Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Selur og selamóðir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Selur og selamóðir

Fleiri lagardýr eru það enn sem ekki er vandræðalaust við að eiga. Tel ég fyrst til þeirra selinn og selamóðurina. Sagt er að selamóðir sé hvervetna þar sem margir selir halda sig að jafnaði og að hún sé meinvættur sem éti það allt upp sem nærri henni komi.

Einu sinni er sagt að selamóðir hafi synt upp í Hvítá.[1]

Frá uppruna selsins er svo sagt að þegar Faraó Egyptalandskonungur veitti Móse og Gyðingum eftirför yfir Rauðahafið og drukknaði þar með öllu liði sínu sem kunnugt er úr biblíunni varð konungur og allir liðsmenn hans að selum og því eru beinin í selnum svo lík mannsbeinum. Síðan lifa selirnir sem sérstök kynslóð á mararbotni, en hafa alla mannlega mynd, eðli og eiginlegleika innan í selshömunum. Eggert Ólafsson kallar þá sæfólk.[2] En það var þeim lagt til líknar að þeir skyldu komast úr selshömunum á Jónsmessunótt, aðrir segja á þrettánda dags nótt jóla, enda fara þeir þá á land og taka á sig mannsmynd, syngja og dansa sem mennskir menn.

  1. Sjá Selurinn og skatan í Lagarfljóti.
  2. Ferðabók Eggerts og Bjarna, Rvík 1943, I, 373. bls., og segir hann að sækýr séu frá því fólki komnar, en ég hef heyrt að þær ættu að vera komnar frá marbendlum; sjá Marbendill, sjódvergur.