Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sagnarandar (inngangur)

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, edited by Jón Árnason
Sagnarandar
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Ef maður vill vita óorðna hluti þarf ekki annað en útvega sér sagnaranda og segir hann manni frá öllu sem maður vill vita og líkist í því draummanni nema hvað andinn segir manni allt í vöku, en draummaðurinn í svefni. En miklu meiri kynngi þarf til þess að útvega sér sagnaranda en draummann sem hér segir.

Vilji maður fá sér sagnaranda skal maður fara einn frá mönnum þangað sem hann veit að enginn muni koma því líf hans liggur við ef á hann er yrt á meðan hann er að seiða til sín sagnaranda. Hann skal leggjast í skugga (forsælu) og snúa sér mót norðri. Hafa skal hann kapalskæni yfir vitum sér og lesa svo galdraþulu nokkra. Skænið leggst inn í munn þess sem seiðir og kemur þá andinn og vill fara ofan í manninn. Verður skænið fyrir honum og þegar hann er þar kominn bítur maðurinn saman tönnunum. Verður þá andinn innan í skæninu og lætur maðurinn skænið með andanum innan í bauk. Ekki mælir andinn fyrr en maðurinn hefur dreypt á hann helguðu víni. Skal hann svo að því fara að hann hefur baukinn sem andinn er í undir klút sínum þegar hann fer til altaris. Spýtir hann þá víninu út úr sér í baukinn. Gefa má og sagnaranda dögg þá er fellur í maímánuði, en ekki er það einhlítt. Sagnarandi segir þeim er hann hefur allt sem hann vill vita, en helzt talar hann í þykku rosaveðri og austanátt. Sleppi sagnarandinn úr bauknum gjörir hann þann mann vitlausan sem átti hann því hann fer ofan í hann.