Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Formáli 1. útgáfu

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Guðbrandur Vigfússon, edited by Jón Árnason
Formáli 1. útgáfu

Frá því að Ísland fyrst byggðist hefur þar verið auðigt af þjóðsögum um álfa, tröll, afturgöngur og alls konar forneskjusögnum sem glöggt má sjá af sögunum. Þessar sagnir eru samgrónar hinum sönnu sögum og finnast hvað mest í þeim sögum sem beztar eru og sannorðastar; svo samgróin var sögn og saga í þær mundir. Í Eyrbyggju er langur þáttur um Fróðárundur og um afturgöngur Þórólfs; í Grettlu eru þættirnir um Glám, tröllkonuna í Bárðardal og sagan um Þórisdal. Í Heiðarvíga sögu er margt um fyrirburði og sjónir, og draumar og fyrirburðir boða Stórtíðindi ekki síður hjá hinum vitra höfundi Njálu en í hinum minnsta söguþætti, sem of langt yrði allt upp að telja. Hvorar tveggju sögurnar hafa alizt upp í einu brjósti eins og sambornar systur, hjátrúarsögurnar og hinar sönnu sögur, og báðar megu því með jöfnum rétti kallast þjóðsögur, og hjátrúarsögurnar þeim mun fremur sem hugsmíð og skáldskapur er undirstaða þeirra og þær þrotna því aldrei meðan vit og ímyndun ekki brestur, en yngjast ávallt upp og bregðast í ýmsa hami eftir sem tíðarandinn leikur á ýmsum áttum. Ef tíðarandinn er myrkur og hjátrúin röm þá bera draugasögur og galdrar yfirborð, en jafnskjótt og bráir af verða sögurnar mildari og álfasögur og indæl ævintýri verða þá meir yrkisefni þjóðarinnar. En bezt er þegar öllu bregður fyrir og af öllu er nokkuð, þá eru þjóðsögurnar eins og fagur og fjöllitur uppdráttur. Á sama hátt eru og þjóðsögurnar með sínum blæ og einkenni í landi hverju eftir sem skapferli og gáfnalag hverrar þjóðar er. Það var fyrst í orði að kenna safn þetta við fornfræði, en það varð bráðum ljóst að það nafn átti ekki við þetta safn í heild sinni og breytti því höf. nafninu og kallaði það Þjóðsögur og æfintýri. Mönnum hættir oft við af því fornöldin er móðir vorra tíma að eigna henni sem flest það sem gott er, allt sé þaðan komið munn frá munni og mann frá manni og síðari aldar menn hafi lítið annað gert en að muna og síðan að rita það sem geymzt hafi frá hinni fornu öld, þjóðsögurnar sé og þannig undir komnar. En menn gæta ekki þess að meðan þjóð er þjóð og líf er líf þá hverfur hið gamla eður skiptir litum og líkjum, en nýtt kemur í staðinn, og sú þjóð sem ekkert gjörir annað en muna er réttur steingjörvingur og getur varla talizt í tölu lifenda. Þjóðsögur þessar bera þess ljósan vott að enn er ekki komið svo á síðustu hlunna fyrir Íslendingum og að þeir kunna ekki síður að skapa nýtt í skarð hins gamla en að muna mann frá manni. Það væri mjög fróðlegt, en til þess er ekki tóm á þessum stað, svo til hlítar sé, að skoða safn þetta og bera saman þau litlu brot frá þjóðsögum sem til er frá 17. öld við það sem finnst í þessu safni og svo sögurnar innbyrðis eftir aldri sínum og frá hvaða tíma og öld hver saga sé eftir sem næst verður komizt, og mætti leiða af þeirri rannsókn mörg ný dæmi um líf og afdrif þessara sagna á ýmsum öldum. Menn barma sér oft yfir því að sagnalist sé að deyja niður í landinu, að sögurnar fækki á hverju ári eftir sem gamalt fólk, karlar og kerlingar, kveðja veröldina; er sá barlómur mest á því byggður að sögurnar sé fornfræði sem ekki verði endurbætt og hrörni eins og gamalt hús. Safn þetta mælir þessu í gegn; ef vel er athugað eru hinar fornustu sögur oft þær sem eru yngstar og sagt að hafi orðið í minni þeirra manna sem nú lifa. Fornaldarhugur sá sem enn lifir með Íslendingum er það sem gefur sögunum svip sinn, en ekki elli sögunnar.

Ég hef það fyrir satt að þó til væri fullkomið sögusafn frá 17. öld þá mundi það fara fjarri að það yrði auðigra en safn frá þessari öld nema ef vera skyldi í göldrum og særingum, og því síður mundi safn frá 16. öld og svo koll af kolli auðigra en hinna síðari alda; og þetta kemur af því að þjóðsögurnar eru engin fornfræði í hinni vanalegu þýðingu þessa orðs er geymist öld frá öld óbreyttar að öðru nema að þær eyðist og fækki. Þær eru fornar í anda, en nýjar að smíð; hinar gömlu sögur hrörna og líða undir lok, en í staðinn koma upp nýir menn og nýjar sögur sem skáldahugur þjóðarinnar leiðir æ fram nýjar. Trúin og sá andi sem sögurnar skapar er ávallt af gömlu bergi brotin, en hjúpurinn sem þær eru í klæddar er frá ýmsum öldum og skipta sögurnar hömum öld frá öld. Hver þáttur í bók þessari ber merki um þessi hamskipti sagnanna og hvernig þær koma fram endurbornar öld frá öld. Það nægir að benda aðeins á nokkur fá dæmi þessu til sönnunar. Ljósast er þetta við galdrasögur því þær eru flestar bundnar við vissa menn. Á 17. öld þekktu menn að vísu fleiri sögur um síra Hálfdan í Felli en nú, og hann og svo síra Þorkell Guðbjartsson vóru höfuðmenn í galdrasögum á þeirri öld. Nú eru þeir settir skör lægra, en þá eru aðrir komnir í þeirra stað, síra Eiríkur í Vogsósum sunnanlands, en Þormóður í Gvendareyjum vestanlands, og þessir menn vóru varla fæddir þegar Ólafur gamli ritaði sínar sögur á 17. öld sem síðan verður getið. Þar sem Ólafur talar um harðfjötur og eignar þær sögur síra Hálfdani þá eigna nú sögurnar flest þess konar síra Eiríki. Er það stutt yfir sögu að fara að fullur helmingur af galdramannasögunum er um menn sem lifað hafa eftir tíð Ólafs gamla og flestar frá 18. öld. Á 17. öld aftur á móti vóru flestar slíkar sögur um menn sem höfðu lifað á 15. eður 16. öld og Ólafur tóni einn frá 14. öld, og svo mun hafa gengið koll af kolli ef menn hefði safn frá hverri öld allt fram á söguöld vora.

Um Sæmund fróða er oss mjög grunur á að sögurnar um hann sé ekki ýkja gamlar. Sögurnar bera þann blæ að vera úr sömu smiðju og um síra Hálfdan enda er Sæmundur talinn skólabróðir hans. Ólafur gamli nefnir ekki Sæmund í þá veru, ekki heldur Björn á Skarðsá né Jón lærði, það mér sé kunnigt. En í enda 17. aldar eru komnar upp margar sögur um hann. Hér verður að gæta þess að á fyrra hluta 17. aldar vissu menn fátt um Sæmund nema sagan um skólaveru hans í Jóns sögu helga var snemma kunn. En þá kom enn engum til hugar að eigna Sæmundi goða- eður Völsungakviðurnar. En eftir árið 1643 að Brynjúlfur biskup hafði gefið kviðum þessum nafn og höfund þá var nafn Sæmundar í hvers manns munni, og ef menn gæta þess hvað þjóðsögur skapast skjótt ef skáldaandann ekki brestur hjá þjóðinni þá eru það engar öfgar þó um aldamótin 1700 væri svo margar sögur um síra Sæmund og hann settur í flokk með síra Hálfdani og Straumfjarðar-Höllu; slíkar sögur skapast enn í dag á minna en mannsaldri og enda í lifandi lífi manna. Jón Ólafsson frá Grunnavík kunni ekki fáar sögur um Skottur og sendingar sem sendar vóru Páli Vídalín; síra Gunnar Pálsson sem þó var prúður maður í lund gat þó ekki við því séð að hann var eftir dauðann settur í galdramanna tölu líkt því sem í fyrri tíð var siður að setja menn í helgra manna tölu, og Íslendingar hafa á öllum öldum farið svo með heldri menn sína og veit enginn hvað liggur fyrir þeim sem nú eru uppi, í þjóðsögusafni komandi aldar.

Höfundur þessa safns hefur því ekki þótzt geta fellt úr sögur um núlifandi menn því þá hefði og mátt fella burt sögur um feður og afa þeirra sem nú eru uppi, en þá hefði safn þetta ekki sýnt sem vera ætti hamskipti sagnanna á ýmsum tímum og hugsmíð þjóðarinnar í sagnasmíð sinni allt fram á þenna dag.

Af draugum og afturgöngum hefði safn þetta orðið örþrota ef ekki hefði mátt nefna neitt nema það sem var 100 ára eða þaðan af eldra og flestar beztu sögurnar eru úr tíð núlifandi manna eður næstu kynslóð á undan. Hefur höfundurinn því gjört öllum jafnt undir höfði, lifandi mönnum og dauðum, og ekki fundið sér skylt að veitast heldur að hinum dauðu sem ekki geta af sér hrundið ef ranghermt er og hefur höf. treyst því að öllum þyki gaman að lesa þetta sem gjörst að verður svo safn þetta verði sem fyllst fram á þann dag sem nú stendur yfir.

Um álfasögurnar má engu síður segja hið sama. Mikill fjöldi þeirra er eftir sögn og sýn manna sem enn lifa og Álfa-Árni sem er höfuðmaður í þeim sögum lifði á miðri 18. öld, en svipur sagnanna er þó ávallt hinn sami sem finnst í elztu ritum frá fornöld; þannig lifir fornt og ungt einu lífi að kalla má í sögnum þessum; hið bezta af hinu gamla hefur oft geymzt, ef ekki óbreytt, þá endurborið í öðrum og nýjum sögum.

Hvergi eru hinar íslenzku þjóðsögur svo óþrjótandi sem í ævintýrunum og eru sögur þessar sumar hverjar að efni ýkja gamlar. Sverrir konungur minnist á stjúpmæðrasögur og svo Oddur munkur í formála Ólafs sögu Tryggvasonar. Slíkar sögur þekkir enn hvert barn á Íslandi og flestir munu muna til þess hvað sólgnir þeir vóru þegar þeir vóru börn í þær sögur sem byrja á því að „einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í garðshorni“; og um karlssoninn sem að lokum eignaðist hina fögru kóngsdóttur heima í kóngsríkinu og kóngsbörn í álögum eður um kúna í koti karls og talsháttinn sem þaðan mun vera dreginn að saman skuli fara karl og kýr. Af slíkum sögum og þvílíkum mætti fylla heila bók og yrði þó að vonum aldrei tæmt og er það sem prentað er í þessu safni ekki nema lítið sýnishorn af því sem til er. Þó eru margar af þessum sögum liðnar undir lok sem ráða má af kvæðum sem á fyrri öldum hafa verið ort út af ævintýrum og sem hafa geymzt, en sagan er töpuð, svo sem Hyndluljóð og fleiri slík.

Af því nú að þjóðsögur og öll hjátrú hefur uppruna sinn í forneskju í hinni heiðnu öld þá áttu þær ýmsu láni að fagna eftir að kristni var leidd í lög. Þegar í heiðni er þess getið að seiður, galdur og forneskja þótti glæpur sem lögin hegndu harðlega og var þá tíðast að lemja seiðkonur grjóti í hel og stundum er getið um galdrabrennur. Þetta var nú á 10. öld; síðar á 11. og 12. er þessa síður getið eður alls ekki eftir sem lögin urðu betri og siðir manna mildari en í heiðni. En eftir að landið var kristið orðið létu prestar sér hugleikið að nema burt allt sem kostur var af hinum forna sið. Þó kvað minna að þessu á Íslandi en á nokkru öðru byggðu landi og það er í frásögur fært að Jón biskup Ögmundsson bannaði að nefna dagana eftir heiðnum goðum og að hafa yfir ósiðleg danskvæði og mansöngva; og eftir langa raun varð svo að menn tóku upp ný daganöfn, en ekki sá þó högg á vatni; menn kenndu börn sín jafnt sem áður við Þór eður heiðnar dísir, og þau nöfn þykja enn í dag með réttu allra nafna fegurst. Skáldin ortu með heiðnum kenningum, jafnt prestar sem leikir menn, alla 12. og 13. öld, því goðasögurnar og fornsögurnar vóru undirrót skáldskaparins og annaðhvort varð því að hætta að yrkja eður halda uppteknum kvæðahætti. Snorri Sturluson ritaði Eddu á 13. öld og kunnu menn þá enn vel og sögulega að segja af ferðum Þórs og öðru sem lesa má í þeirri bók, og öll sagnarit vor frá 12. og 13. öld bera þess ljósan vott að þjóðsögurnar lifðu alla þá stund bezta lífi þó enginn tæki sér þá fyrir að safna þeim sér, og varð því Jón biskup Ögmundsson helgur fyrir lítið.

Fyrst á 14. öld hófst harðari mótspyrna mót þjóðlegum fornfræðum og þjóðsögum, en náði þó fyrst þroska á 15. öld, og olli því ofurvald klerkdómsins sem þá fór í hönd og hnignandi upplýsing hjá almenningi og þessu hélt fram yfir siðabótina. Á þessum tímum mun fátt hafa verið gjört til að halda slíkum fræðum á loft; þó má nefna það eitt að menn sneru þá í ljóð sumum fögrum ævintýrum og álfasögum og hafa kvæðin haldizt, en flestar þær sögur eru glataðar. Þessi kvæði eru Kötludraumur[1] Hyndluljóð, Snjárskvæði, Vambarljóð, Þóruljóð, Bryngerðarkvæði, Gullkársljóð, Kringilnefjukvæði, Ljúflingsljóð. Héðan mun það komið – með því öll þessi kvæði eru með kviðuhætti sem fornyrðalag heitir öðru nafni – að sá bragarháttur er kallaður ljúflingslag af því menn hafa tíðkað að snúa álfasögum í ljóð með því lagi.

Af rúnum eður ristingum er ekki heldur margt til á bókfelli er verið geti frá þessum öldum; þó eru til í safni Árna Magnússonar nr. 687 4to tvö skinnblöð með galdrastöfum og uppdrættir þeirra og þessi rúnanöfn, málrúnir með skýringum og mynd stafanna og því næst galdrastafir og þessi rúnanöfn:[2] grænlenzkar rúnar, mannrúnar, haugrúnar, belgrúnar, fiskrúnar, svínsrúnar, ...[3] gandrúnar, ísrúnar, tjaldrúnar, val...rúnar;[4] stálrúnar, skiprúnar, bjórrúnar, knífrúnar, og enn nokkrar nafnlausar rúnir. Þessi blöð eru frá 15. heldur en 14. öld. Enn eru í safni Árna 434 d 12mo átta smáblöð um galdra með uppdráttum, helzt þess efnis að finna sagnaranda. Að vísu mun nú fleira þess kyns hafa verið til sem liggur til grundvallar fyrir rúnaritum frá 17. öld sem síðar mun verða getið.

Þess má enn geta að eftir Jóni biskupi Halldórssyni hefur á miðri 14. öld verið ritað mikið safn af ævintýrum sem finnst á skinni í safni Árna Magnússonar,[5] en flest þau ævintýri eru af helgum mönnum og öll útlend eftir sem ég hef getað séð. Má nefna söguna um Mors og um Absalon erkibiskup. Kemur því það ævintýrasafn ekki við hinar íslenzku þjóðsögur.

Á þessum öldum (15. og 16.) voru þeir uppi síra Þorkell í Laufási og síra Hálfdan í Felli sem svo miklar sögur gengu síðan af og munu hafa gengið þegar í lifanda lífi þeirra; má af því marka að hjátrúin hefur þá ekki verið veik sem von var til á öld sem svo var fákunnandi í bóklegum efnum. En veraldlegur hagur landsmanna var þá með góðum hætti og ekki svo röm hjátrú sem síðar á 17. öld. Biskupasögur síra Jóns Egilssonar sem ritaðar eru um aldamótin 1600 bera þessa vott. Það er auðsætt að síra Jón hefur trúað alls konar forynjum og fyrirburðum, en hjátrú hans er þó hófsamleg og mild líkt og hjá höfundum á fornsögum vorum, Njálu eður Landnámu, en ber enn ekki ofstæki hinnar komandi aldar.

Í byrjun 17. aldar dundi yfir landið ein hin harðasta ánauð, verzlunaránauðin. Hin þjóðlegu fræði sýna og þegar merkin. Í stað hinna fjölbreyttu indælu þjóðsagna um tröll og álfa sem prýða fornsögur vorar og sagnir vorra tíma varð nú drottnandi hin ramasta hjátrú í sinni verstu mynd. Menn sem kallaðir vóru fræðimenn og eitthvað betra hefði getað lagt á gjörva hönd stunduðu galdraristingar og særingar og hugðust með því mundu ráða lögum og lofum í náttúrunni, en alþýðu stóð ógn af þessum mönnum og klerkar og yfirvöld ofsóttu þá og galdrabrennur fóru nú að tíðkast, mest þó eftir 1630, og urðu alþingi þeirrar aldar til ófrægðar. Þó ber þess að gæta að þessi galdra- og brennuöld kom til Íslands frá útlöndum og varð hún á Íslandi hvorki svo skæð né langvinn sem víða erlendis. En hún var þó fullill, menn sáu sjónir og leiðslur, og skáld þeirrar aldar áttu jafnannríkt með að kveða Englabrynjur og Fjandafælur[6] og alls konar særingaljóð og varnir mót ásóknum djöfulsins sem nú eigu skáld vor að kveða erfiljóð og lof um dauða menn. Mesti fjöldi af slíkum særingaljóðum finnst nú t. d. í safni Árna Magnússonar 152 8vo og 738 4to er dróttkvæður fimmtán vísna flokkur mjög andheitur. Margir klerkar rituðu og á móti galdri, svo sem síra Guðmundur Einarsson á Staðastað „um vélar og brögð djöfulsins“ (1627); hann ritaði og á móti Fjandafælu. Síra Sigurður Torfason ritaði (1655) stutt ágrip „um galdrakonstir og þeirra verkanir“ (AM 697 4to), og enn fleiri. Ef vindur kom úr lofti eður kýr varð sjúk á bási var það kennt særingum og göldrum og leiddi þar af langar rannsóknir. Lærðir menn rituðu og í mót galdri. En hin þjóðlega sagnfræði sem síðar vaknaði á þessari öld ásamt vaxandi menntun sem leiddi smám saman af siðabótinni olli þó því að ofurmegn hjátrúarinnar fór hjaðnandi og fornfræðin tók vísindalegri stefnu.

En af því þessi öld er svo merkileg fyrir þá skuld að þá tókst upp aftur sagnaskrift og bókvísi á Íslandi þá munum vér í fám orðum geta þess sem á þessari öld og síðan hefur verið unnið að þjóðsögum og hvað vér vitum helzt skrásett um þessi efni svo menn síðan geti borið það saman við safn vorrar aldar. En um þetta hefur áður verið fátt ritað. Þá er og að segja helztu æviatriði og telja helztu rit þeirra manna sem koma við þetta mál.

Hér er þá fyrstan að telja Jón Guðmundsson sem ýmist er kallaður „málari“, „tannsmiður“ eða „lærði“ og er hann svo sem öndvegishöldur þessarar aldar í forneskju og hjátrú. Flestir hinir fyrri menn unna honum sannmælis að hann hafi verið fjölfróður, en um siðferði hans og hætti eru deildari sögur. Jón rektor Þorkelsson fer í ritgjörð einni nokkuð ómildum orðum um mannorð hans.[7] Víst ætlum vér að hann hafi verið blendinn í lund, þess bera rit hans vitni, heiftugur í skapi, sérvitur og fullur hjátrúar og pápiskur í trú sem mjög eimdi eftir á þeim tíðum og trúði á Máríu og þótti ófagur hinn nýi siður sem hann oft getur um í ritum sínum og kvæðum. En um lærdóm hans er það sannast að segja að þó hann sé blendinn þá hafa fáir þá verið svo fjölfróðir sem hann og víðlesnir. Hann hefur skilið nokkuð í þýzku og ekki verið alls ókunnur latínumáli, og í náttúrusögu Íslands er hans rit það eina að kalla má sem til er frá þeirri öld og það mun vera fyrir þá sök að Þormóður Torfason kallaði hann Plinius Islandicus.[8] Hann var og manna hagastur á rit og uppdrátt og var fyrir það kallaður málari af alþýðu manna.

Ætt sína telur Jón þannig tvisvar í ritum sínum: Jón Guðmundsson, Hákonarsonar, Þormóðarsonar, en móðir Þormóðar var Guðrún Ólafsdóttir hvalfangara í Æðey sem hann segir að verið hafi uppi um daga Björns Einarssonar Jórsalafara. Jón orti ævidrápu sína er hann kallaði Fjölmóð; fjölmóður er fuglsheiti, og er allra fugla minnstur og lítilsigldastur, og er því kallað fjölmóðarvíl ef menn fjargviðrast út af litlu efni. Jón lærði bar fjölmóð í innsigli sínu. Fjölmóður er ortur með kviðuhætti og byrjar svo:

„Faðir himneskur
með frægum sigri
og þeim signaða
sannleiksanda
mig styðji, styrki,
stoði og hugsvali
og á böli öllu
bætur vinni.“

Fyrstu 20 erindi kvæðisins (1-20) eru forspjall eður formáli, en 21.-246. er kviðan sjálf og endar í miðju kafi í 246. er. í því handriti sem vér þekkjum fyllst.[9] Fjölmóð má vel kalla aldarhátt fyrri hluta 17. aldar og hinnar römmu hjátrúar sem þá drottnaði og ásakar Jón þar fjandmenn sína að þeir hafi ofsótt sig svo með galdri – hann minnist þess varla að þeir hafi ofsótt sig fyrir galdur – að jörðin hafi ætlað að sökkva undir sér og sínu hyski.

Helztu atvik ævi Jóns eftir Fjölmóði og ritum hans öðrum eru þessi: Hann var fæddur 1574 í Ófeigsfirði á Hornströndum. Segir hann nú langt skeið af afturgöngum sem hann hafi átt við, fyrst um Bárð nokkurn sem varð föður hans að bana með fjölkynngi (um 1600). Síðan reisti Jón bú í Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði (1601) og segir hann í einni ritgjörð sinni álfasögu sem gjörzt hafi á þeim bæ. Veturinn 1607 var hann í Bjarneyjum á Breiðafirði; getur hann þess að þar hafi þann vetur sézt sjódýr sem enginn þekkti nema hann. Á jólum 1610 eður 1611 var hann í Ólafseyjum fyrir Skarðsströnd og segist hann í Fjölmóði hafa átt þar við afturgöngu sem hann eignar völdum Geirmundar heljarskinns. Vetri síðar var uppi hinn nafnkunni Snæfjalladraugur (1611-1612); var Þorleifur skáld Þórðarson (Galdra-Leifi) sóttur til að kveða niður drauginn úr því að allt gekk úr hófi með grjótkast og annan ófögnuð og hjálpuðust þeir báðir að þessu verki Þorleifur og Jón. Jón orti þá kvæðið „Fjandafælu“ (1611), „Jesú dauða, dreyra og pín,“ og Snjáfjallavísur hinar síðari: „Far niður fýla“ (1612), og einn sálm „Umbót“ eður „Friðarhuggan“ sama ár þegar björninn var unninn. Þessi kvæði finnast öll í hinu íslenzka handritasafni í Stokkhólmi nr. 17 8vo.

Eftir þessa galdrasennu afstaðna komst Jón í hrakninga sína fyrir það hann hafði slegizt í lið með hinum spánsku víkingum (1613-15). Eftir að Ari í Ögri hafði drepið niður víkinga þessa var Jón hrakinn að vestan og var nú nokkra vetur hjá Steindóri bónda Gíslasyni á Stapa. Segir Jón margt í Fjölmóði frá kynngjum þeim og göldrum sem Ari í Ögri hafi gjört að sér að vestan svo jörðin gekk bylgjum undir honum og var þessi galdur svo magnaður að Jón mátti ekki koma á sjó fyrir draugum og sendingum. Var honum nú stefnt til alþingis, en Guðbrandur biskup sem hann í Krukksspá kallar Goðbrand skaut líknarhendi yfir hann. Enn segist Jón hafa mætt á Stapa galdraundrum af „Ormi illa“ sem hann og kallar „Galdra-Orm“ og líkast er sami maður sem Ormur á Knerri, en hefur þá verið gamall maður;[10] segir Jón að Ormur hafi meðgengið oft í samsæti að hann hafi gefizt satan til að sökkva húsi Jóns með konu og börnum og loksins hafi Ormur ætlað að brenna sig inni þegar kölski ekki vildi duga og hafi þá þrisvar lostið leiftri í þann hluta hússins sem Jón svaf undir. Þaðan flæktist nú Jón suður á Akranes (1627); en nú andaðist Guðbrandur biskup og skaut nú Árni Gíslason á Ytrahólmi sem síðan varð lögmaður skjóli yfir hann. En nú kómu önnur ekki minni ódæmi yfir Jón lærða og ofsóknir af Ólafi Péturssyni sem hann kallar „Náttúlf“, en Ólafur Pétursson var þessi ár í höfuðsmanns stað; segir Jón að Ólafur hafi viljað fyrirfara sér og öllu sínu hyski, og að þetta hafi ekki verið einleikið né fjölkynngislaust má ráða af 229. er. í Fjölmóði:

„Geigsending
og galdraflugur
einatt ráfuðu
að Ytrahólmi,
teikn á tungli
og tveir jarðskjálftar;
var og fleira margt
yfir fógetans garði.“

Jón lærði segir að „Náttúlfur“ hafi viljað flytja biskupsstólinn suður að Bessastöðum og kennir honum og göldrum hans að þeir Oddur biskup og Gísli lögmaður Hákonarson önduðust svo bráðlega hvor á fætur öðrum. Endar Jón loksins raunabálk sinn með því að átti að dæma hann útlægan fyrir galdrameðferð; segir þó að ekkert hafi hjá sér fundizt nema „læknispunktar löngu skrifaðir“. Sumarið 1636 fór Jón utan og var í Kaupmannahöfn veturinn 1637. Ári áður hafði Oli Worm látið prenta „Literatura Runica“, en hafði enn óprentað „Lexicon Runicum“ síra Magnúsar Ólafssonar í Laufási; var því Jón lærði mesta happasending fyrir hann og friðaði hann fyrir honum. Þegar Jón var aftur kominn til Íslands og Brynjólfur varð biskup (1639) linnti loksins þessum hrakningum; skaut biskup skjólshendi yfir Jón og lifði hann nú hin síðustu 10 ár ævi sinnar austur í Múlasýslu í Útmannahrepp. Á þessum 10 árum (1640-50) ritaði hann margar ritgjörðir sem nú skal greina:

Árið 1641 ritaði Jón lærði ritgjörð um Snorra-Eddu sem finnst í hinu íslenzka handritasafni í Stokkhólmi no. 38 fol. Af því ritgjörð þessi er ekki hagnýtt í þessu safni munum vér geta þess hins helzta sem þar segir um álfa og hjátrú, en það er þó næsta fátt. Álfar segir höf. sé þrídeildir: er fyrsta kyn þeirra sem býr í eða undir jörðunni í undirheimum; aðrir búa í sjó og heita marmennlar, en hinir þriðju í klettum og hólum og þeir heita ljúflingar. – Um sjóálfa segir hann sögu eftir sögn síra Jóns í Laufási: að maður nokkur fór til jólatíða og átti leið seint um kveldið fram með sjó; hann heyrði í helli fyrir ofan sig glaum og dansleik og gleði og sá hann þá hvar lágu á ströndinni margir selahamir: hann tók einn sem var minnstur og brá honum milli klæða sér. Þá varð ys og þys milli álfanna og hver tók sinn selsham og fór í sjóinn nema ein stúlka stóð eftir hamslaus og vildi grípa til hams síns, en náði ekki; gat svo maðurinn handsamað hana og fór með hana heim og giftist henni, en ekki varð hún honum unnandi; bjuggu þau þó saman í tólf ár og áttu tvö börn, son og dóttur. En alla þessa stund er það sagt að selur sást synda þar fyrir framan, en það var álfabóndi konunnar. Loksins náði stúlkan aftur ham sínum meðan bóndinn var í burtu, hvarf og sást ekki síðan. – Jón segir og þar um álfa að þá vanti miðsnesið eða „miðbrúna milli nasanna“ sem hann kallar og kemur það heim við það að kvenmaður vestfirzkur sem enn lifir segist hafa séð álfastrák og lýsti honum með litum og einkennum og sagði hann hefði ekki haft „nema eina nösina“, og er þetta sagt þeim til fróðleiks sem kunna síðan að sjá álfa, en vita ekki deili eður einkenni á þeim. – Jón talar þar og um loftanda og segir að vestanlands hafi komið ofan úr lofti strengur með akkeri og orðið fastur undir kirkjustétt; kom þá ofan maður að losa festina og fölnaði þegar menn komu við hann.

Á 70. aldursári 1644 ritaði Jón Tíðfordríf eður Dægradvöl sem sumir kalla. Frumrit Jóns lærða finnst í safni Árna Magnússonar 727 4to[11] og byrjar svo: „Tiðfordríf eður lítið annálskver, sitt af hvoru til sýnis viljann að birta til samans teiknað af mér Jóni Guðmundssyni, ætatis 70; anno Domini 1644. – Virðulegum heiðursherra meistara Brynjólfi Sveinssyni biskupi að Skálholti óskar sá aumi stafkarl Jón Guðmundsson í undirgefni mínum hjálparmanni og herra alls góðs unnandi...“ og er undirskrifað: „Jón karl Guðmundsson í Gagnstaðarhjáleigu í Fljótsdalshéraði endaði 1644, 8. maí.“ Í þessu riti eru margir kaflar, mest þó sögulegt og annálar. Þar er þáttur um kirknarán. „Kortmál“ eða „70 kortmálshættir“ í hendingum og upphaf að:

„Klén kortmál,
kímið bragarbrjál“.

Ennfremur margt um anda, steina o. s. frv., dregið upp finngálkn og enn margt fleira. En flest það er þó tekið eftir útlendum bókum og hjátrú um útlenda steina eða þá úr Hauksbók, en af íslenzkri fræði og hjátrú er fátt eður ekkert nema það lítið eitt sem tilfært er í safni þessu.

Hið þriðja rit sem með fullri vissu má eigna Jóni lærða er Krukksspá, sem mönnum er kunn. Frumrit hennar ætla ég sé í safni Árna 409 4to (þar eru þrjú handrit Krukksspár og öll samhljóða)[12] og líkist það því að vera eiginhandarrit Jóns og byrjar svo: „Anno 1514 spáir Jón krukkur eina jólanótt að eftir herra Gísla kemur biskupinn Oddur hinn hái úr Austfjörðum til biskups í Skálholt.“ Síðan er spáð margt um biskupa og tíðindi um fyrri hluta 17. aldar, t. d.: „Í annan tíma móti burtför Goðbrands kemur svo mikill stormur af ofveðri að musterið skerðir að jörðu, en um burtför Odds hins háa brennur eldur í Skálholti ... verra er þá en áður því engi má minnast Máríu minnar elskulegrar ... Á dögum Odds hins háa verður einn mikils háttar lögmaður, sonarson Árna míns Gíslasonar (þ. e. Gísli lögmaður Hákonarson); hann deyr í vellystingu sinni.“ Eftir Odd háa kemur „Gísli, þann kalla margir gráan, hann ríkir í 9 (á að vera 6) ár.“ Eftir „Gísla hinn ævistutta“ kemur nú „Brandólfur rauði,“ það er Brynjólfur biskup og er miklum lofsorðum farið um hann; en nú skeikar spáin og segir að hann verði ekki gamall: „Íslandi (er) mikill skaði þegar Brandólfur fer til guðs, Jón á þar ekki með, því hann er þá í friði hjá Maríu sinni,“ og: „illa gretta sig Íslendingar þegar Brandólfur fer til guðs.“ – Spáin endar svo: „Anno 1523, á því ári sem Jón hvíldist á hans kerlingardag, hafði hjá honum verið sá maður sem kallaður var Oddur kokk, þá hafði hann sagt að Vestmannaeyjar mundi óbyggðar sakir ræningja og hafnarleysis enda er þá mál að hætta, því þá verður síðasta Hvolsbrenna í allra manna minni sem þá eru og mun sýna þá mörgum hræðileg eftirdæmi. Sæll er Jón þá í þann tíma. Endir.“ Og síðan niðurlag: „Endir á spásagnarþætti Jóns krukks og mun hann víst hafa meiri og fleiri spáfarir í frammi látið þó hér sé eigi skráðar því hér er ei nema 10 ára upptök spádómsins, en þar fyrir getur einskis og eigi spáir hann nema aðeins ótæptir um Hólastiftis herra eður biskupa; á dögum herra Þorláks Skúlasonar: þetta til gamans gjört.“[13] Af þessum síðustu orðum er það auðsætt að spáin er gjörð til leiks og að gamni sínu um 1640 eður skömmu síðar. En síðan hafa menn aukið við hana og kalla menn nú í daglegu tali flestar slíkar spásagnir Krukksspá.

Um þetta leyti mun og Jón lærði hafa ritað ritgjörð sína Um huldupláz og heimuglega dali á Íslandi sem finnst í hinu íslenzka handritasafni í Stokkhólmi, 64 fol. II (bls. 81-100); þetta er hið fyrsta sögusafn líkt því sem vér köllum nú útilegumannasögur, um Ódáðahraun og Þórisdal. Þessar sögur sem eru fjórar að tölu verða síðan prentaðar með útilegumannasögum. Önnur stutt ritgjörð sama efnis finnst á sömu bók sem og mun vera eftir Jón lærða: Lítið ágrip um hulin plátz og yfirskyggða dali á Íslandi; Áradal nefnir Jón þar fremstan og hefur hann ort um þann dal eitt kvæði sem enn er til og Áradalsbragur heitir og þykir oss líkast að hann hafi sjálfur búið til nafnið. Ódáðahraun finnst fyrst nefnt í vísunni: „Biskups hef ég beðið með raun“ frá byrjun 17. aldar og sýnir það að þær sögur eru allgamlar, en mest munu þær þó hafa aukizt eftir að sagnir um Þórisdal og landvættaleiki undir Skjaldbreið urðu kunnar af Grettlu og Bárðar sögu, og munu þessar sögur vera sprottnar af slíkum fornum sögnum.

Í hinu ísl. handritasafni í Stokkhólmi, 64 fol. (bls. 1 ff.), er enn ritgjörð eftir Jón lærða er kallast: Skrif Jóns Guðmundssonar málara um Ísland hið góða ásamt annál um Ísland og Grænland. Þessi ritgjörð er rituð austur í Múlasýslu ár 1644, líklega þó síðar en Tíðfordríf því Jón hefur skotið hér inn greinum þaðan. Í þessari ritgjörð finnst ekki fátt um álfa. Um álfakveðskap segir höf. að skáldskaparvísur hafi títt heyrzt í jörðu kveðnar „og af ljúflingum margoft til skemmtunar við tönn sungið eður kveðið og íbland annars þetta“:

„Út er hún við eyjar blár,
eg er setztr að Dröngum,
blóminn fagur kvenna klár,
kalla eg til hennar löngum.“[14]

Og enn:

„Veldur það vökunum,
vart gekk í ker;[15]
stytti eg með stökunum
stundirnar mér.“

Úr huldumanna lögum segir Jón það eitt atvik að ef ríkisstúlka leggst heima með ótignum auðvirðismanni er það lög álfa að hún skal halda honum, en missa mundinn.

Um álfabækur eður „álfrúnir“ segir hann (bls. 50) að þeir sem svo eru ramskyggnir að þeir sjá gegnum holt og hæðir „kynni að sjá letur á ljúflinga- eður álfheimabókum sem álfrúnir kallast, en öðrum óskyggnum sýnist hvítt óskrifað perment, öllum þó ólesandi við dags- eður sólarljós, utan við skugga, skýlu eður mánaskin. En fróðir menn hafa dæmt þeirra skrift líkasta þeim gömlu írsku bókum með þeirra gullstöfum og fegurstu farfa, smáverki utan og innan fáðir.“ Um trúarbrögð ljúflinga segir hann að slíkar bækur sem Trojumannasögur lesi þeir sem vér biblíuna, en biblíuna lesi þeir sér til skemmtunar líkt og vér lesum Trojumanna- eður Rómverjasögur. Álfar hafa ekki ódauðlega sál sem mennskir menn, því þreyja þeir oft samlíf við menn til að öðlast ódauðlega mannssál. Færir nú Jón mörg dæmi til að ljúflingar hafi lifað hjúskaparlífi við mennska menn, fyrst um Móðar er bjó í Öxlinni fyrir ofan Víðimýri í Skagafirði sunnan til við Vatnsskarð; hann átti þrjú börn við dóttur bóndans frá Ásgeirsvöllum; móðir hennar sótti hann ætíð til að sitja yfir henni og hafa til skírnar. Um hann eru rímur. – Önnur saga er sú að Bergþór bóndason og Bergljót væna álfsdóttir bjuggu í Vatnsdalshólum í Húnavatnsþingi. Þrautir og mótgangur Bergþórs kom af því „að hann hjó báðar hendur álfsins, föður Bergljótar, sem hann rétti á móti honum, bjóðandi honum af beztu alvöru inn til sín, en í ódæma fjúki. Sigurður bóndi átti þá Hól á Fjalli; hann bjó fimmtán ár við ljúflingsdóttur og átti börn við henni og hafði hennar fólk fyrir hjú. Þar þorði enginn að gista nema einn landseti hans, Jón að nafni; hann hafði fyrr misst allt sitt fólk í plágunni. En þegar Sigurður dó hvarf allt það fólk.“ Jón talar og um mennska menn sem gengið hafi í hóla svo sem Ólafur tóni sem áður var getið; segir hann að það sé máltæki að útskeifir menn sé bezt fallnir til þess að ganga í hóla eður kletta; eigi maður þá að hafa kefli með nokkru á ristu fast í knésbótum, en tálknsprota í hendi bryddan með eiri og skella honum á og hafa þar við formála „sem þeir mega vita er það iðka“.

Álfar stunda mjög að koma ofanjarðar til að sjá blessaða sólina og skrýðast þá bezta búningi sínum. Jón segir að það sé í mæli að stórir steinar sem sjást á heiðum eður óbyggðum sé legsteinar tiginna huldumanna svo að sólin geti skinið á þá. Á Íslandi eru tveir álfakonungar og sigla til skiptis sinn hvort sumar til Noregs fyrir yfirkonung sinn sem þar ríkir.

Merkust af því sem Jón hefur skrifað er þó ritgjörð hans Um Íslands aðskiljanlegar náttúrur sem er svo sem frumsmíð til íslenzkrar náttúrusögu. Ritgjörð þessi finnst fyllst og bezt í hinu fyrrgreinda handriti í Stokkhólmi nr. 64 fol. með hendi Jóns Eggertssonar og skrifuð um 1680 líklega eftir eiginhandarriti Jóns lærða; þessar ritgjörðir eru raunar tvennar: fyrst stutt ritgjörðarkorn, bls. 61-77, og heitir: „Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur.“ Þar er fyrst um málma, þang, síðan um Íslandshaf og hvalakyn í Íslandshöfum. Síðan hefst aðalritgjörðin bls. 77 ff. og heitir: „Annað skrif Jóns Guðmundssonar málara um hvalfiskakynin í Grænlands- og Íslandshafi sem menn hafa kynning af;“ fylgir nú uppdráttur með hverjum hval og er ritgjörð þessi einkar fróðleg.[16] Síðan kemur þáttur um fiskakyn og fylgja uppdrættir með, síðan kuðungakyn og skelfiska og fjörukindur. Þar næst um fuglakyn, einnig með uppdráttum;[17] þá um flugur og orma og síðast um vatnsorma. Svo sem áframhald þessarar ritgjörðar er lækningabók Jóns lærða sem finnst í sama handriti: Skrif Jóns Guðmundssonar málara eður tannsmiðs, af nokkrum var og kallaður Jón lærði sakir hans margfróðlegleika, hljóðandi um þau grös og jurtir sem vaxa á Íslandi og þeirra dyggðir og náttúrur. Þessa ritgjörð hefur hann og ritað austur í Múlasýslu og síðast, því hér fylgja engir uppdrættir og kennir hann um elli og handariðu og sér sé ekki hægt að komast yfir grösin á vetrardag. Í þessum áður nefndu ritgjörðum sem eru vísindalegastar af því sem Jón lærði hefur ritað finnst fátt sem berlega heyri til hjátrúar eður alþýðusögur. Eitt er þó sagan af Viðfinnu Völufegri sem hann segir frá þar sem hann talar um vogmerina því Vala drottning komst loks í þau álög að verða að vogmeri, en gullker hennar sem hún hafði sagnaranda í skyldi verða að hinu fagra ígulkeri, en eiturkvikendi (!) það sem þar er innan í og sem Jón kallar „alfríið“ varð úr sagnarandanum. Ritgjörð þessari finnst snúið á dönsku í Thotts safni, 954 fol., og nokkrar athugasemdir Jóns rektors Þorkelssonar (Thorcillii) á latínu yfir hana í Nye kgl. Saml., 1275 fol.

Þessi eru rit Jóns lærða þau sem oss eru kunn, en auk þess hefur hann kveðið mörg kvæði; auk þeirra sem áður eru nefnd hefur hann ort Ármannsrímur árið sem hann var í Kaupmannahöfn (1637). Hann hefur ort „fuglakvæði“ saman við eða með Þorleifi Þórðarsyni og tólf kappavísur (Öld vo Gunnar gilda), Nye kgl. Saml. 1894 4to. Ýms fleiri kvæði um vörn móti fjölkynngi munu og vera eftir hann. Hann hefur og ár 1647 á 73. ári aldurs síns gjört ágrip af Fabronii veraldarsögu (AM 201 8vo, eiginhandarrit).

Um miðja 17. öld varð þó á Íslandi nokkur breyting til betra í sagnafræði og þekkingu á sögu landsins. Þangað til höfðu sögur landsins legið lítt hirtar sín í hvorri skinnbók og sín á hverju landshorni sem landsmenn sumir munu hafa haft beyg af sem galdrabókum sem ekki gæti í eldi brunnið. En á tuttugu eður þrjátigi árum (c. 1640-70) urðu nú svo skjót umskipti með söguskrift að nú dreifðust hinar helztu sögur út um landið í pappírshandritum tugum saman og hin ágæta fornöld landsins rann upp fyrir sjónum manna líkt og landi lyftir upp úr sjó. Rit Arngríms lærða sem vóru rituð á latínu höfðu farið fyrir ofan garð og neðan hjá flestum af alþýðu, en sögurnar sjálfar skildu allir ef þeir gátu fengið að lesa þær; og þó nú fornfræði 17. aldar og þekking á sögu landsins og bókmenntum væri mjög vanefna og ófullkomin þá skipti þó í tvo heima við það sem áður hafði verið og færðist nú nokkuð líf í alla þjóðlega fræði, og með þjóðsögurnar fór eins og mælt er að oft njóta hjú góðra gesta; það sem ritað var var með vísindalegri blæ en rit Jóns lærða. En með því að veraldlegur hagur landsins ávallt fór hnignandi þá mátti taka litlum framförum í andlegum efnum með því meiri þökkum, og það vísindalíf í þjóðlegum fornfræðum sem héðan kviknaði var síðan langa ævi hin eina huggun landsmanna í raunum sínum og andstreymi, að horfa á blóma fyrri alda meðan öllu gekk hnignandi fyrir augum þeirra, og bera veraldarádeilur þessarar aldar, bæði í kveðskap og sundurlausu máli, ljósastan vott um þenna huga.

Hér er þá næst að geta Björns á Skarðsá, en hans rit má kalla hinn fyrsta vísi til þjóðlegrar fornfræði í ýmsum greinum. Björn var fæddur sama ár og Jón lærði og báðir rituðu mest í elli sinni og Björn mest um lög og skýringar þeirra, annála og annað slíkt;[18] kemur fæst af því við þjóðsögur eða hjátrú. Þó verður að geta hér einnar ritgjörðar hans um rúnir sem má kallast frumrit til flestra síðari ritgjörða um það efni. Ritgjörð þessi er samin árið 1642 og er ráðning Brynhildarljóða (Sigurdrífumála) einn hluti hennar, og gaf kvæði þetta höfundinum tilefni til að rita um rúnir, en kvæðið þekkti Björn þá aðeins eftir broti því sem er í Völsunga sögu. Þessi ritgjörð Björns finnst nú í ýmsum handritum stytt eður aukin, en bezt er hún í hinu íslenzka handritasafni í Stokkhólmi, nr. 38 fol., og mun hún þar rituð eftir frumriti Björns. Fyryrsögnin er: „Nokkuð lítið samtak um rúnir, hvaðan þær sé, hverir þær hafi mest tíðkað, hvar af sitt nafn hafi, um margfjölda þeirra, megn og kraft, ásamt ráðningu þeirra dimmu rúnaljóða Brynhildar Buðladóttur, með því fleira hér að hnígur, bráðafangs uppteiknað til umbóta vitra manna á Skarðsá í Skagafirði anno 1642. B. J. S.“ (Björn Jónsson). Hér er talinn upp fjöldi af rúnanöfnum og stafrofum og fylgja myndir með. Þessi ritgjörð Björns barst til Svíþjóðar með Íslendingum á 17. öld; hygg ég að hún hafi þar og orðið grundvöllur fyrir ýmsu sem þar var síðan ritað um rúnir. Í hinu oft nefnda handriti nr. 64 fol. finnst hún og, en fellt úr allt sem viðvíkur ráðningu Brynhildarljóða, en með ýmsum merkilegum viðaukum sem annaðhvort er eftir ritara bókarinnar Jón Eggertsson eða eftir Ólaf gamla.

Ólafur gamli hefur ritað ritgjörð „um rúnakonstina“ og kemur hún rétt á eftir ritgjörð Björns í áður nefndu handriti (64 fol.); hefur þessi ritgjörð Ólafs áður verið lítt kunn, en er þó merkileg því hún er hið elzta safn af galdramannasögum sem til er á íslenzku. Ólafur mun hafa verið norðlenzkur og ráðum vér það af því að sögur hans eru flestar af Norðurlandi, en um ætt hans eður eðli vitum vér að svo stöddu ekkert né nær hann hafi lifað, nema hvað ráða má af ritgjörðinni sjálfri að hann hafi lifað um miðja 17. öld og verið nokkru yngri en Björn á Skarðsá. Jón Eggertsson hefur flutt ritgjörðina með sér til Svíþjóðar og hún svo ekki dreifzt út á Íslandi. Fyrirsögnin er svo hljóðandi: „Skrif Ólafs hins gamla er svo var nefndur“ og byrjar svo: „Margbevísað verður af fróðra manna bókum“ o. s. frv. Segir þar fyrst um Þorleif jarlaskáld, Egil Skallagrímsson, Brynhildi Buðladóttur. Því næst víkur höfundurinn til galdramanna frá seinni öldum á Íslandi og segir sögur af þeim:

1. Um Ólaf tóna,[19] en þó örstutt, um Tónavör sem kölski hafi rutt á einni nóttu úr blágrýtisurð. Hann nefnir og jarðgöngur hans og hóla og deilur við Straumfjarðar-Höllu. Er af öllu auðsætt að vestfirzkar sögur hafa verið Ólafi lítt kunnar.

2. Um Saurbæjar-Odd eru nokkrar línur, en hann vakti upp uxa sem drepizt hafði meðan Oddur var á þingi. Um þenna Odd vitum vér annars ekkert.

Fjölskrúðugri verða sögurnar þegar kemur á Norðurland. Þar er þá fyrst:

3. Síra Hálfdan í Felli. Af honum segir Ólafur greinilega fjórar sögur. Sú fyrsta að hann gekk í Tindastól í hellismunna í Laxárdal og kom út á Reykjaströnd. Önnur saga er um það að hann bar á gráum hesti, sem þó raunar var nennir, blautt torf í kirkjugarð á Felli. En að lokum sló hann hestinn. Laust þá hesturinn skarð í kirkjugarðinn með afturfótunum og hefur aldrei síðan tollað í því skarði. Lík saga er sögð hér bls. 502, en þar ætlum vér að þó sé blandað sögum. – Þriðja sagan er sú að eitt sinn er hann bjó á Þönglabakka og matskortur var og hallæri seiddi hann fisk úr læstum hjalli bónda eins í Grímsey heim að bæjardyrum (sbr. bls. 502-3). – Hin fjórða sagan er allra merkust og er efni hennar það að eitt sinn er margir gestir vóru hjá síra Hálfdani, en vantaði bæði mat og mungát, renndi hann dorgarfæri niður um rifu í pallinum og dró þar upp hæng og bleikju; nú var þá fenginn nógur matur, en mungátið vantaði; þá boraði hann í staf hússins og rann þar þegar út bezta mungát svo allir urðu fulldrukknir. Síðar í ritgjörð sinni segir Ólafur enn aðra sögu sama efnis um biskup nokkurn í Skálholti, að hann var á ferð, en legaðist við eina á og sló upp tjöldum og vantaði mungát. En sveinn biskups sem þar var rak atgeirsstaf í jörðina, lét stafinn standa þar um hríð, boraði síðan með nafri í stafinn og rann þá út um boruna mungát svo biskup og hans menn urðu ölvaðir. En litlu síðar er biskup var heim kominn í Skálholt sendi hann bryta sinn í kjallara að tappa sér gamlan lybskan bjór er hann átti þar á tunnu. En þegar brytinn kom til var tunnan galtóm. En þessi tunna var sú sem sveinninn biskups hafði seitt mungát úr við ána forðum. Þessar sögur líkjast mjög því sem Göthe kveður um Mephisto í Faust; þó mun þjóðsagan vera nákvæmari er hún lætur bora í stoð eður staf, en ekki borð. Ólafur endar nú að segja frá síra Hálfdani, en segir þó að „margt annað er konstsamt af honum að greina, en sökum margyrða ei hér innfærist.“

4. Hinn fjórði galdramaður er síra Jón á Svalbarði, en hann þjónaði og kirkjunni á Glæsibæ og reið hann grám hesti sem var nennir yfir um fjörðinn og reiddi fátækari dreng fyrir aftan sig. Þar af er talshátturinn: Nú skriflaði á skötunni (sbr. bls. 502, en er þar eignað síra Hálfdani).

5. Þar næst er síra Þorkell í Laufási og er sögð löng saga um Viðskipti hans við Hólabiskup. Ætlaði biskup að sækja hann heim með ofríki og taka hann fastan, en prestur gjörði honum ginningar og sjónhverfingar.[20]

6. Þá kemur um síra Jón í Laufási, en hann kvað ref heim í greipar sér, en gaf honum síðan líf, og „enn fleiri frásagnir eru af honum sem hér eru eigi innfærðar,“ segir Ólafur gamli.

7. Að síðustu eru þrjár smásögur um einn prest, „hvern ég eigi nefni,“ segir Ólafur. Hann fann með galdri tvo þjófa sem stolið höfðu sauðum hans. Þriðja sagan er sú að menn urðu fastir á hestbaki sem stolið höfðu hestum hans líkt og segir um síra Eirík í Vogsósum. „Það kölluðu þeir gömlu harðfjötur,“ segir Ólafur.

Síðan segir Ólafur frá ýmsum atburðum að finna þjóf: að reka flein í hússtoð þess er frá var stolið, kemur þá verkur í auga þjófsins eður það springur út; önnur aðferð er sú að rista rúnir á kersbotn, hella vatni í kerið og láta þar í gras nokkuð, þá kom fram í vatnið mynd þess og yfirsýnd er stolið hafði. Enn er að rista draumrúnir svo mann dreymi þjófinn. Síðan talar Ólafur um jarðgöngur og að fara í hóla til álfa; segist hafa lesið margt um það, en geti þó ekki fullkomlega um það dæmt, segist hann því sleppa því efni. Þá talar hann um menn sem hafi kunnað að ganga á sjónum sem á þurru landi. „Það kölluðu þeir gömlu að troða marvaða.“ segir Ólafur; „heyrzt hefur þeir skyldu brúka þar til tálkn og á rista og undir sínum fótum hafa, þar með eina lengju um sig binda af húð hvalfisks nokkurs. Þeir mega vita þar af gjörst er reyna“, segir höfundurinn. Þá er enn að láta þjóf villast. Enn segir Ólafur frá gandreið, um bláklæddan mann sem reið yfir Íslandshaf og sagði tíðindi úr Svíþjóð og Danmörku og styrjöld utanlands (þrjátigi ára stríðið?) Þá er sagan um biskupinn sem áður er getið og því næst um róðrarmann á Vestfjörðum sem dró upp á öngli sínum blóðmörskepp af bæ sem hann sá að rauk á í landi. Lýkur Ólafur hér ritgjörð sinni og segist þetta hafa uppteiknað til gamans svo þar af sannist um kraft rúnanna; „en hvað sá góði lesari vill þar um dæma gef ég honum sjálfum að umþenkja“.[21]

Hinn næsti maður Ólafi gamla er safnað hefur íslenzkum þjóðsögum og ævintýrum var Árni Magnússon. Árni hafði að vísu slíkar sögur í mestu óvirðingu og leggur ekki dulur á að þær sé ómerkar bábiljur, eins og samboðið var gáfnafari hans, því hann var lærður maður en tortryggur og fyrirleit allar sögur sem ekki vóru sannar hvað skáldlegar sem vóru. Íslendingabók Ara var honum kærari en allt annað sem á íslenzku var ritað, en um Njálu talar hann á einum stað mjög óvægilega. En þó honum nú þætti munnmæli og skröksögur ómerk þá gat hann þó samt ekki að sér gjört að safna nokkru einnig í þessa átt. Hann safnaði fyrstur manna sögum um Sæmund fróða sem prentaðar eru í safni þessu. Hann safnaði og nokkrum ævintýrum eða lét safna, t. d. Mærþallar sögu, Brjáms sögu, Himinbjargar sögu o. s. frv. Hafa allar þessar sögur komið safni þessu í beztu þarfir. Þó hefur Árni kunnað og heyrt getið miklu fleiri sagna en hann hefur skrifa látið. Í bréfi sínu til Þormóðar ár 1690[22] getur Árni sögunnar um Gullbrá sem búið hafi í Hvammi áður en Auður djúpauðga nam þar land. Árni Magnússon kom sem kunnigt er næturgamall í Hvamm og ólst þar upp hjá síra Katli Jörundarsyni móðurföður sínum; hefur hann þar heyrt þessa sögu. En nú hefur síra Jón Þorleifsson sem og var borinn og barnfæddur í Hvammi sagt söguna eins og hún er hér rituð.[23] Árni nefnir og í sama bréfi söguna um Jóru í Jórukleif og segir að allir menn á Íslandi hafi þessar sögur fyrir sannar, þó sannað verði að þær sé skrök ein og bábiljur.

Í kreddum eður kerlingabókum sem kallaðar eru öðru nafni var fáu safnað á 17. öld. Ég þekki aðeins eina litla „kerlingabók“ sem svo er kölluð þar, í safni Árna nr. 437 12mo, en flest sem þar í stendur af kreddum er þó útlent.

Á þetta stig var nú þetta mál komið í byrjun 18. aldar. En skömmu eftir lát Árna Magnússonar breyttist nú aldarhátturinn. Í fyrri tíð var hjátrúaröld, en nú rann upp hin svo nefnda „píetista“- eður oftrúaröld. Átti nú hver maður að vera heilagur að konungsboði, og trúarhræsni og guðhræðslu yfirskin var nú alstaðar á yfirborði, og nú varð það sem aldrei hafði fyrr verið að mönnum var bannað á Íslandi að lesa sögur. Kristján konungur sjötti gaf út að undirlagi Harboes biskups tilskipanir um þetta. Tilskipan um húsvitjan 27. maí 1746, § 18, og húsagatilskipanin 3. júní 1746, § 7,[24] hótuðu mönnum gapastokk ef menn læsi sögur og eins er fyrir mælt um dans og vikivaka sem þá hafa enn tíðkazt þó það sé nú útkulnað. Það var ekki að vonum að menn yrði til að safna þjóðsögum eða rita um slíkt á þessari öld.

En einn mann verður þó að nefna, hinn fjölfróðasta Íslending sem þá var uppi, en það var Jón Ólafsson frá Grunnavík (fæddur 1705, andaðist 1779). Hann var fyrst fyrir innan tvítugt hjá Páli lögmanni Vídalín og síðan hjá Árna Magnússyni þangað til hann dó og var því lærisveinn tveggja hinna mestu fræðimanna, en var sjálfur manna námgjarnastur. Jón Ólafsson hefur ritað meir að vöxtum en nokkur Íslendingur annar á þeirri öld, en fátt sem ekkert af því er prentað og finnst það flest með hans eigin hendi í viðbæti við safn Árna Magnússonar (Additamenta). Jón var hjátrúargjarn, en þar með þjóðlegur í lund og fróður, en hefur ritað um flest í fornfræði sem nöfnum tjáir að nefna. Merkast af öllu sem hann hefur skrifað mun þó vera rit hans um rúnir: „Runologia eður Rúnareiðsla,“ sem er hin fjölhæfasta og bezta ritgjörð sem um það efni er rituð á íslenzku. Eiginhandarrit Jóns finnst í Additam. nr. 8 fol. og er fyrirsögnin þannig: „Johannis Olavii Runologia, það er: Jóns Ólafssonar Rúnareiðsla eður hans yfirvegunarþankar um rúnir, öllum þeim í ljósi látnir er stunda eftir fornum fræðum; samanskrifuð fyrst í þremur þáttum í Kaupmannahöfn Anno Domini 1732, en nú aftur að nýju af sjálfum honum hreint upp skrifuð og með tillagi af nokkrum stykkjum sem eru að tölu þrjú og þessu sama efni tilheyra, aukin sama staðar A. D. 1752.“ Rit þetta er í afskrift Jóns 186 blss. í fol. og aftan við ýmsar viðbætur á latínu, þýzku og dönsku (bls. 186-248). Bókin er öll í fjórum þáttum, vel samin og einkar fróðleg; fylgja rúnunum ávallt uppdrættir. Um rúnanöfnin er of langt að greina. Það eitt set ég til dæmis að hann nefnir Baldursinnsigli og hjálparhringa Ólafs konungs.[25] Erlendur sýslumaður Ólafsson, bróðir höf., sneri frumritgjörðinni (frá 1732) á latínu, sú þýðing finnst með hendi Jóns í „Gamle kongelige Saml.“, 744 fol.[26] Ritgjörð þessi hefur í sumu verið fyrirmynd Finns Magnússonar í riti hans um Rúnamó. Margt annað í alþýðlegum fræðum mætti án efa finna innan um rit og bréf Jóns. Ég mun enn nefna safn Jóns af íslenzkum leikum sem finnst undir orðinu leikur í orðabókarsafni íslenzku sem til er eftir hann í Additam. nr. 35-44 fol. og með hans eigin hendi. Jón hefur og ritað ævisögur þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Ævisaga Páls og margra fleiri af Vídalínsætt finnst með hendi Jóns í Additam. 47 fol. Ævisaga, Páls er þó hin merkasta af þeim öllum og lýsir hún ágætavel hugsunarhætti manna á Íslandi í þá daga. Páll Vídalín var kallaður fjölkunnugur þegar í lifanda lífi og Jón hefur „fastlega trúað því“ að svo hafi verið og hefur kunnað margar sögur um það síðan hann var hjá Páli, en hann segir því miður fáar af þeim svo menn skuli ekki gabba sig fyrir auðtryggni eða til að seðja með forvitni manna. Hann segir um Pál að „hann kvað óvini sína hafa því verstu á sig logið að halda sig töframann“, „máske af því,“ segir Jón „að draugasendingar þeirra unnu ei á honum og hann hafði vit á þeirra aðferð“. Jón segir að ei sé þörf í stað „að fræða forvitni manna er verða má né framtelja margar sögur um skyggnleika hans, vofur er honum vóru sendar og stundum mein er þær gjörðu afturhorfnar“. Ein vísa eftir Pál er þessi:

„Oft hef ég slíkan óvin minn
og illúðlegri séðan,
ég forakta þig fjandinn þinn,
farðú í burtu héðan.“

„Var slíkt svo berlegt,“ segir Jón, „að þeir sem skyggnir vóru þekktu soddan sendingar með nafni og vóru nokkrar þeirra, þær eigi kómust nær bænum en víst takmark; var sá þar í dalnum að utan sendur er aldrei komst lengra en í Síðutagl svo hann sá aðeins fram að Víðidalstungu. Þá lögmaður Páll heyrði það varð honum að orðum að sá djöfull mundi hafa brjósterfiði og fótaveiki.“ „Síra Þorvarður Ólafsson skírði Pál og vildi fyrirbyggja það hann ramskyggn yrði, og stoðaði lítt,“ segir Jón, „þótt hann bæri skírnarvatnið í augu honum. Ég man þar um nokkra hluti, sem hvað hann sagði um það[27] þá honum var sendur fyrsti draugur er var Skotta þá er hann var skólameistari í Skálholti, og um hana Geirlaugu etc.“ Jón Ólafsson hættir hér í miðju kafi og þorir ekki að fara lengra. Um forspá Páls getur hann þess að Páll hafi vitað fyrir um andlát sitt er hann reið síðasta sinni til alþingis og um skyggnleika hans færir hann dæmi til er Páll gisti á Höskuldsstöðum og svaf í kirkjunni; en um miðsmorgunsskeið „sá hann ofan í gólfið og eins út í kirkjugarðinn svo sem í gegnum glæjan ís hvert mannsbein nokkrar álnir niður.“ – Má af öllu þessu ráða að Jón Ólafsson hafi verið nokkuð hjáróma við sína öld, fyrst meðan oftrúaröldin var og síðan þegar vantrúar- og skynsemisöldin rann upp sem kunnigt er að gjörði gys að mörgu sem helgara var en álfa- eður tröllasögur.

Um seinni hluta aldarinnar sinntu menn og mjög lítt slíkum fræðum. Þó má nefna til einn mann er hét Eiríkur Laxdal Eiríksson og var djákn á Reynistað, átti þar barn og fór síðan utan og var innskrifaður við háskólann 19. des. 1769 og var þá 26 ára; var hann þar nokkur ár og fór síðan út hingað, en var þreyjulítill, fór jafnan milli manna og hafði ofan af fyrir sér með því að segja sögur og grófst um leið eftir sögnum þar sem sögufróðir menn vóru. Allar þær sögur, bæði sem hann kunni sjálfur og þær sem honum vóru sagðar, skrifaði hann upp hjá sér í mikið safn. En af því maðurinn var kallaður skáld og gáfaður, en jafnframt sérvitur, þá setti hann allar þessar sögur saman eins og honum bauð við að horfa í eina sögu og orti vísur inn í, og er því ekki hægt að vita hvað verið hafi samsetningur hans og hvað sé alþýðusögur. Þetta sögusafn sitt greindi hann að sögn í tvær aðaldeildir, vóru í annari álfasögur; hana kallaði hann Ólafs sögu Þórhallasonar, en í hinni vóru ævintýri; hana nefndi hann Ólandssögu. Sumir segja að deildirnar hafi verið þrjár og hafi hann kallað allar einu nafni Ólandssögu og hélt þessu safni fram til dauðadags, 1816. Ólandssaga þessi kvað vera til enn á Íslandi, en ekki höfum vér þó séð hana. Ein af vísum þeim sem kveðnar vóru eftir Eirík látinn var þessi:

„Víða flæktist, var snauður,
vandist fréttablöðum;
nú er Laxdal nýdauður
norður á Stokkahlöðum.”[28]

Í lok 18. aldar vóru uppi sem kunnigt er margir ágætir vísindamenn íslenzkir sem stunduðu fornfræði, unnu að útgáfum og bjuggu þannig í haginn fyrir hinni komandi öld, og hefur ávallt síðan og þó einkum á þessari öld sem nú stendur yfir allt breytzt stórum til batnaðar um þjóðsögur vorar og annan fróðleik jafnframt því að menntun og upplýsing hefur aukizt nú svo langt fram yfir það sem var á 18. öld, og er það sögum þessum til sóma að þær hafa einskis í misst fyrir það, en hugur á þeim örvazt að sama hófi sem menn hafa farið að sinna öðrum þjóðlegum málum. – Nú voru og stofnuð vísindafélög til verndar málinu og til að halda uppi fornfræði og bókvísi Íslendinga. Árið 1816 var stofnað Hið íslenzka bókmenntafélag og 1825 Hið norræna fornfræðafélag. Félög þessi hafa hvort um sig unnið landinu hið mesta gagn, bæði utanlands og innan; nú vóru sögurnar prentaðar í handhægari útgáfum en fyrr og kómu nú að kalla í hvers manns hendur.

Hjá Íslendingum, einkum hinum lærðu mönnum, vaknaði nú miklu meiri ást á fornsögum landsins en verið hafði og kynni til fornaldarinnar urðu nú hálfu meiri með öllum almenningi en áður, en sögurnar vöktu aftur meiri rækt á hvers kyns alþýðlegum fróðleik og öllu því sem landinu gæti orðið til sóma og nytsemdar. Menn fóru nú að leita betur í vitum sínum og safna öllu sem til var ritað og halda því saman sem áður var vanhirt, og þekking á sögu landsins og máli fór nú vaxandi og þó menn ekki þá þegar færi að safna sögum um álfa og tröll eður ævintýrum, því annað brýnna lá þá fyrir hendi sem varð að sitja í fyrirrúmi sem vóru bóksögurnar meðan þær enn vóru óprentaðar, þá laut þó allt að því að hefja allt hið þjóðlega, og með því hvað eitt hefur sína tíð í þessum heimi þá rann og loksins upp dagur fyrir þjóðsögur vorar.

Þó mundi þær að öllum líkum enn um stund hafa lifað aðeins á vörum manna, en ekki orðið skrásettar, ef hagur slíkra sagna hefði ekki hafizt svo mjög erlendis í augum lærðra manna og síðan alls almennings. Það er kunnugt að hver þjóð í heiminum sem nokkuð er að manni hefur þjóðsögur og ævintýri og ýmsa hjátrú og ekki hvað sízt hinar menntaðustu þjóðir. Á fyrri öldum sinntu lærðir menn þessum fræðum lítið eður alls ekki, en í byrjun þessarar aldar sem í vísindalegri rannsókn í sögu og málfræði ber svo langt af hinum fyrri öldum þá duldist mönnum ekki hvílíkur fésjóður að lægi fólginn í slíkum sögnum og hve vel þær lýsti hugsun og hag hverrar þjóðar og gáfnalagi og að í þeim dyljast menjar af trú og siðum lengst framan úr forneskju sem ávallt loðir við þó sögurnar yngist upp. Fegurð sagnanna og einfeldi hlaut og að vekja athygli fræðimanna á þessari alþýðlegu og hagvirku sagnagrein. Á Þýzkalandi sem svo mjög hefur gengið í fararbroddi annara þjóða á þessari öld í lærdómi og hvers konar fróðleik hófst nú fyrst sú mennt að safna og rita upp slíkar sögur. Þeir bræður Jakob Grimm og Vilhjálmur Grimm söfnuðu í byrjun þessarar aldar (1812-15) þýzkum þjóðsögum í eina bók sem þeir kölluðu Kinder- und Hausmärchen. Það sem menn í fyrri tíð höfðu safnað af slíku var oftast stirt og óliðlega gjört, en þessi bók er með réttu þjóðkunn fyrir það hvað sögurnar eru vel sagðar eins og sá segir frá sem bezt segir, og er hún því fyrirmynd fyrir aðra sem safna í hverju landi sem er.

Þessi bók hefur því erlendis vakið nýjan hug í þessari fræðigrein og er seint að telja upp allar þær alþýðusögur sem hefur verið safnað í ýmsum hálfum Þýzkalands og í flestum öðrum siðuðum löndum svo varla er nú það land sem ekki hafi sér þjóðsögusafn. Í Noregi hafa þeir Asbjörnsen og Moe fyrir 16 árum (1845) – sama árið og fyrst var farið að safna í þessa bók – ritað bók sem heitir Norske Folkeæventyr sem er ágætt safn og hefur þeirri bók síðan verið snúið á ensku og þýzku. Í Danmörku hefur Thiele safnað í bók sem heitir Danske Folkesagn (1818-23) og í Svíþjóð hafa menn og slík söfn, en hið norska ber þó af öllum á Norðurlöndum. Í Holsetulandi og Slesvík hefur Karl Müllenhoff safnað Sagen, Märchen und Lieder (1845), og er ágæt bók. En á Íslandi hefur orðið lengri aðdragandi að þessu; veldur því þó ekki það að vort land sé óauðigra í slíkum fræðum því fá lönd munu þar svo fjölskrúðug sem Ísland heldur fjarlægð landsins, tómlæti landsmanna sem að vísu hafa ávallt elskað þessar sögur í kyrrþey, en haldið þeim sem leyndardómi og ekki haldið að þær væri nógu merkar til þess að þeim væri á loft haldið öðruvís en að segja þær börnum til skemmtunar og hafa svo látið þær hirða sig sjálfar mann frá manni, og hefur það ekki enn orðið sögunum að fjörlesti þar sem menn segja svo vel sögur sem á Íslandi og þar sem hugur manna er miklu næmari fyrir öllu sem sagnafróðleikur heitir eður fornfræði en í flestum öðrum löndum. Frá útlöndum hafa ýmsar tilraunir verið gjörðar til að vekja Íslendinga til að safna kerlingabókum og kreddum, en landsmenn hafa í þessu verið tómlátir og ekki hlaupið tær af fótum sér þangað til þeim þótti sjálfum tími til kominn. Það er vert að geta þessara tilrauna stig af stigi af því þær vóru loflegar og gjörðar af góðum huga og þá er og öll saga þessa máls á Íslandi og framgangur ljósari.

Skömmu eftir að fornfræðanefndin var stofnuð í Kaupmannahöfn sendi hún áskoran til Íslendinga dags. 5. apr. 1817, um fornleifaskýrslur. Þar segir í § 10 að hún biður menn „um sögusagnir meðal almúgans um fornmenn (aðrar en þær sem til eru í rituðum sögum), merkileg pláss, fornan átrúnað eður hjátrú á ýmsum hlutum, sérlega viðburði o. s. frv., einkum nær þær viðvíkja slíkum fornaldarleifum“ (sjá Ísl. lagasafn, VII, 659-61). Rentukammerið og kanzellíið ritaði biskupi og amtmönnum líks efnis 19. apríl (sjá Ísl. lagas. VII, 667-71). Er auðsætt að nefndinni hefur verið enn nokkuð óljóst um flokka sagnanna og er málið nú sem í bernsku sinni. Landsmenn sinntu þessu ekki og liðu nú meir en 20 ár að ekki var gjör reki að þessu framar. En á þeim tíma hafði Hið íslenzka bókmenntafélag náð góðum þroska og kom því nú í hug að láta rita Íslandslýsing og sendi boð til allra presta á [Ís]landi um lýsing yfir hverja sókn (30. apríl 1839). Eru þar framsettar 70 spurningar fyrir presta, en hin 69. aðeins kemur við þetta efni: „Eru nokkrar fornsögur manna á milli og hverjar, eður fáheyrð fornkvæði og hver?“ Í § 58 er spurt hvað menn hafi til skemmtunar. – Þau rúm 20 ár sem síðan hafa liðið hafa sóknalýsingar og sýslulýsingar smám saman borizt félaginu og eru nokkrar fáar sögur, en ágætar, teknar inn í safn þetta úr þessum skýrslum, t. d. sagan um Þuríði sundafylli úr sóknalýsingu síra Bergs Halldórssonar yfir Eyrarsókn í Skutilsfirði, sagan um Árumkára í Selárdal eftir síra Ólaf í Flatey, og nokkrar sögur úr Skarðsþingum frá síra Friðrik Eggerz.

Nú fer fram tveimur sögunum. Árið 1845 má heita afmæli þessarar bókar. Þá tóku höfundar hennar, tveir íslenzkir fræðimenn Magnús Grímsson og Jón Árnason, sig saman að safna báðir í sameiningu íslenzkum þjóðsögum og kvæðum, þulum og kreddum o. s. frv. Magnús Grímsson sem síðan varð prestur var þá í skóla á Bessastöðum, en Jón Árnason hjá dr. Sveinbirni Egilssyni. Þeir skiptu svo verkum með sér að síra Magnús skyldi mestmegnis safna sögum, en Jón kreddum, þulum og gátum, en þó safnaði hvor með öðrum og benti öðrum þangað sem liðs var að leita. Í skólann kómu piltar úr öllum fjórðungum landsins, safnaði síra Magnús Grímsson eftir þeim og svo á sumrum eftir sögn Borgfirðinga því hann var þaðan ættaður. Allar þær sögur eða velflestar í safni þessu sem hafa fyrirsögn „eftir sögn skólapilta“ o. s. frv. eður „eftir sögn Borgfirðinga“ eður þvíumlíkt eru því frá síra Magnúsi. Jón Árnason safnaði kvæðum og þulum á sama hátt og síðan hefur Jón Árnason haldið fram safni sínu fram á þenna dag. Þeirra bræðra Grimms „Kinder- und Hausmärchen“ sem þeir síra Magnús og Jón Árnason höfðu lesið í skóla vakti þá til að byrja þetta safn að sjálfs þeirra sögn; var því jafnt vili beggja að safn þetta þegar það yrði að nokkru fullgjört bæri nafn þeirra bræðra og félli þannig í sitt föðurskaut. En áður en safnið yrði búið andaðist Vilhjálmur Grimm (16. desember 1859), og annar höfundur safns þessa, síra Magnús Grímsson, andaðist á Íslandi 18. janúar 1860 þegar rétt var að því komið að hann sæi árangur af athöfn sinni, og var lát hans að vonum tregað af öllum og varð það um stund safni þessu til mikils hnekkis að missa svo annarar handar þegar mest lá við.

Á sömu missirum sem þeir Jón Árnason hófu að safna á Íslandi bar enskur fræðimaður próf. George Stephens sem þá var í Stokkhólmi fram á félagsfundi Hins norræna fornfræðafélags í Kaupmannahöfn (17. júlí 1845) að rita ávarp til Íslendinga um alþýðleg fornfræði. Frumvarp próf. Stephens sem er merkilegt í marga staði má lesa á dönsku í Antiqu. Tidsskr. 1843-45, bls. 191-92. Ári síðar (28. apríl 1846) sendi Fornfræðafélagið boðsbréf til Íslendinga um fornritaskýrslur og fornsögur, og setjum vér hér þann kafla sem að þjóðsögum lýtur til fróðleiks hvernig þetta mál var nú orðið miklu ljósara en verið hafði 1817. – „Alþýðleg fornfræði“ (sögur um) „fjölkunnuga menn: Sæmund fróða, síra Eirík í Vogsósum o. fl., álfasögur, draugasögur, útilegumannasögur, hinar svonefndu kerlingasögur, ævintýri og sérhvað þess konar, t. a. m. um tröll, goð, jötna, grýlu, jólasveina, dísir, álfa eða huldufólk, nykra, sænaut, landvætti eða landdrauga, sjódrauga, illfiska, sjóskrímsli, vatnaskrímsli, útisetur (á krossgötum); um fé í jörðu, vafurloga, búrdrífu, óskastund og þvíumlíkt. Því næst gömul kvæði og ljóð sem höfð eru til skemmtunar ungum og gömlum, en ekki eru prentuð og ekki skrifuð upp svo menn viti; svo eru ýmsar rímur, fornkvæði, vikivakar, dansleikakvæði, söguljóð, vísur og kvæði um fugla og dýr eða annað (grýlukvæði, tófukvæði, krummakvæði o. s. frv.). Ennfremur þulur og barnavísur sem tíðkanlegar eru. – Ef menn vita aldur eða höfunda kvæðanna eða nokkrar sögur um það þá yrði það að fylgja. Þá eru leikar og öll aðferð og þulur eða formálar sem þar eru hafðir við bæði meðal barna og fullorðinna. Þá alls konar forn átrúnaður úr heiðni eður úr pápiskri öld þó nú sé kallað hjátrú, t. a. m. spásagnir, fyrirburðir, sjónir, afturgöngur, draugar, svipir, vofur, fylgjur, sendingar, útburðir, uppvakningar, tilberar eða snakkar, heillanir, gandreiðir, flæðarmús, gjaldbuxur, glímugaldur, brýnugaldur, fornar særingaþulur eða bænir, stafir, rúnir og ristingar sem hafðar hafa verið til forneskju og þess konar; um allt hvað trú hefur verið höfð á til lækninga, um veðurmerki, um dagsmörk og hversu þau svari til klukkustunda; nöfn á ýmsu á lofti, jörðu eða sjó sem dregur nafn af fornum átrúnaði eða er sprottið upp á Íslandi fyrr eða síðar og á einhvern hátt er merkilegt og fáheyrt (stjarnanöfn – úlfur og gíll, – Lokasjóður, Baldursbrá, Freyjuhár, Friggjargras, álfabruni, tröllríða, Pétursbudda, óskabjörn, o. m. fl.) svo og sögur um þetta eða þulur ef til eru; gátur, bæði í hendingum og í óbundinni ræðu o. s. frv.“

Íslendingar gáfu þó þessu litla áheyrn; þeir sendu að vísu eitt og annað fornfræði viðvíkjandi, en fátt sem ekkert af fornsögum, og er ekkert svo vér vitim tekið í þetta safn úr handritum Fornfræðafélagsins. En boðsbréf félagsins vakti þó huga margra, en viðkvæði sumra var þó að ljúfara væri að þiggja en gefa og handrit og fornfræði gengi úr landinu út í óvissu, en fátt kæmi í mót. Álfasögur, tröllasögur og draugasögur væri nógar að vísu, en það væri allt markleysa sem menn hefði sér til skemmtunar, en sem ekki tæki að skrifa upp og senda burt til útlanda. Fyrst ætti að ginna úr mönnum hjátrú og bábiljur og gjöra svo háð að öllu á eftir eða brenna það eins og Árni Magnússon hefði gjört á sinni tíð eftir að hann hefði ruplað sögum og handritum út úr landinu og flutt til Danmerkur. Meðan á þessu stóð þokaði safni þeirra Jóns Árnasonar og síra Magnúsar nokkuð fram og árið 1852 gáfu þeir út lítið kver sem þeir kölluðu Íslenzk æfintýri og kostaði Einar prentari Þórðarson bókina. Þetta sýnishorn var hið fyrsta safn af íslenzkum þjóðsögum sem prentað hefur verið og tóku margir því vel, en þó gekk treglega að safna sögum hin næstu sex ár þangað til dr. Konráð Maurer kom til Íslands 1858; og hefði þetta mál að líkum dottið þar niður ef ekki hefði hans að notið.

Menn höfðu fyrr leitað Íslendinga með boðsbréfum og áskorunum og lítið á unnizt sem ekki var von eftir skaplyndi landsmanna og annað það að landsmenn höfðu um margt annað að hugsa sem þeim hlaut að liggja í meira rúmi en álfasögur og tröllasögur. En þegar Konráð Maurer kom til Íslands og ferðaðist um land og átti tal við menn þá sýndu landsmenn það að „segjanda er allt vin sínum“ og vóru nú jafn-opinskáir sem þeir áður höfðu verið dulir og legið sem ormur á gulli á þessum sínum fræðum. Vinsældum Konráðs Maurers á Íslandi er það að þakka að safn þetta hefur orðið leitt til lykta. Á ferðum sínum á Íslandi safnaði hann sjálfur miklum fjölda af alls konar þjóðsögum og vakti huga manna á þessum fróðleik; hann átti og vinakynni við ýmsa fræðimenn sem síðan hafa orðið mestu styrktarmenn safns þessa og hinir beztu sögumenn, og nægir þar að nefna síra Skúla Gíslason á Breiðabólstað. Áður en Konráð Maurer fór af Íslandi um haustið 1858 hvatti hann þá báða vini sína, Jón Árnason og síra Magnús Grímsson, að halda áfram safni sínu og gaf þeim von um að safn þeirra mundi verða prentað á Þýzkalandi. Jón Árnason sendi nú sama haust „hugvekju“ svo hljóðandi til vina sinna og fræðimanna á Íslandi:

„Allt það sem eftir fylgir er mér einkar áríðandi að fá uppskrifað eftir manna minnum:

1. Fornsögur alls konar um staði og menn: - A. sem loða við bæi, hóla, steina, fjöll, vötn, ár, læki, firði, flóa o. s. frv. - B. um nafnfræga íslenzka menn á fyrri öldum, helga menn og fjölkunnuga (Sæmund fróða, Eirík prest á Vogsósum, Kálf Árnason, Hálfdan Einarsson eða Eldjárnsson prest að Felli í Sléttuhlíð o. fl.), afrek, aðfarir og spakmæli fornmanna sem ekki er í sögur fært. - C. útilegumannasögur. - D. sögur um goð, tröll og jötna. - E. álfasögur og huldufólks. - F. sögur um grýlu, jólasveina, dísir, landvættu, landdrauga, sjódrauga, sjóskrímsli, illfiska, sænaut (sækýr), nykra, vatnsskrímsli. - G. sögur um drauga, afturgöngur, uppvakninga, sendingar, vofur, fylgjur, svipi, útburði. H. sögur um snakka (tilbera) og hvernig þeir eru til búnir. - I. um gjaldbuxur, Papeyjarbuxur (Finnabrækur), gandreiðir og hvernig sé til búið, um flæðarmýs og þjófarót. K. um óskastund, búrdrífu, fólgið fé í jörðu, dalakúta, útisetur á krossgötum, Vafurloga.

2. Gömul kvæði alls konar sem höfð eru til skemmtunar ungum og gömlum og ekki eru prentuð: - A. rímur gamlar, söguljóð, fornkvæði, vikivakar og lýsing þeirra, dansleikar (þrennt hið síðast talda flest með viðlögum). - B. kvæði um fugla og dýr, fyrirburði og forynjur (krummakvæði, tófukvæði, grýlukvæði og leppalúðakvæði). - C. þulur alls konar, langlokur, barnavísur og allar barnagælur. - D. þulur og fyrirmæli (formálar) við leiki og tafltegundir alls konar sem börn og fullorðnir temja sér eða hafa tamið og greinilegar skýrslur um allan ganginn í leiknum og aðferð í taflinu. - E. fyrirbænir fornar fyrir sjálfum sér, særingar illra anda og til að afstýra mótgangi, slysum, illviðrum og andviðrum, gjörningum o. fl. - F. Víti ein og önnur sem börn og fullorðnir mega ekki gjöra. - G. gátur í bundinni og óbundinni ræðu.“

Landsmenn brugðust nú svo vel undir þetta sem þetta safn ber með sér; sumir prestar skrifuðu raunar að þetta „væri fyrir neðan sig“ og sendu ekkert, en þetta hefur margfalt bætzt upp því aðrir prestar hafa aftur sýnt sig sem alþýðlega fræðimenn og verið beztu sögumenn safns þessa. – Þegar Maurer kom heim aftur úr Íslandsferð sinni safnaði hann í eitt þjóðsögum þeim sem honum höfðu verið sagðar á Íslandi og gaf út bók sem heitir Isländische Volkssagen (Íslenzkar þjóðsögur), Leipzig 1860, að forlagi Hinrichs's bókhöndlunar í Leipzig. Sama bókaverzlun gekk nú og að því eftir umráði Konráðs Maurers að prenta safn af íslenzkum þjóðsögum á íslenzku, 80 arkir í tveim bindum, og kemur nú hið fyrsta bindi fyrir almennings sjónir.

Nú var því þá borgið að safn þetta yrði prentað, en enn var þó loku fyrir skotið að þessar sögur kæmist í hendur Íslendinga nema stöku manni og mátti þá segja að þeirra yrði ekki hálf not ef engir yrði aðrir handhafi að þeim en lærðir menn útlendir, en yrði ekki almenningi íslenzkum til skemmtunar og dægradvalar og á þann hátt örvaði menn til að sinna enn sögum þessum. Jón Sigurðsson forseti deildar Hins íslenzka bókmenntafélags í Kaupmannahöfn samdi nú við Hinrichs's bókaverzlun í Leipzig um að hún gæfi Hinu íslenzka bókmenntafélagi kost á að kaupa bók þessa handa meðlimum félagsins með svo góðum kjörum að félagið þyrfti ekki að hnekkja fyrir þá skuld öðrum störfum sínum. Eftir að forseti hafði náð kostum sem félaginu vóru hagfelldir bar hann þetta fram á félagsfundi og brugðust félagsmenn vel undir það, en síðan var það samþykkt á deildarfundi í Reykjavík. Jón Sigurðsson hefur og frá öndverðu verið bezti styrktarmaður safns þessa og hefur hans ráða oft að notið af því höfundi safns þessa er kunnigt að hann jafnt ann þjóðsögum vorum og alþýðlegum fróðleik sem hverju öðru því er landsmönnum gæti orðið frami í.

En með því bók þessi var prentuð á Þýzkalandi í fjarska við höfund hennar þá sýndi Konráð Maurer enn velvild sína við safn þetta sem vel má heita fósturbarn hans að hann tókst á hendur að annast prentun og prófarkalestur, og er það enginn smár ómaksauki þar sem prentarinn ekki skilur orð í því máli sem bókin er prentuð á, en handritið ritað með ýmsum höndum og stafsetning stundum ósamhljóða af því margir hafa safnað. Þessa verður góðfús lesari að gæta og ætla ég að prentvillur sem raska máli verði þá færri en von væri og má það þakka vandfærni og athuga Konráðs Maurers; en hins vegar varð þó prentun að ganga skjótt og greitt.

Þannig er nú safn þetta undir komið og er þetta þó minnstur hluti þess sem til er á Íslandi í munnmælum, og er það sjón sögu ríkari að meir en tveimur þriðjungum safnsins hefur verið safnað hin þrjú síðustu ár síðan Maurer fór af Íslandi svo landsmönnum gekk engin örbirgð til að svo tregt gekk framan af. Hafa landsmenn í þessu sýnt að þeir eru seinfara í fyrsta bragði, en góðir til þrautar. – Niðurröðun og þáttaskipan er mest tekin eftir bók Konráðs Maurers, en hann hefur skipt í þætti eftir sem nú tíðkast mest á Þýzkalandi. Þó nú þáttaskipan þessi í sumu kynni að standa til umbóta eftir eðli hinna íslenzku sagna er þó sjónarmunur að lesa sögurnar nú hjá því sem að lesa hin fyrri boðsrit eður ævintýrin 1852 þar sem sögurnar eru hvor innan um aðra; teljum vér þáttaskipanina mestu varða næst því að sögurnar sé vel sagðar því án þess verða þær ekki nema fölskvi fyrir utan lit og blæ.

En um sögurnar sjálfar er það að segja að þær koma hér fram flestar að mestu óbreyttar eins og sögumenn út um landið hafa ritað þær upp og sent þær Jóni Árnasyni sem á þann hátt hefur verið sem ritstjóri safnsins fremur en höfundur; Bera því sögurnar ýmsan blæ eftir sögumönnunum út um landið. Eru sögurnar því miklu fjölbreyttari að orðfæri en annars væri ef einn maður hefði sagt allar eða fært í letur; enda virtist bezt hæfa að fara svo að þar sem svo margir bændur kunna engu verr og oft betur en lærðir menn að setja á pappír sögur og hvað annað; en með því engar mállýzkur eru í landinu í líkingu við það sem er í öðrum löndum þá er allt fyrir það allt af einu bergi brotið svo engin fjórðungamót finnast á sögum þessum. Það skiptir þó að sumir fara betur með sögur en aðrir; þó vonum vér að allflestar reynist í góðu lagi og beri þess vott að menn kunni enn að segja sögur á Íslandi, ekki síður ungir menn en karlar og kerlingar svo þessi bók þarf ekki að óttast að verða nefnd kerlingabók fyrir þá skuld.

Vér verðum nú að leyfa oss að nefna nokkra af þeim sem oss þykja fara bezt með sögur og sem þjóðsögur þessar eiga svo mikið að þakka; má þar nefna fremstan síra Skúla Gíslason á Breiðabólstað, en hann hefur lagt til flestar sögur sem allar eru góðar og margar ágætar og það sögur um allt land; væri þar skarð fyrir skildi ef hann hefði látið sín ógetið við safn þetta. Af Norðurlandi eru flestar og beztar sögur eftir Jón alþingismann á Gautlöndum; af Suðurlandi eftir síra Sveinbjörn Guðmundsson, að austan úr Skaftafellssýslu frá Runólfi bónda Jónssyni í Vík; að vestan frá síra Eiríki Kúld á Helgafelli og Gísla Konráðssyni. Rúm og efni safns þessa leyfði því miður ekki að hagnýta nema stöku greinir úr þáttum Gísla Konráðssonar um síra Eirík í Vogsósum, síra Hálfdan á Felli og Þorleif Þórðarson, en bók þessi sýnir þó bezt hvað margt höf. hennar á að þakka ljúfri aðstoð þessa margfróða manns. Eftir Þorvarð bónda Ólafsson á Kalastöðum eru og nokkrar sögur í safni þessu og verðum vér að nefna eina, söguna af Sigurði og drauginum, bls. 255-56, sem svo vel er sögð að hún minnir á það sem bezt er sagt á íslenzku, t. d. Njálu. Sumar sögur með hans hendi eru frá Páli sýslumanni Melsted sem vel fer með sögur. Eftir Sigurð málara Guðmundsson eru nokkrar sögur í safninu og allar merkar og að einhverju einkennilegar; og enn má tilgreina marga fleiri, en það virðist vanþörf af því svo er til ætlað að við enda safnsins sé listi yfir alla þá, sem sögur eru eftir í bókinni enda stendur og nafn hvers framan við flestar sögurnar og getur hver bezt dæmt eftir því hvað honum líkar bezt.[29] Öllum þessum mundi höfundurinn færa ljúft þakklæti sitt.

En ekki mundi höf. hvað sízt í formála bókar sinnar hafa getið kvenmanna á Íslandi. Þeirra er minna getið við bókmenntir en skyldi því þó þær skrifi ekki eins margar bækur og karlmenn þá hafa þær þó alla stund fóstrað á skauti sér sagnafræði vora og þjóðsögur. Þess er snemma við getið að meðan sonurinn lærði í skóla af karlmönnum latínu og útlendan fróðleik þá kenndi móðir hans honum ættvísi.[30] Ari fróði ritaði ættvísi og um bygging Íslands eftir sögn Þuríðar spöku og enn er svo þann dag í dag að mæður og konur kenna börnunum hvað bezt það sem þjóðlegt er og segja sögur ávallt manna bezt og mundi sögur vorar og þjóðsiðir löngu hafa farið að forgörðum ef þeirra hefði ekki að notið. Í safni þessu eru nokkrar sögur og margar ágætar sagðar eftir kvenmönnum, en hinar eru þó miklu fleiri sem þangað eiga kyn sitt að rekja sem karlmenn muna eftir því sem mæður þeirra eður annað kvenfólk hefur sagt þeim í barnæsku.

- - -

Ég verð að lokum að telja nokkra afsökun til þess að ég, en ekki höfundur safnsins, hef ritað formála þenna. En hún er sú að bókin var prentuð í fjarska við höfundinn, en prentun gekk fljótar en við var búizt; bar því bráðar að að semja formálann en ætlað var, en langt að leita höfundarins út á Íslandi; vóru tveir kostir fyrir hendi, annaðhvort að láta hið fyrra bindi fara formálalaust eður að annar hvor okkar Maurers ritaði formála til bráðabirgða, þangað til höfundi safnsins gæfist kostur að rita annan fyllri og betri. Það þótti ekki gjörlegt að láta lesendurna fá formálalaust hið fyrra bindi safnsins, af því nú er svo til ætlað að árs bið verði milli fyrsta og annars bindis; hitt var og ógjörlegt að fresta prentun þangað til skip ganga í vor af Íslandi. Ég hef því ritað þetta í bráð og hef ég gjört það fyrir þá skuld að ég hef verið svo sem milligöngumaður milli beggja málsaðila safns þessa: Jóns Árnasonar út á Íslandi og Konráðs Maurers suður á Þýzkalandi, því handritið hefur gengið gegnum mínar hendur á leið sinni frá Íslandi og suður á Þýzkaland svo mér er það nokkuð kunnugt og saga þess. Þetta hefur því hlotizt af atvikum, en ekki því að ekki væri báðum okkur Maurer kærara að sjá formála frá hendi höfundarins sjálfs. Formáli þessi er af vanefnum gjör af því að svo bráðan bar að og mætti miklu fleira safna að líkindum ef tóm væri nóg. Þó hefði vanefnin orðið meiri ef ég hefði ekki nú sem oftar notið aðstoðar Jóns Sigurðssonar og að handrit þau sem flest er ritað eftir vóru nú hér að hans undirlagi.

GUÐBRANDUR VIGFÚSSON


 1. Það er varla efamál að sagan af Kötlu eins og hún er nú sögð á Íslandi og prentuð hér er tekin eftir kvæðinu; þar á móti hef ég heyrt sagða Vambarsögu sem ég ætla að ekki sé sögð eftir kvæðinu og með íslenzkum nöfnum og sumstaðar betri en kvæðið. Flestar hinar sögurnar sem kveðið var eftir munu nú týndar í munni manna.
 2. Fyrsta rúnanafnið verður ekki lesið.
 3. Tvö rúnanöfn verða hér ekki lesin.
 4. Verður ekki lesið.
 5. Flest í AM 624 og 657 4to.
 6. Víst tvö kvæði með því nafni eru til.
 7. Nye kongel. Saml. 1275 fol., „nescio an vel vitæ inculpatæ, vel famæ illibatæ, sed ingenio excellenti etc.“
 8. Sjá Snorra-Eddu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík, bls. 1366, 1487.
 9. Handrit Þorvaldar Sivertsens í Hrappsey.
 10. Hann kvað sjálfur um sig [sbr Söguna af Axlar-Birni.]:
  „Enginn er verri
  en Ormur á Knerri.“
 11. AM 200 8vo er og handrit af Tíðfordríf.
 12. Eitt er enn í Stokkhólmi, 38 fol., og er samhljóða.
 13. Sjá Jón krukk, athgr. 2.
 14. Sbr. kvæði Eggerts Ólafssonar, bls. 116.
 15. Þ. e. kjör.
 16. Bls. 98-99 skýtur ritari bókarinnar Jón Eggertsson inn litlum þætti af sjálfs síns brjósti.
 17. Af þessari ritgjörð er og ágætt handrit sem Jón Sigurðsson á og er með hendi síra Snorra á Húsafelli, og þar finnast uppdrættir af fuglum sem ekki finnast í Stokkhólmshandritinu.
 18. Rit Björns á Skarðsá eru gjörst talin upp af Finni Magnússyni í Grönl. hist. Mind. I. 81.-83.
 19. Ólafur tóni Þorleifsson var af hinni fornu Reykhólaætt; hann mun hafa búið í Skarði á Skarðsströnd í lok 14. aldar. Hann drukknaði á dýradag 1393 í Steinólfsdalsá (sjá Flateyjarannál). Hann gaf Staðarhólskirkju hálfar Bjarneyjar (sjá Vilkinsmáldaga).
 20. Jón Eggertsson, skrifari handritsins nr. 64 fol., fellir þá sögu hér út því hann hafði áður í bókinni ritað þátt um síra Þorkel og eflaust tekið það úr ritgjörð Ólafs. Í 64 fol. vantar þó upphaf þáttarins.
 21. Fyrr er stutt saga um síra Árna að Látrum, en hann skildi hrafnsmál. Á öðrum stað hefur skrifarinn sett inn í ritgjörð Björns á Skarðsá litla grein um þær fjórar höfuðgaldrabækur „af rúnum og kröftugu riti fullar sem lengi hefur merki til sézt fram eftir öldunum, sem svo kölluðust: Grænskinna, Gulskinna, Rauðskinna, Silfra.“ Af þessum bókum höfðu hinir fyrri galdramenn vísdóm sinn. Höf. segir þar og að sumir segi „að einn stafur af mörgum rúnabókstöfum samansettur hafi tíðum svo kröftugur fundizt á kálfskinnsbókum ritaður að ei hafi í eldi kunnað að brenna.“
 22. Kallske Saml. 140 fol.
 23. Af orðum Árna er þó að ráða sem sagan hafi þá verið nokkuð öðruvís sögð og Gullbrá búið í Hvammi fyrir landnámatíð á undan Auði.
 24. Sjá Islands Lagasafn [Lovsamling for Island] II, 574-75 og 609.
 25. En ekki Karlamagnúss.
 26. Gott handrit af hinni ísl. ritgjörð finnst og í Nye kgl. Saml. 473 fol.
 27. Má af þessu sjá að Páli hefur ekki verið verra en vart.
 28. Sagan um Eirík Laxdal er tekin eftir handriti Jóns Árnasonar (sbr. Formáli Jóns Árnasonar).
 29. Stöku mönnum hættir við að stæla eftir fornsögum, verður málið þá stundum stirt og afbökuð fornyrði. Stöku sögur ætla ég og sé hér sem ekki eiga réttan stað í þessu safni, t. d. þáttur af Grími Skeljungsbana sem ég er hræddur um að sé til búinn eftir ættartölum í Landnámu og ortar inn í vísur og stælt eftir þættinum um Glám í Grettlu og svo Bárðar sögu og ætti hann því heima í annað sögusafn en þetta.
 30. Sjá Þorláks sögu helga, Bisk. s. I, 42.