurinn gengi svo hart að honum.“

„Og“, sagði Elísa, þar sem hún stóð í dyrunum, „lítið grunaði mig, þegar eg sá manninn minn í kveld, hvað koma mundi. Það er nú búið að fara svo illa með hann, að hann getur ekki haldizt við lengur, og hann sagði mér í dag, að hann ætlaði að flýja burtu. Komið þið orðum til hans, ef þið getið, segið þið honum að eg sé farin og hvers vegna eg hafi farið, og að eg hafi ætlað að reyna að komast til Kanada. Berið þið honum hjartans kveðju mína og segið honum, ef eg skyldi aldrei sjá hann framar —“ hún sneri sér við og stóð stundarkorn og sneri bakinu að þeim, svo bætti hún við í lágum hljóðum — „segið honum að breyta eins vel og honum er mögulegt og reyna svo að hitta mig í ríki himnanna.“

Fáein orð og tár að skilnaði, kveðju og blessunaróskir; og hún þrýsti hinu hrædda og undrandi barni upp að sér og hvarf hljóðlega á burt.