Fara í innihald

Tómas frændi/XIX

Úr Wikiheimild
Tómas frændi
Höfundur: Harriet Beecher Stowe
Þýðing: Guðrún Lárusdóttir
XX


XIX. Andlát Tómasar frænda.

Það fór hrollur um Georg Shelby og honum varð illt fyrir hjartanu, er hann gekk inn í kofann, þar sem Tómas frændi hefði legið í tvo daga.

„Er það mögulegt — er það mögulegt?" sagði hann og kraup á kné við flet hans. „Tómas frændi; veslings, veslings gamli vinur!“

Það var eitthvað í málrómnum, er þrengdi sér að eyra hins deyjandi manns; því hann hreifði höfuðið ofurlítið og brosti.

Tár, sem voru karlmannshjarta hins unga manns til sóma, streymdu niður um kinnar hans, er hann laut yfir gamla vininn sinn.

„Ó, kæri Tómas frændi! Líttu upp, talaðu við mig einu sinni enn þá. Sjáðu! Það er hann Georg, hann litli Georg þinn. Þekkirðu mig ekki, Tómas frændi?“

„Master Georg!“ sagði Tómas, og opnaði augun; hann talaði 1 mjög veikum róm. „Master Georg!“ Hann virtist eiga bágt með að átta sig. Smám saman rankaði hann þó við sér, hið sljóa augnaráð skírðist og það birti yfir öllu andliti hans; hann fórnaði upp mögru höndunum, og tár runnu niður kinnarnar.

„Drottni sé lof og dýrð! þetta var — þetta var — þetta var það eina, sem mig vantaði! Þau hafa ekki gleymt mér! það vermir sálu mína, það er balsam mínu gamlahjarta! Nú dey eg glaður. Lofa þú Drottin, sála mín!“

* * *

Gleðin yfir að sjá son síns gamla, kæra húsbónda, hafði veitt hinum deyjandi manni nokkurn mátt, en sá máttur þraut bráðum aptur. Hann hné máttvana á flet sitt og lokaði augunum. Yfir andlit hans leið hin dularfulla, hátíðlega breyting, er bar vott um, að sál hans nálgaðist æðri heima.

Hann tók að draga andann djúpt og með löngu millibili. Hið breiða brjóst hans gekk upp og niður. Það var sigurvegara svipur á andliti hans.

„Hver — hver — hver getur skilið oss frá kærleika Krists?“ sagði hann með veikri rödd, er benti á að dauðinn var nálægur, og með bros á vörum sér sofnaði hann.

Georg var gagntekinn af hátíðarfullri lotningu; honum fannst þessi staður vera heilagur; en meðan hann var að veita hinum látna manni nábjargirnar, og reis á fætur frá fletinu, þá var það aðeins ein hugsun, er fyllti huga hans, hugsun sem hinn gamli vinur hans hafði látið í ljósi: „Hvílík blessun er að vera kristinn!“

Þegar hann reis á fætur, sá hann að Legree stóð þar nærri, ólundarlegur á svip.

Georg vafði yfirhöfn sinni um líkið: „Drengir“ sagði hann með valdmannslegum róm við svertingja nokkra, er stóðu þar og horfðu á lík hins látna, „hjálpið þið mér til að bera hann á vagninn, og lánið þið mér reku“.

Einn þeirra hljóp eptir rekunni, en hinir hjálpuðu Georg, með að bera líkið á vagninn.

Georg mælti ekki orð til Legrees, og leit ekki á hann, þar sem harm stóð og raulaði lag fyrir munni sér, eins og ekkert væri um að vera, en skipti sér þó ekkert af því þótt Georg byði svertingjunum að hjálpa sér; hann gekk ólundarlega á eptir þeim, þangað sem vagninn stóð við húsdyrnar.

Hinumegin við landamerki plantekrunnar var sandhóll, sem nokkur tré skyggðu á. Þar tóku þeir gröfina.

„Eigum við ekki að færa hann úr yfirhöfninni, massa?“ sögðu svertingjarnir, þegar gröfin var til búin.

„Nei, nei, grafið hana með honum. — Það er hið eina, sem eg get gefið þér, veslings Tómas, og þú skalt hafa hana?“

Þeir lögðu hann í gröfina og mokuðu síðan þegjandi ofan í hana, hlóðu því næst upp að leiðinu og lögðu grænt torf ofan á það.

„Þið megið nú fara, drengir,“ sagði Georg og legði silfurpening í lófa hvors þeirra. Þeir biðu samt við lítið eitt.

„Ef hinum unga massa þóknaðist að kaupa okkur?“ sagði annar.

„Við skyldum þjóna honum vel og með trúmennsku“ sagði hinn.

„Það eru harðir tímar hér, massa“ sagði hinn fyrri. „Gjörið þér það, massa; kaupið þér okkur; gjörið þér það!“

„Eg get það ekki, eg get það ekki“ sagði Georg, og átti örðugt með að segja það, „það er ómögulegt!“ Og hann gaf þeim bendingu um að fara.

Veslings mennirnir urðu hryggir við og gengu þegjandi burtu.

„Viti það eilífur guð“ sagði Georg og kraup á leiði hins gamla vinar síns, „að frá þessari stundu skal eg gjöra það sent einn maður getur gjört, til að reka bölvun þrældómsins úr föðurlandi mínu!