Tómas frændi/VIII

Úr Wikiheimild

VIII. Á meðal vina.

Í þessum svifum kom Kudjó gamli, svertingja-verkstjórinn, inn um dyrnar, og bað frúna að koma fram í eldhúsið.

Eptir stundarkorn kom frúin inn aptur og sagði í alvarlegum málróm: „Jón, eg vildi óska að þú kæmir snöggvast fram.“

Hann lagði frá sér blöðin og gekk fram í eldhúsið; hann hrökk við, öldungis forviða, er hann leit það, er mætti auga hans þar.

Ung og grannvaxin kona lá í öngviti á tveim stólum, fötin hennar voru frosin og rifin, hún var skólaus, sokkarnir hennar voru allir rifnir og tættir, og blóðið lagaði úr fótum hennar. Af útliti hennar öllu mátti helzt ráða, að hún væri ambátt.

„Veslings manneskjan!“ sagði frú Bird. Þá leit stúlkan upp, stórum dökkum augum, og horfði á frú Bird eins og í leiðslu. Allt í einu kom angistarsvipur á andlit hennar, hún þaut upp og sagði: „Harry, Harry, hafa þeir náð honum!“

Drengurinn hljóp þá frá Kudjó gamla til móður sinnar. „Ó, hann er hér, hann er hér.“ sagði hún. „Ó, frú,“ sagði hún, eins og í hálfgjörðu æði, við frú Bird. „Skjótið þér skjólshúsi yfir okkur, látið þér hann ekki taka hann.“

„Ykkur skal ekkert mein verða gjört hér, veslingur,“ sagði frúin hughreystandi. „Þú ert óhult, vertu óhrædd!“

„Guð blessi yður“, sagði stúlkan, og fól andlitið í höndum sér og grét. Drengurinn reyndi til að komast uppí fang hennar, þegar hann sá hana gráta.

„Vertu öldungis óhrædd, þú ert á meðal vina, veslings stúlka, segðu mér hvaðan þú kemur og hvers þú þarft við,“ sagði frúin.

„Eg kem frá Kentucky,“ sagði stúlkan. „Hvernig komstu þaðan?“ spurði frú Bird.

„Eg fór yfir ána á ísnum.“

„Á ísnum“ sögðu allir, sem viðstaddir voru.

„Já,“ sagði konan hægt. „Það gjörði eg.“

„Guð hjálpaði mér, þeir voru rétt á eptir mér, og það var engin önnur leið.“

„Frú,“ sagði Kudjó, „ísinn á fljótinu er allur brotinn, og flýtur í jökum.“

„Eg vissi það, eg vissi það,“ sagði hún æðislega, „en eg gjörði það, eg hefði ekki hugsað að eg gæti það — eg hugsaði ekki að eg kæmist yfir um, en eg hirti ekkert um það! Það var ekki um annað að gjöra, en að deyja að öðrum kosti. Drottinn hjálpaði mér,“ sagði hún. „Enginn veit, hversu hann hjálpar, nema þeir, sem reyna.“ Og það kom glampi í augu hennar.

„Varstu ambátt?" spurði Bird.

„Já, herra, ég var eign manns í Kentucky ríkinu!"

„Var hann vondur við þig?“

„Nei, herra, hann var góður húsbóndi.“

„Hvað kom þá til að þú fórst að strjúka frá góðu heimili og komast í þessar hættur?“

Konan leit á frú Bird, með hvössu rannsakandi augnaráði, og henni gat eigi dulizt, að frúin bar sorgarbúning.

„Frú,“ sagði hún allt í einu, „hafið þér nokkru sinni misst barn?“

Spurningin kom að óvörum og ýfði upp illa gróið sár, því það var ekki nema einn mánuður síðan að ástfólgið barn þeirra hjóna var lagt í gröf sína.

Bird gekk út að glugganum, og tárin komu fram í augu frúarinnar, en hún yfirvann sig og sagði: „Því spyrðu að því? Ég hef misst eitt lítið barn.“

„Þá munuð þér kenna í brjósti um mig. Eg hef misst tvö, hvort á eptir öðru, og ég átti þetta eina eptir. Aldrei hef ég skilið hann við mig. Hann var mér allt, hann var hið dýrmætasta í eigu minni, og hann átti að taka frá mér og — selja hann; selja hann og senda langt í burt, frú, þann átti að vera einn síns liðs, barnið, sem aldrei hefur farið frá henni móður sinni — aldrei á æfi sinni. Ég stóðst það ekki, frú, og þegar ég vissi að kaupin voru fullgjörð, þá tók ég hann og flúði, — strauk burtu þá sömu nótt. Mér var veitt eptirför. Þeir eltu mig, frú. Maðurinn, sem keypti mig og tveir af húsbóndans mönnum, þeir voru rétt á hælum mér, og ég heyrði til þeirra. Ég stökk beint út á íshroðann á fljótinu, en hvernig ég hef komizt yfir um, það veit ég ekki; en það fyrsta, sem ég vissi, var að maður hjálpaði mér upp árbakkann.“

Konan grét hvorki né andvarpaði. Þrautir hennar voru svo, að þær tóku ekki tárum. En allir, sem umhverfis hana voru, sýndu henni, hver á sinn hátt, hjartanlega hluttekningu.

„Og hvert ertu að hugsa um að fara, veslings barn?“ spurði frú Bird.

„Til Canada, einungis ef ég vissi, hvar Canada væri,“ sagði hún. „Er mjög langt þangað?“ spurði hún og leit á frú Bird með trúnaðartrausti.

„Mikið lengra, enn þú hugsar, veslingur,“ sagði frúin, „en við skulum nú hugsa um, hvað gjört verður fyrir þig. — Dína, búðu um rúm handa henni í herberginu þínu, og ég ætla að hugsa fyrir henni til morgundagsins.“