Tómas frændi/IX

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

IX. Miðnætur ferð.

Frú Bird og maður hennar gengu aptur til stofunnar. Hún settist í ruggustólinn sinn fyrir framan arninn, og ruggaði sér þungt hugsandi fram og aptur, en maður hennar gekk um gólf og var að velta einhverju fyrir sér.

Hann nam loks staðar fyrir framan konu sína og sagði: „Ég segi þér satt, hún verður að komast héðan burtu nú í nótt. Maðurinn verður hér í hælunum á henni með morgni í fyrstu birtingu.“

„Í nótt, hvernig er það mögulegt, og hvert?“

„Ég veit vel, hvert hún ætti að komast,“ sagði hann og fór að fara í stígvélin sín. „Sjáðu til“, sagði hann, „hann gamli Trompe vinur minn, er kominn frá Kentucky, og hefur gefið öllum þrælunum sínum frelsi, og keypt land sjö mílur upp með fljótinu hérna inni í skóginum, og þangað kemur enginn nema hann eigi brýnt erindi, og það er staður, sem ekki verður fundinn í flýti. Þar væri hún óhult, en það versta er, að þangað getur enginn flutt hana í nótt, nema ég sjálfur.

„Því ekki það? Kudjó er afbragðs vagnstjóri.“

„Já, já, en það hjálpar ekki; það verður að fara tvisvar yfir ána, og þar sem farið er yfir hana í seinna sinnið, er hættulegt að fara, nema fyrir mann, sem er eins kunnugur eins og ég. Ég hef farið þar svo margsinnis opt ríðandi og þekki leiðina nákvæmlega; og þú sérð, að við þessu er ekki hægt að gjöra. Kudjó verður að ná í hestana svo lítið beri á hér um bil klukkan 12 í nótt, og ég flyt hana yfir um.

„Jón“ sagði kona hans, og lagði hina litlu, hvítu hönd sína í hönd honum, „heldurðu að ég hefði nokkurn tíma elskað þig, ef ég hefði ekki þekkt þig miklu betur enn þú sjálfur?“

Hinn virðulegi ráðherra tók þegar í stað að líta eptir vagninum og því er til ferðarinnar þurfti. Hann nam samt sem áður staðar við dyrnar, áður en hann gekk út, og sagði:

„María, ég veit ekki hvað þér sýnist um það, en ég er að hugsa um dragkistuna, sem við eigum með fötunum hans — hans Hinriks litla okkar.“ Að svo mæltu snérist hann á hæli og lokaði dyrunum á eptir sér.

Kona hans opnaði dyr á litlu herbergi við hliðina á stofunni, er hún sat í; hún tók ljósastikuna og setti á borð í herberginu, síðan tók hún lykil úr litlum skáp, og stakk honum þungt hugsandi í skrána á einni skúffu dragkistunnar.

Tveir drengir komu inn á eptir henni; þeir horfðu þegjandi með þýðingar miklu augnaráði á móður sína. Og þér mæður, sem þetta lesið — hefur aldrei í húsi yðar verið nein sú hirzla, sem fyrir yður hefur verið að ljúka upp eins og að opna litla gröf? Hve gæfusöm móðir ertu, ef svo hefur eigi verið!

Frú Bird opnaði hægt eina skúffu dragkistunnar. Þar lágu ofurlitlar yfirhafnir með ýmsu sniði, svuntur og litlir sokkar, og ofboð smáir skór voru þar vafðir innan í pappír; þar voru og leikföng ýmiskonar, hnöttur, vagn og hestur, öllu þessu hafði verið safnað saman með heitum tárum og beiskum andvörpunum.

Hún settist á stól hjá dragkistunni, fól andlitið í höndum sér og grét, en tárin féllu niður í skúffuna.

„Mamma“, sagði annar drengjanna og kom hægt við handlegginn á henni, „ætlarðu að gefa þetta?“

„Kæru drengirnir mínir,“ sagði hún blíðlega og alvarlega, „ef hann elsku litli Hinrik okkar, sem var svo ástúðlegur, mætti líta af himni ofan til okkar, þá mundi hann verða glaður, væri svo gjört. Ég gæti ekki fengið það af mér að gefa það neinni móður, sem væri glöð og gæfusöm, en ég vil gefa það móður, sem hefur miklu meiri harm að bera heldur en ég, og það er von mín að drottinn sendi blessun sína með því“.

Frú Bird tók því næst tvenn eða þrenn lagleg drengjaföt ofan úr klæðaskáp, og settist niður við saumaborð sitt, tók skæri, nál og fingurbjörg og hélt áfram að leggja niður í böggul og lagfæra það, sem þess þurfti, þangað til gamla veggklukkan sló 12, og hún heyrði að vagni var ekið í hlaðið.

„María,“ sagði maður hennar, sem kom inn með yfirhöfnina sína á handleggnum, „þú verður að fara að vekja hana, nú verðum við að leggja af stað.“

Frú Bird flýtti sér að ganga frá ýmsu smávegis, sem hún hafði safnað saman í lítinn kassa, lokaði honum, og bað svo manninn sinn að fara með það út í vagninn; sjálf fór hún að vekja konuna. Eptir litla stund kom hún með barnið á handleggnum; hún var klædd í yfirhöfn, sem frú Bird hafði gefið henni.

Bird bað hana að flýta sér inn í vagninn, og frú Bird fylgdi henni út að vagninum.

Elísa hallaði sér út úr vagninum og rétti frúnni hönd sína, mjúka og fagra hönd, eins og þá, sem að henni var rétt á móti. Hún leit hinum stóru, dökku augum sínum á frú Bird með innilegu þakklæti, og gjörði tilraun til að segja eitthvað. Hún hreifði varirnar, en hún kom engu orði upp; hún benti þá til himins og horfði um leið á frú Bird með augnaráði, sem hún gleymdi aldrei; svo hallaði hún sér aptur í vagnsætið og huldi andlitið í höndum sér. Dyrunum var lokað, og vagninn ók af stað.