Fara í innihald

Tómas frændi/XVI

Úr Wikiheimild
XV
Tómas frændi
Höfundur: Harriet Beecher Stowe
Þýðing: Guðrún Lárusdóttir
XVII


XVI. Blómið visnar.

Dagar, vikur, mánuðir liðu og hin barnslega vinátta á milli Evu og Tómasar varð æ innilegri. Tómas elskaði Evu, sem væri hún guðdómleg vera, honum virtist hið fagra barn vera hátt upp hafið yfir allt hið jarðneska.

Það var ákafur hiti þetta sumar, og St. Clare hafði flutt sig með fólk sitt af búgarði sínum nær sjávarströndinni, til þess að njóta hinnar svalandi sjávargolu.

Landsetur St. Clares var nálægt vík einni við sjóinn. Umhverfis voru svalir úr bambusviði, er vissu á alla vegu út að garðinum og grænum grasflötum.

Einn dag sátu þau Eva og Tómas á litlum grasbekk í garðinum niður við sjóinn. Það var sunnudagskvöld og biblían lá opin á knjám Evu.

„Tómas frændi,“ sagði Eva, „eg er á förum héðan“.

„Hvert, ungfrú Eva?“

Barnið reis úr sæti sínu og rétti hönd sína mót himni. Kvöldroðinn glóði á hinum gullnu hárlokkum og varpaði himneskri geisladýrð á andlit hennar, þar sem hún stóð og horfði alvarlegum augum til himins.

„Eg fer þangað“ sagði hún, „til góðu englanna, Tómas frændi, það verður ekki langt þangað til“.

Hinum trygglynda, gamla manni fannst sem ör væri stungið í hjarta sér; og harm fór að hugsa um, hve mjög honum hefði virzt útlit Evu hafa farið versnandi á seinustu sex mánuðunum, hvað hún var orðin fölleit og hvað hendurnar á henni voru orðnar magrar, og andardrátturinn óreglulegur og tíður, og hvað hún þreyttist fljótt á að leika sér, hún sem einu sinni hafði getað leikið sér og verið að hlaupa um garðinn svo tímum skipti. Hann fór að hugsa um það að hann hefði heyrt Ophelíu tala um hósta, sem lyf hennar gætu ekki ráðið bót á; og Ophelíu nú brann þessi litla hönd og heita kinn af sjúkdóms hita.

Lífskraptur Evu þverraði óðum. Sjaldnar og sjaldnar heyrðist hið létta fótatak hennar á veggjasvölunum, en því optar var hana að Anna á legubekk, sem stóð við opinn gluggann; þar hvíldi hún og horfði með stóru, djúpu augunum sín um í öldurnar, er léku við sjávarströndina.

Einn dag er hún hvíldi á legubekknum sagði hún allt í einu við móður sína: „Mamma, eg vil láta klippa af mér nokkuð af hárinu mínu“.

„Til hvers?“ spurði móðir hennar.

„Mamma, mig langar til að gefa vinum mínum það á meðan eg get gjört það sjálf; villtu biðja frænku að koma og klippa það fyrir mig?“

Frú St. Clare kallaði á Ophelíu, sem var í öðru herbergi.

Barnið reisti höfuðið frá koddanum, hristi hina gullnu lokka sína og sagði glaðleg: „Komdu frænka og klipptu kindina“.

„Um hvað ert þú að tala?“ sagði St. Clare, sem kom að í þessu bili með aldini, er hann ætlaði henni.

„Pabbi, eg bað frænku að klippa dálítið af hárinu mínu, það er of mikið og eg ætla að gefa það“.

Ophelía kom með skærin.

„Gjörðu það gætilega,“ sagði St. Clare, „klipptu par sem minnst ber á. Eg er stoltur af hárlokkunum hennar Evu“.

„Ó, pabbi minn,“ sagði Eva hryggðarleg.

„Já, eg vil hafa þá fallega, þegar við förum að finna hann frænda okkar,“ sagði St. Clare í glaðlegum róm.

„Eg fer þangað aldrei, pabbi. Ó, trúðu mér! Sérðu það ekki pabbi, að eg er alltaf að verða meira og meira veik?“

„Því villtu að eg trúi því, sem er svo voðalegt, Eva?“ sagði faðir hennar.

„Vegna þess að það er satt pabbi, og ef þú trúir því nú, ferðu máske að hugsa um það á sama hátt og eg“.

St Clare sagði ekkert; hann stóð þegjandi og horfði með hryggð á löngu, björtu lokkana, sem voru klipptir af höfði hennar hver af öðrum og lagðir í kjöltu hennar. Hún tók þá upp, skoðaði þá og vafði þeim um mögru fingurna, og leit við og við áhyggjufull til föður síns. Hún gjörði honum bendingu að koma; hann kom og settist á bekkinn hjá henni.

„Pabbi, þróttur minn þverrar með hverjum degi. Mig langar að sjá allt fólkið okkar saman komið. Sendu eptir því pabbi. Það er dálítið sem eg verð að segja því,“ sagði Eva.

Ophelía sendi eptir öllu heimilisfólkinu, og brátt var það allt saman komið í herberginu.