Fara í innihald

Búnaðarbálkur/M

Úr Wikiheimild
L
Búnaðarbálkur
Höfundur: Eggert Ólafsson
M
N
M
Hve skemtilig sè heimkoma vellíðunar bænda af lángferðum. Góðra kvenna atlæti mót bændum sínum.
17.
A lángferðum nær eg er úti,
aðdrátta vegna' um heiða-geim,
get eg helzt þángað girndin lúti,
gott er að vera kominn heim;
því hjartað mitt er helmíngað,
hlakka eg til að finna það.
18.
Eg veit hún hefir sinni sama,
saknar hún strax ef geing eg frá;
þót við sín hafi verkin gaman,
vantar hana' allt, nema' eg sè hjá.
Skal hann ei bráðum bruna' í tún?
bóndann dreymdi mig, segir hún.
19.
Lít eg af holti lönd og garða,
lifnar blóðið við slíka sjón,
mæli hvörn spöl á spannar kvarða,
sprett læt eg fara bitil-ljón,
lángt finnst mèr heim að bænum bil,
bráðlætið samt fyrir öðrum dyl.
20.
Húsfreyan hefir augað úti
annað slagið, og þetta sèr;
hún strýkr munninn klèn með klúti,
kemr þegar á baki' eg er,
og bjarta leggr hönd um háls,
heldr enn ekki við mig frjáls.
21.
Hún kyssir mig og með klappi segir:
komdu blessaðr, heillin mín!
guði sè lof! og finn þig fegin;
fyrir margt laungu vænti' eg þín!
hjúin gleðjast og börnin blíð,
bugtið það geingr lánga hríð.
22.
Eg fer í bæ og hressist heldr;
hún dregr af mèr vos-klæðin;
svo kuldinn flýi, kveikist eldr,
kræsast þar einhvörr rèttrinn:
borðið er sett með bezta mat,
í búrinu sem hún feingið gat.
23.
Hún finnr margt til yndis orða,
einsog fyrst nýgift værum þá;
hún mig ýmist biðr að borða,
brátt kvartar, að mèr fellst ei á;
hún segir: fyrir þreyttan þig,
það er nú mál að hvíla sig!
24.
Af beztu faungum býr hún rúmið,
að bæði getum sofið hægt:
að dökku líðr dagr húmi,
dasaðr sef, (því vel er lægt)
í minnar ástar faðmi fús,
fram til dagrinn birtir hús.
25.
Viðr morguns eg vakna roða,
vakr og nýr, að hugsa' um bú;
þanninn ámilli vaðmáls voða
værara' eg sef, að minni trú,
enn kóngr svaf á silki-býng
syrgjandi, kafinn umþeinkíng.
26.
Hvað sætt er þannig heim að vitja,
hugsi þeir til sem reyna líkt!
á landi giftr svona' að sitja,
sælgæti mun ei finnast slíkt.
O! hvað sælan þann segg eg tel,
sem þannig býr og giftist vel!