Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Mannafylgjur og aðsóknir (inngangur)

Úr Wikiheimild

Snið:Header Þessu næst er að víkja á leifar þær sem eru eftir af hinni fornu trú á fylgjur sem reyndar er ekki nema lítill urmull hjá því sem var. Veldur það því að nú er farið mjög að tíðkast að brenna barnsfylgjuna svo að eftir því sem fyrr er sagt ættu þeir allir að verða fylgjulausir enda mun sú skoðun vera farin að ryðja sér til rúms að menn vilji ef til vill helzt enga fylgju hafa og að það þyki nú allt að því eins illt að eiga nokkra, en ódæði að eiga illa, eins og áður þótti að eiga enga; því nú er hætt að skoða mannsfylgjuna sem vernaranda mannsins eða hamingju hans, heldur miklu fremur sem óþægilegan áböggul ef hún er ill, en annars er hún látin liggja á milli hluta ef hún er meinlaus og gagnslaus og þó þá kölluð góð fylgja. En ávallt loðir það við að vandfarið þykir með barnsfylgjuna eftir fæðinguna og því hefur verið tekið upp á því að brenna hana af því að hvort sem hún hefur verið grafin niður eða henni fleygt út á víðavang þótti eigi ugglaust um að mannsfylgjan yrði ill og óþægileg. Það var og er enn trú að í þess kvikindis mynd sem fyrst gekk þar yfir, flaug eða skreið sem barnsfylgjan var grafin ef það var utan bæjar ætti maðurinn að eiga fylgju á eftir. Það hefur sumsé tíðkazt á ýmsum stöðum að menn hafa grafið barnsfylgjuna ekki einungis innan bæjar sem áður segir, heldur og utan bæjar, og átti að leggja þar stein yfir sem hún var grafin; nú átti konan fyrst er hún steig af sæng að stíga á þenna stein og ganga síðan þrisvar í kringum bæinn eða húsagarðinn.

Ekki varð þá heldur hóti óhultara fyrir vondri fylgju að fleygja barnsfylgjunni út á víðavang sem og hefur tíðkazt; því þá flykktust að henni hrædýr, rifu hana í sig og átu hvert sem fyrst bar að henni því dýrum á að þykja barnsfylgjan lostæt mjög. Það dýr sem fylgjuna át átti síðan að fylgja þeim sem barnsfylgjuna átti upphaflega og urðu það oftast hundar eða tófur eða kettir eða hræfuglar, völskur eða mýs. Ekki fór betur ef barnsfylgjunni var snarað í sjó þar sem illyrmi var fyrir og ófreskjur eða sjóskrímsli gleyptu hana því þá fylgdu þau síðan manninum. Ýmsar slíkar fylgjur hafa skyggnir menn séð og aðra dreymt þær bæði að fornu og nýju í ýmsra dýra líki og eru þær taldar sumar illar, en sumar góðar. En það er undir mynd fylgjunnar komið hvort hún er álitin ill eða góð. Flestar mannafylgjur sem eru í dýralíki nokkru þykja illar nema í bjarnarmynd og eimir það án efa eftir af hinni fornu fylgjutrú. Þar að auki er sagt að þeir eigi kvikindi fyrir fylgjur eða skrímsli sem eru af óhræsisættum. Síðan það fór að tíðkast að brenna barnsfylgjuna fylgir þeim mönnum ljós eða stjarna, logi eða glampi, og þykja það allt góðar fylgjur nema Urðarmáninn. Oft þykjast menn enn verða varir við fylgjur þótt ekki sé skyggnir menn né þá dreymi fyrir gestakomu, heldur verður þeirra vart á þann hátt að menn bæði finna einhverja ókennilega lykt líkasta því sem væri af súru smjöri, og heitir það fylgjulykt, og eins ef svefn og drungi sækir á menn á óvenjulegum tíma dagsins er það kallað aðsókn, en aðsóknir eru eins og fylgjurnar ýmist góðar eða illar og því er sagt að sá og sá „sæki vel eða illa að“. Ef fylgjulyktin finnst þykir þess vera víst að vænta að fylgja nokkur sé í nánd og er þá ætíð varlegra að skyrpa í allar áttir, fússa og sveia því þá hrekkur fylgjan frá ef hún er til.

Þá er það enn eitt athugavert við fylgjur að ævinlega verður þeirra vart á undan þeim er þær á, en ef fylgjan fer eftir honum má ganga að því vísu að hann er feigur. Um dáinsfylgju er það að segja að svipur er eftir hvern dauðan mann; kalla sumir það fylgju og segja að það sé allt eitt. Aðrir segja að svipir fylgi dauðum mönnum, en fylgjur lifandi og er það líkara að svo sé því eins og áður er sagt eru fylgjur svo ýmislega á sig komnar, en svipirnir eru nokkurs konar vofur eða andar, ljósgráir að lit, oftast aflangir og strókmyndaðir; þeir eru á sífelldu reiki því þeir líða þangað sem loftstraumurinn ber þá. Svipurinn sést ýmist þar sem maðurinn deyr eða annarstaðar, en aldrei nema í myrkri; engum gjörir hann manni mein. Þetta kalla sumir dauðs manns fylgju, en aðrir dáinsfylgju.

Eins óvíst og það er hvort svipir eigi skylt við mannafylgjur eins víst er það að nú er þegar út kulnuð sú trú að fylgjur séu lengur hamingjudísir manna enda skilja menn oftast við fylgjur drauga sem verða þeim er þær fylgja verstu meinvættir og nálega til allrar óhamingju. Slíkar fylgjur eða fylgidraugar eru eftir eðli sínu eins og áður er sagt annaðhvort uppvakningar eða þeir menn sem hafa látizt af helstríði og heift við aðra sem rís af rofnum einkamálum eða öðru slíku, gengið svo aftur og fylgja þeim og ætt þeirra og hafa drepið bæði menn og málleysingja, og því er ekki kyn þó mönnum sé nú orðið lítt gefið um fylgjur.