Fara í innihald

Tómas frændi/VII

Úr Wikiheimild
VI
Tómas frændi
Höfundur: Harriet Beecher Stowe
Þýðing: Guðrún Lárusdóttir
VIII


VII. Bird ráðherra. (les: Berd)

Bird ráðherra var nýkominn úr ferð frá Washington; hann sat inni í notalegu dagstofunni sinni, og var að tala við konu sína. Eldurinn skíðlogaði á arninum, og lagði birtuna af honum inn í herbergið.

„Nú, nú,“ sagði hún, þegar búið var að bera af borðinu, „hvað gjörðist nú á þinginu?“

Það var annars óvenjulegt, að frú Bird færi að spyrja um aðgjörðir þingsins, því henni fannst hún hafa um nóg annað að hugsa. Bird rak því upp stór augu, og sagði: „Það var nú lítið áríðandi“.

„Er það annars satt, að það sé búið að setja lög, sem fyrirbjóði manni að gefa þessu veslings svarta fólki matarbita eða munnsopa, þegar það ber að dyrum? eg heyrði sagt að verið væri að ræða slík lög, en eg trúði því ekki, að nokkurt kristið löggjafavald gæfi slík lög út“.

„Hvað er að tarna María, þú ert allt í einu orðin mesti stjórnmálagarpur.“

„Nei, nei, enganveginn! Eg gef yfir höfuð ekki baun fyrir öll ykkar stjórnmál, en þetta álít eg að væri blátt áfram grimmilegt og með öllu ókristilegt, og eg vona, kæri minn, að engin slík lög hafi verið gefin út.“

„Það hafa verið samþykkt lög um að banna fólki að hjálpa strokuþrælum frá Kentucky.“

„Og hvernig lög eru nú það?“ Þau banna þó ekki að veita þessum veslingum húsaskjól eina nótt, eða hvað? og að gefa þeim eitthvað ætt að borða, og einhverja flík, og lofa þeim að halda áfram ferð sinni í friði?

„Því ekki? jú, einmitt það, góða mín! það væri að hjálpa og liðsinna þeim, sérðu!“

Frú Bird var hæglát kona, með blíð, blá augu, og hinn yndislegasta og mjúkasta málróm. Maðurinn hennar og börnin voru allur heimur hennar, og í þeim heimi réði hún ríkjum meira með bænum og fortölum, heldur en með skipunum og röksemdaleiðslu.

Við þetta tækifæri stóð frúin upp úr sæti sínu, kafrjóð í kinnum, og gekk til mannsins síns, mjög einbeitt í bragði, og sagði með föstum, ákveðnum málróm:

„Jón, eg vil fá að vita, hvort þér finnast þessi lög vera rétt eða kristileg?“

„Þú ætlar þó ekki að skjóta mig, María, ef eg segi að mér þyki það?“

„Eg hefði aldrei hugsað þetta um þig, Jón, þú hefur þó ekki greitt atkvæði með þessum lögum?“

„Jú, það gjörði eg, minn fagri stjórnmálagarpur“.

„Þú ættir að skammast þín, Jón! Veslings húsviltir, heimilislausir aumingjar, það eru svívirðileg, guðlaus lög, og eg fyrir mitt leyti skal brjóta þau, undir eins og eg fæ tækifæri til þess; og eg vona að það líði ekki á löngu þangað til eg fæ það! þá þykir mér nú skörin vera komin upp í bekkinn, ef kristin kona má ekki gefa hungruðum veslingum mat að borða eða rúm til að hvíla í, einungis af því að þeir eru þrælar, og þeim hefir altaf verið misboðið og farið illa með þá alla sína æfi, veslings menn!“

„En María, hlustaðu nú á mig. Tilfinningar þínar eru alveg réttar, góða mín, og hugðnæmar, og eg ann þér fyrir þær, en samt megum við ekki láta tilfinningar okkar hlaupa með dómgreind okkar“.

„Nú jæja, Jón, eg veit nú hvorki upp eða niður í stjórnmálum, en eg get lesið biblíuna mína, og þar stendur að eg eigi að seðja hungraða, klæða nakta, hugga sorgbitna, og eptir því ætla eg að fara“.

„Hlustaðu nú á mig María; eg get leitt mjög ljós rök til að sýna —“

„Ó nei, Jón, enganveginn. Þú getur talað í alla nótt, en ekki komið með neinar sannanir; eg ber það undir þig sjálfan, Jón: mundir þú vilja, núna í kvöld, reka burtu frá dyrum þínum, skjálfandi, hungraðan aumingja, einungis vegna þess, að hann væri strokuþræll, mundirðu gjöra það?“

„Auðvitað væri mér það mjög þungbær skylda“. sagði Bird, með stillilegum málróm.

„Skylda! Jón, brúkaðu ekki þetta orð! þú veist það er ekki skylda, — getur ekki verið skylda! Veslings manneskjurnar hafa þolað nóg af kulda, hungri og hræðslu, þó allir séu ekki samtaka á móti þeim, og lög eða lög ekki, eg skal aldrei fara eptir þeim, svo sannarlega hjálpi mér guð!“ — „María, María, kæra mín, lofaðu mér að leiða rök að þessu.“

„Eg hata alla röksemdaleiðslu, Jón, sérstaklega um svona lagað efni. Það er leiðin ykkar stjórnmálamanna, sem þið notið til að fara í kringum góð og greinileg mál.

Eg þekki þig nógu vel Jón. Þú álítur þessi lög engu réttari en eg, og þú mundir engu fremur fara eptir þeim.“