Tómas frændi/XX

Úr Wikiheimild

XX. Heitið efnt.

Georg Shelby hafði ritað móður sinni og sagt henni hvenær hún mætti búast við sér heim. Hann hafði ekki hjarta í sér til að skrifa um andlát hins gamla vinar síns. Hann gjörði nokkrar tilraunir í þá átt, en jafnan lauk þeim svo, að hann reif bréfið í sundur, þurkaði sér um augun, og varð að ganga eitthvað til að ná rósemi sinni.

Það var mikil tilhlökkun á heimili Shelbys daginn sem von var á hinum unga „massa Georg“.

Loksins heyrðist vagnhljóð.

„Massa Georg!“ sagði Klóa frænka og þaut út að glugganum. Frú Shelby hljóp fram í dyrnar; þar mætti hún syni sínum, er tók hana í faðm sér.

Klóa stóð kvíðafull á svip og horfði fram fyrir sig.

„Veslings Klóa frænka!“ sagði Georg, og tók utan um hörðu, dökku hendurnar hennar, „Eg hefði viljað gefa aleigu mína til að geta komið með hann með mér, — en hann er farinn til betri heimkynna“.

Frú Shelby hrópaði upp yfir sig, en Klóa sagði ekkert; hún sneri sér undan og ætlaði út úr herberginu. Frú Shelby gekk hægt á eptir henni, tók í aðra hönd hennar, leiddi hana með sér að stól, lét hana setjast og settist hjá henni.

„Veslings, góða Klóa mín!“ sagði hún. Klóa lagði höfuðið að öxl húsmóður sinnar og sagði með þungum ekka: „Ó! missus, missus, hjarta mitt springur af sorg!“

Það var þögn nokkra stund og þau grétu hvert með öðru; því næst settist Georg við hliðina á Klóu frænku, hélt í hönd hennar og sagði henni með fáum áhrifamiklum orðum frá hinni dýrðlegu burtferð manns hennar úr þessum heimi, og skilaði hinni síðustu ástar kveðju.

Hér um bil mánuði síðar var það einn morgun, að öllu þjónustufólki Shelbys var stefnt saman í stóran samkomusal þar í húsinu, til þess að hlýða á nokkur orð, er hinn ungi húsbóndi þeirra ætlaði að tala til þeirra.

Það fékk öllum mikillar undrunar, er hann hafði með sér bunka mikinn af skjölum. Það voru lausnarbréf þeirra, og las hann þau upp hvert á fætur öðru og afhenti hverjum einum jafnóðum ; en allir, sem viðstaddir voru, gjörðu ýmist að þeir grétu fagnaðartárum eða æptu af undrun.

En margir af þeim þyrptust umhverfis hann og báðu hann með mikilli alvöru að láta sig ekki fara á brott, og réttu honum aptur lausnarbréf sín með áhyggju svip.

„Vér hirðum eigi að vera frjálsari, enn vér erum. Vér höfum ávallt haft allt það, er vér höfum þarfnast. Vér viljum ekki fara héðan, frá þessu gamla heimili voru, og frá „massa“ og „missus“ og öllum hinum“.

„Kæru vinir mínir“ sagði Georg, þegar er hann gat fengið hljóð. „Það kemur ekki til þess, að þér þurfið að fara héðan eða yfirgefa mig. Jörðin þarf eins mikinn vinnukrapt eins og áður, og eg þarf að hafa eins margt þjónustufólk við hús mitt, eins og eg hef haft að undanförnu. En nú eruð þér upp frá þessu frjálsir menn og frjálsar konur. Eptir þetta borga eg yður kaup fyrir vinnu yðar, eptir því sem oss semur um. Kosturinn við þetta er sá, að það verður ekki hægt áð taka yður og selja, þó svo færi að mín misti við eða eg lenti í skulda kröggum. Eg ætla mér að halda búskapnum áfram í sama horft, sem að undanförnu hefur verið, og kenna yður jafnframt það, sem þér munuð ef til vill þurfa nokkurn tíma til að læra — hvernig þér eigið að fara með réttindi þau, er eg hef nú gefið yður, sem frjálsir menn og frjálsar konur. Eg ætlast til þess af yður öllum, áð þér verðið iðin og námfús, og eg vona til guðs að eg verði trúr í starfi mínu og fús að leiðbeina yður. Og nú, vinir mínir; litið upp og þakkið guði fyrir blessun frelsisins.

Þér munið öll eptir hinum góða og dygga Tómasi frænda“. — Georg lýsti þessu næst með fáum orðum andáti hins gamla manns, bar þeim öllum hina hinnstu kærleiks kveðju hans og mælti að endingu: „Það var á leiði hans, vinir mínir, að eg hét því frammi fyrir augliti drottins, að eg skyldi aldrei framar þræl eiga, og að enginn maður skyldi fyrir mína sök þurfa að eiga það á hættu að verða skilinn frá heimili og vinum og deyja eimmana og yfirgefinn á fjarlægri plantekru, eins og hann gjörði. Þegar þér því fagnið yfir frelsi yðar, þá minnist þess jafnan, að þér eigið það að þakka þessum góða, gamla manni; og látið konu hans og börn njóta þess. Hugsið um frelsi yðar í hvert sinn er þér lítið á kofann hans Tómasar frænda, og látið það vera yður upphvatning og áminning um, að feta í fótspor hans og vera eins ráðvönd og trú og kristin, eins og hann var.“