Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Kvaðir á vegfarendum
Kvaðir á vegfarendum
Ekki eru óvíða á Íslandi þeir staðir sem mikil trú hefur verið á að ekki mætti fara svo fram hjá að maður hefði þar ekki nokkra viðdvöl annaðhvort til að biðjast fyrir eða til að greiða þar eitthvað af hendi, og mun hvorttveggja vera í því skyni að manni farnist vel eins og beinlínis er tekið fram um suma þeirra.
Áður er þess getið að enginn fari svo um Njarðvíkurskriður í Múlasýslu að hann lesi þar ekki faðirvor framfallandi og eins um bænagjörð þeirra við Gvendaraltari sem fara upp og ofan af Drangey.”
Hinn þriðji staður sem þessi bænakvöð liggur á vegfarendum er Úlfsey í Búlandsnesseyjum. Á þeirri ey er fornmanns haugur sem líklega hefur heitað Úlfur. Enginn maður má þar svo fæti á land stíga að hann syngi ekki eitt vers við hauginn, gjöri þar bæn sína eða leggi einn stein í Úlfshaug.
Það er víst að á tveimur hinum fyrst nefndu stöðum þykir svo mikil lífshætta að fara að ekki veiti af þó maður sé vel undirbúinn hvað sem að höndum kann að bera. En þess konar getur ekki verið orsökin til þess þar sem torfærulaus og greiður vegur liggur á þurru landi, og þó er vegfarendum þar engu síður skylt að greiða nokkuð af hendi ef þeim á vel að farnast en að gjöra bæn sína á fyrrnefndum stöðum. Sumstaðar er þetta gjört þegar maður fer í fyrsta sinni einhvern veg, en sumstaðar í hvert sinn sem sami vegur er farinn. Nálega er í öllum slíkum stöðum annaðhvort steinahrúgur sem líklega hafa myndazt af þessum greiðslum, og er sumt af þeim kölluð dys, eða þá stórir steinar með svo mörgum smásteinum upp á sem á þeim tollir. Tveir steinar þessleiðis eru fyrir norðan og heitir hvor um sig „Greiði“[1] af því þeir sem um veginn fara eiga að leggja þrjá steina hver upp á þá og allt eins er með dysirnar, t. d. Illþurrkudys á Skarðsströnd, eða steinahrúgurnar að hver maður skal leggja í þær þrjá steina af hestbaki. Eins má greiða annað en steina til sumra þessara staða að minnsta kosti, t. d. skó eða skóbót, vettling eða sokkaband, tág eða hríslukvist, en þó nægir ef steinar eru greiddir alstaðar sem ég veit til nema í Íleppsdal, þar skal greiða í skileyri.
Áður er getið um Úlfshaug og að þangað skuli greiða einn stein. Djáknadys er annar staðurinn, það er í Hamarsfirði skammt fyrir innan Háls; þar hittust einu sinni prestur og djákni. Þeir börðust þar og drápu hvor annan. Voru þeir dysjaðir þar sem þeir fundust og heitir það Djáknadys. Hver sem í fyrsta sinni ríður hjá dysinni skal kasta í hana þremur steinum, annars vill honum eitthvert slys til.
Fjölskylduholt heitir hæð ein eða hryggur á miðri Þorskafjarðarheiði, en sú heiði er milli Þorskafjarðar að sunnan og Ísafjarðar eða Langadals að norðan og er að lengd hátt á aðra þingmannaleið milli byggða. Þetta svo nefnda Fjölskylduholt er á miðri heiðinni og skiptir þar vötnum í suður og norður; holtið er breitt og flatt, en það sem því er til einkennis er ótölulegur vörðugrúi sem viðbrugðið er og kallað eitt af því sem ekki megi koma tölu á.[2] En svo er vörðugrúi þessi undirkominn að það hefur frá alda öðli verið skylda allra ferðamanna er farið hafa hið fyrsta sinn heiði þessa að auka töluna með nýrri vörðu eða þá að minnsta kosti að setja tvo eða þrjá steina saman á holtinu.
Í fjöllunum austan við Reykjadal í Ólafsfirði ætla sumir í Fljótum og Ólafsfirði að sé dalverpi er heiti Íleppsdalur; á hann að vera alsettur klettum í kring, en ein gjá sem ofan megi komast. Fyrr meir var það trú manna að mikið af því afréttafé sem vantaði á haustin færi í þenna dal og gengi þar sjálfala og höfðu menn sögur um að einhver hefði farið þangað og komið aftur með ósköp af fé. Það sögðu menn og að enginn gæti upp úr dalnum komizt nema því aðeins að hann skildi þar eftir ílepp úr skó sínum.