Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Gandreið (inngangur)

Úr Wikiheimild
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Hver sem vill geta riðið loft og lög verður að hafa beizli það sem heitir gandreiðarbeizli. Það er svo til búið að maður tekur upp nýgrafinn mann og ristir af honum hrygglengjuna. Hana hefur maður í tauma. Því næst skal flá höfuðleðrið af hinum dauða manni og hafa það í höfuðleður í beizlið. Málbein hins dauða manns skal í mél hafa og mjaðmir í kjálka. Galdur þarf og að lesa hér yfir og er þá beizlið búið. Þarf nú ekki annað en leggja gandreiðarbeizlið við mann eða dýr, stokk eða stein. Fer það þá í loft með þann sem á situr og flýgur fljótar en elding til þess staðar er maður vill. Verður þá þytur mikill í loftinu og þykjast sumir hafa heyrt hann og heyrt glamra í gandreiðarbeizlinu.

Í heiðni var gandreið alltíð. Orðið þýðir eftir uppruna sínum úlfareið og úlfum riðu tröllkonur sem segir í Eddu bæði hinni eldri og yngri. Síðan hefur gandreið verið höfð ei aðeins um reið á trylltum dýrum, heldur og um sérhverja för sem farin er og einhver fjölkynngi viðhöfð, t. d. um hamfarir. En hvað nú sé lagt í orðið sýnir auk þess sem hér hefur verið sagt sagan sem nú kemur og sagan af Hildi álfadrottning.