Tómas frændi/XVII

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

XVII. Seinasta gjöf Evu.

Eva hallaði sér aptur á koddann; hár hennar liðaðist umhverfis andlitið, kinnar hennar voru eldrauðar, en að öðru leyti var hún náföl. Fólkinu hnykkti mjög við, það leit hvert til annars, og varpaði öndinni. Það var steinhljóð.

Eva reis við og horfði lengi og alvarlega á hvern einstakan af fólkinu. Allir voru hryggir og margt af kvennfólkinu hélt svuntum sínum fyrir andlitið.

„Eg sendi eptir ykkur, kæru vinir mínir,“ sagði Eva, „af því mér þykir svo vænt um ykkur, og eg hef nokkuð til að segja ykkur, sem eg vil að þið munið æfinlega ... Eg fer nú bráðum frá ykkur. Eptir fáar vikur sjáið þið mig ekki framar hér“.

Lengra komst hún eigi fyrir grátstunum og andvörpunum allra, er við voru staddir, sem yfirgnæfðu algjörlega hina veiku rödd hennar. Hún þagði nokkur augnablik, og sagði svo með málróm, er stöðvaði grátstunur allra:

„Það er enginn ykkar á meðal, sem ekki hefur ætíð verið góður við mig; og mig langar til að gefa ykkur eitthvað, sem minnir ykkur á mig í hvert skipti, sem þið lítið á það. Eg ætla að gefa hverjum ykkar lokk úr hárinu mínu, og þegar þið horfið á lokkinn, þá eigið þið að hugsa um það, að eg elskaði ykkur og er farin til himnaríkis, og að eg vona að sjá ykkur þar öll.“

Það er ómögulegt að lýsa því, er allt fólkið safnaðist umhverfis barnið og tók á móti hinni seinustu gjöf hennar, er bar svo mjög vott um kærleika hennar. Það féll á kné við legubekkinn grátandi og andvarpandi og kysti faldinn á kjólnum hennar.

Ophelía benti sérhverjum, sem hafði tekið við sinni gjöf, að fara út úr herberginu; hún óttaðist að þessar miklu geðshræringar kynnu að hafa ill áhrif á sjúklinginn.

Að síðustu voru allir farnir nema Tómas og gamla fóstran.

„Hérna Tómas frændi,“ sagði Eva, „hér er einn fallegur handa þér. Ó, Tómas, eg er svo glöð af að hugsa til þess, að eg skuli sjá þig aptur á himnum, því eg er alveg viss um það; og fóstra—elsku, góða, kæra fóstra mín!“ sagði hún og vafði handleggjunum blíðlega utanum hálsinn á gömlu fóstru sinni — „eg veit að þú kemur þangað líka“.

„Ó, ungfrú Eva, eg veit ekki hvernig eg get lifað án yðar“, sagði gamla konan, og grét hástöfum.

Ophelía opnaði dyrnar og ýtti þeim Tómasi frænda og fóstru Evu góðlátlega út, og hugsaði að nú væru allir farnir; en er hún sneri sér við, sá hún að Topsý stóð þar.

„Hvaðan kemur þú, barn?“ spurði hún.

„Eg var hérna inni,“ sagði Topsý og þurkaði tárin af kinnum sínum. „Ó, ungfrú Eva, eg hef verið vond og óþekk, en viljið þér ekki gefa mér einn líka?“

„Jú, veslings Topsý, jú, það vil eg sannarlega. Í hvert skipti sem þú horfir á þennan hárlokk, áttu að hugsa um að eg elskaði þig, og mig langaði til að þú yrðir gott barn“.

„Ó, ungfrú Eva, eg er alltaf að reyna til þess, en það er svo erfitt að vera góður!“

Topsý hélt svuntu sinni fyrir augun, og gekk þegjandi út með Ophelíu; en hinn dýrmæta hárlokk geymdi hún á brjósti sínu.

Þegar allir vóru farnir, lokaði Ophelía dyrunum.

Á meðan þessu fór fram, sat St. Clare grafkyr og byrgði andlitið í höndum sér. Hann sat þannig enn um hríð, er allir voru farnir.

„Pabbi!“ sagði Eva blíðlega og lagði hönd sína á hönd hans.

Hann tók snöggt viðbragð, en svaraði engu.

„Pabbi, það gjörir útaf við mig að sjá þig svona“ sagði Eva og fleygði sér í fang hans. Þar hvíldi hún um stund, eins og þreytt dúfa, en hann laut yfir hana og hughreysti hana með öllum þeim blíðu-orðum, er honum komu til hugar.

„Þú gefur mér engan hárlokk, Eva,“ sagði faðir hennar og brosti lítið eitt.

„Þú átt þá alla, pabbi,“ sagði hún brosandi, „þið mamma bæði, og þú mátt gefa frænku eins marga og hún vill. Eg vildi gefa veslings fólkinu okkar þá gjöf, því eins og þú veizt, pabbi, verður þeim máske gleymt, þegar eg er farin“.

Evu hnignaði dag frá degi; það var engum efabundið, hver endalokin yrðu.

Tómas frændi dvaldi mikinn hluta tímans í herbergi Evu. Barnið þjáðist mjög af þreytu og óþreyju, og henni var hvíld í því að hún væri borin. Og það var hið mesta yndi Tómasar að bera hina litlu veiku vinstúlku sína ýmist fram og aptur um herbergið, eða út á veggsvalimar; og þegar hinn upplífgandi morgunblær lék um garðinn, og barnið var með hressasta móti, þá leiddi hann hana við hönd sér undir trjánum í garðinum, eða þau settust á einhvern grasbekkinn, þar sem þau svo opt höfðu setið, og hann söng fyrir hana ýms uppáhalds lög hennar.

Loks kom endirinn. Faðir hennar var í herberginu við rúmið hennar. „Ó, að hún vaknaði og talaði til mín einu sinni enn!“ sagði hann og laut yfir hana: „Eva, yndið mitt!“

Stóru, bláu augun opnuðust, og bros lék um varimar. Hún reyndi til að reisa við höfuðið og tala.

„Þekkirðu mig, Eva?“ sagði faðir hennar.

„Elsku pabbi,“ sagði barnið og vafði handleggjunum um hálsinn á honum, en á næsta augnabliki hnigu þeir máttvana niður; hún brauzt um til að reyna að ná andanum, og teygði upp litlu hendurnar.

„Ó, guð minn góður, þetta er hræðilegt!“ sagði St. Clare, og sneri sér undan, frá sér numinn af angist. Hann þreif í höndina á Tómasi í einhverju ofboði. „Ó, Tómas, Tómas, þetta er ógurlegt, það gjörir útaf við mig!“

Tómas tók báðum höndum utan um hönd húsbónda síns; tárin streymdu niður um hinar dökku kinnar hans, en hann leit upp á við; þaðan hafði hann ætíð vænt hjálpar.

Barnið lá nú rólegt, en dró andann ótt og títt, og var auðséð að lífskraptur hennar var þrotinn. Hún hafði opin stóru, bláu augun og starði út í geiminn. Þau þyrptust öll að rúminu.

„Eva“ sagði St. Clare blíðlega.

Hún heyrði ekki til hans.

„Ó, Eva, segðu okkur, hvað þú sérð! hvað er það?“ sagði faðir hennar.

Bjart og dýrðlegt bros ljómaði á ásýnd hennar og hún sagði hægt og með hvíldum: — „Ó, kærleikur — friður — gleði!“ — svo stundi hún við og gekk frá dauðanum til líf síns!

Farðu vel ástkæra barn! Hinar björtu dyr eilífðarinnar hafa lokast á eptir þér. Vér sjáum eigi framar þitt undurfagra andlit.