Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Húsbyggingin

Úr Wikiheimild

Einu sinni fóru Bakkabræður að byggja sér húskofa. Er ekki annars getið en allt gengi vel með tóftina. En nú átti að fara að refta; er þá ásinn rafta fyrstur. Nú taka þeir ásinn og fara með hann að dyrunum, láta hann þversum fyrir dyrnar og ætla hönum þar inn að ganga; reyna þeir á alla vega að koma honum inn um dyrnar, en það gengur ekki, hvört sem þeir svo reyna þversum, í skakkhorn eða reisa ásinn upp, en aldrei kom þeim til hugar að bera endann að dyrunum. Loks kemur til þeirra maður og spur hvað þeir séu að gera. Þeir segjast vera ráðalausir með að koma húsásnum inn. Hann býðst til að hjálpa þeim fyrir kaup; þeir ganga að því. Tekur hann þá ásinn og leggur á stafna eins og venja er til.

Nú gengur þeim vel að refta húsið og þekja, en þá er sá ókostur við að koldimmt er í húsinu. Þetta þókti þeim slæmt og vissu ekki hvörnig úr skyldi ráða. Þá segir einn þeirra: „Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, ég sé ráð við þessu: sækjum okkur sorptrog heim og berum myrkrið út og sólskinið inn í staðinn.“ Gera þeir nú svo; gekk svo lengi dags að ekkert birti í húsinu. Kom þar þá maður og spurði hvað þeir væru að gera; þeir segja hönum eins og var. Bauðst hann þá til fyrir kaup að koma birtu inn í húsið; taka þeir því þakksamlega. Sker hann þá glugga á húsið; kom þá í það nægileg birta.