Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Forspár (inngangur)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, ritstjórn Jón Árnason
Forspár

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Þriðja vitrunargáfan er forspá og er hún í þvi fólgin að þeir sem sú gáfa er gefin geta séð furðulangt fram í ókomna tímann og sagt fyrir óorðna hluti; heita þeir því forspáir menn. Þó þessi hæfilegleiki hafi ekki heldur en hinir tveir nýnefndu verið almennur lítur eigi að síður svo út sem hann hafi verið miklu tíðari hér á landi að fornu fari en hann er nú á dögum þar sem bæði Gestur Oddleifsson, Njáll og Snorri goði og margir fleiri eru taldir forspáir menn, og voru þó allir uppi undir eins. Nú á dögum vita menn varla af nokkrum forspáum manni að segja því allt er það annað mál en meðfæddur hæfilegleiki þó menn taki enn mark á ýmsu er menn ætla að ráða megi af hvernig það eða það fyrirtæki muni heppnast eða hverju fram vindi. Þannig hefur það þótt góðsviti ef maður dettur þegar maður fer að heiman, en illsviti ef maður dettur heim í leið, eins og orðshátturinn segir: „Fall er fararheill frá bæ, en ekki að.“ Eins þykir það fyrirboði fyrir því að maður reiðist ef mann klæjar (snuggar) nefið, ef hann klæjar augun veit það á grát, ef hljómur er fyrir eyrum manns (klukknahljóð) boðar það að maður heyri mannslát innan skamms. En það er bæði að það yrði oflangt og ætti ekki heldur við að telja hér upp allt þess kyns sem tekið hefur verið mark á, bæði á manni sjálfum, dýrum, lofti og ýmsum dögum ársins, sem boði veðurlag fyrir um lengri eða skemmri tíma, enda verður sumt af því talið í náttúrusögum, en flest í kreddum, og eru það fyrirboðar, en ekki forspár. En þótt nú sé orðið fátt um forspáa menn[1] er allt að einu ekki svo að láta að ekki séu til sögur um þá frá fyrri öldum eftir að þeir Njáll og Gestur liðu undir lok þó ég telji ekki með þeim mönnum nafna minn Krukk sem ekki hafði heldur spásagnargáfu sína af meðfæddum hæfilegleika; og skal hér nú segja fáein dæmi af slíkum mönnum.

  1. Nú segja menn þó að „sig óri (eða ói) fyrir“ því eða því eða „sig smjúgi“ það eða það.